Um höfundinn
Rúnar Helgi Vignisson

Rúnar Helgi Vignisson

Rúnar Helgi Vignisson er dósent í ritlist við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur umsjón með ritlistarnámi við skólann og er jafnframt rithöfundur og þýðandi. Sjá nánar

Öðru hverju taka sum þeirra sem fjalla um bókmenntir upp á því að tala um skemmtilegar og leiðinlegar bækur. Gjarnan fylgja þá yfirlýsingar um að fólk eigi ekki að lesa leiðinlegar bækur og stundum er því jafnvel bætt við að þeir sem ekki lesi skemmtilegar bækur séu illa haldnir af bókmenntasnobbi.

Ég hef ýmislegt við þennan málatilbúnað að athuga. Byrjum á persónulega samhenginu:

Við hjónin lesum töluvert. Stundum höfum við bæði gaman af sömu bókinni en fyrir kemur að einungis annað okkar nýtur hennar. Mér mundi samt aldrei detta í hug að væna konu mína um að hafa lélegan bókmenntasmekk. Mér mundi ekki heldur detta í hug að saka hana um að lesa leiðinlegar bækur. Ég veit að hún hefur sumpart annan smekk en ég, t.d. hefur hún allt öðruvísi skopskyn en ég og finnst sumt sem ég hlæ að bara hallærislegt. Það mundi samt seint hvarfla að mér að álasa henni fyrir að hafa síðra skopskyn en ég.

Þegar einstaklingur notar lýsingarorð á borð við „skemmtilegur“ og „leiðinlegur“ vísar hann gjarnan til sjálfs sín í þágufalli: Mér finnst bókin skemmtileg. Eða svo við tökum sambærilegt dæmi sem allir kannast við: Mér finnst rigningin góð. Þágufallið táknar í hvers þágu eitthvað verður, í þessu tilfelli ánægjan af bókinni eða rigningunni. Um leið notum við sögn sem felur í sér huglægt mat þess sem þiggur skemmtunina: mér finnst. Við getum að vísu lýst því yfir að bók sé skemmtileg en þá er ævinlega undirskilið að um persónulegt mat sé að ræða því ekkert getur í eðli sínu verið skemmtilegt eða leiðinlegt.

Sumum finnst skemmtilegt að horfa á íþróttir, öðrum finnst fátt leiðinlegra. Sumir hafa gaman af glæpasögum, aðrir hafa ímugust á þeim.

Viðtökufræði snúast um það hvernig merking verður til við samspil lesanda og texta. Viðtökufræðingar reyna að grafast fyrir um það hvernig við lesum og hvað mótar viðtökur okkar. Þá er gert ráð fyrir því að textinn feli ekki í sér hina endanlegu og óumdeilanlegu merkingu heldur skapi lesandinn verkið þegar hann les það. Textinn hefur þá enga merkingu nema í huga lesandans, textinn kemur hughrifum af stað hjá lesandanum og þar með er hann orðinn virkur gerandi í merkingarmynduninni. Lestur er sem sé samvinnuverkefni höfundar og lesanda, lesandinn þarf að skapa verkið úr orðum höfundarins. Haft er eftir Joseph Conrad að höfundurinn semji aðeins helminginn af bókinni, lesandinn hinn helminginn.

Við lesturinn kallar lesandinn til þá forþekkingu sem hann hefur og nýtir hana til að túlka textann. Hafi hann litla þekkingu á efninu er hætt við að honum þyki textinn tyrfinn. Þar sem lesendur eru af ólíku sauðahúsi lesa engir tveir sama verkið með nákæmlega sama hætti og raunar getur sami einstaklingur lesið sama textann á gerólíkan hátt ef langur tími líður á milli lestra. Upplifun lesandans og túlkun er með öðrum orðum háð því sem hann hefur reynt og lesið. Sænski rithöfundurinn Olof Lagercrantz bendir á það í bókinni Om konsten att läsa och skriva að lestur dýpki eftir því sem lesandinn verður reynslunni ríkari.

Útlendur lesandi sem hefur enga þekkingu á ævi og störfum Halldórs Laxness mun t.d. lesa Höfund Íslands eftir Hallgrím Helgason með allt öðrum hætti en sá sem er vel að sér um Laxness. Þann útlenda skortir tilvísanaheim bókarinnar (til að bæta úr slíku eru oft skrifaðir formálar eða eftirmálar að þýðingum). Viðtökufræðingar hafa m.a. beint sjónum sínum að því hvaða áhrif djúpstæðar þrár lesandans hafa á upplifun hans, eins að því hvaða áhrif atriði á borð við stétt og stöðu hafa á lestur. Stjórnmál móta líka lestur okkar að mati viðtökufræðinga og fengju þeir sjálfsagt nóg fyrir sinn snúð með því að lesa Morgunblaðið eftir hrun.

Af sjálfu leiðir að ekki eru til neinar bækur sem eru í eðli sínu skemmtilegar eða leiðinlegar. Eitt það dásamlegasta við bókmenntirnir er einmitt að þær eru jafn fjölbreyttar og lesendurnir og þess vegna getur hver fundið þar eitthvað við sitt hæfi. Ekki þykir mér  ástæða til að gera það tortryggilegt þótt sumir lesi sígildar bækur, aðrir skvísusögur, því hver hefur sinn bakgrunn og hann breytist með hverri lesinni bók. Fólk les einfaldlega eins og áhugi þess og smekkur býður hverju sinni. Þá er gaman! En ef kveðið yrði á um að allar bækur skyldu vera skemmtilegar er hætt við því að þær yrðu fljótt leiðinlegar.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *