Kristur undraverkanna

Kristur undraverkanna í Puebla, Mexíkó

Messunni er að ljúka þegar ég geng inn. Kirkjan er þéttsetin og sterkur blómailmur fyllir vitin. „Vertu sæl himnamóðir, drottning, vertu sæl,“ kyrjar söfnuðurinn. Þetta er lítil kirkja miðað við aðrar hér og engar hliðarkapellur. Ekkert söngloft, ekkert orgel. Kirkjuskipið er langt og mjótt og ekki auðan blett að sjá á veggjum kirkjunnar: málverk, líkneski, blómvendir og skrautmunir blasa við hvarvetna. „Ite missa est,“ segir prestur, en kirkjugestir sýna ekki á sér fararsnið. Reyndar kemur hreyfing á fólkið, margir halda inn í skrúðhúsið og þiggja sérstaka blessun sem prestur hefur boðið. Eftir skamma stund birtist fólkið aftur, sumir með helgimyndir og líkneski. Einn heldur á býsna stórri styttu af Jesú á asnanum – á leið inn í Jerúsalem. Aðrir ganga upp að altarinu og láta mynda sig og enn aðrir halda yfir í hinn enda kirkjuskipsins og blanda sér í mannþröngina þar sem djásn kirkjunnar er: Kristur undraverkanna. Þetta líkneski af Kristi er eitt hið vinsælasta í Puebla í Mexíkó og margir heita á hann. Kirkjan sem hýsir það er hins vegar síður en svo hin markverðasta eða fallegasta í borginni Puebla sem státar af ótal stórbrotnum kirkjum frá nýlendutímanum. Hér gefur að líta Krist í líkamsstærð, á hnjánum að sligast undan krossinum. Hann er að falli kominn sökum þunga byrðarinnar. Hann er blóði drifinn og dökkir, liðaðir lokkarnir falla fram á ennið. Hann er klæddur flauelskyrtli með gullbryddingum og liggur í glerskríni með viðarumbúnaði. Í bakgrunninum má sjá svart flauelsklæði og þar á fórnargjafir. Þetta eru svonefnd milagritos, smáir munir úr silfri eða gulli sem sýna mismunandi líkamshluta.

Fólkið stendur eða krýpur fyrir framan líkneskið og þylur bænir. Tekur síðan upp gul kerti, tendrar þau og setur á tilætlaðan stað. Einhverjir strjúka kertinu sínu eftir líkamanum: baki, fótleggjum, handleggjum, hálsi – hvar sem meinið er að finna – áður en kveikt er á því. Þetta fólk er þreytt, þjakað, þjáð. Og þrúgað af raunum. Fólk sem nýtur ekki gnægða Mexíkó. „Verið góð,“ sagði presturinn í messulok. Ég geng út. Í dyragættinni stendur gömul kona sem getur ekki reist sig upp nema til hálfs. Tötrar hennar eru grómteknir en svo álút er hún að ekki er mögulegt að sjá andlit hennar. Riðandi réttir hún fram höndina. Fyrir utan eru nokkrir sölubásar þar sem fá má ýmsan varning sem minnir á Krist undraverkanna. Ég held áfram leið minni og sé fyrirsagnir dagblaðanna á hverju götuhorni: „Háskólarektor sakaður um peningaþvætti“, „Fjöldagröf finnst í Tamaulipas. 88 lík“, „Dregur úr fátækt í Mexíkó“, „Efnahagskerfi Mexíkó heilbrigt“, „Eiturlyfjaofbeldi flyst norður fyrir landamærin“. Mér verður litið á blað sem ég tók þar sem það lá frammi hjá Kristi undraverkanna og ég les:

Kæri Jesús undraverkanna. Á þig set ég allt mitt traust, þú sem allt veist. Faðir og Drottinn alheims, konungur konunga, þú sem lést lamaða ganga, reistir menn upp frá dauðum og læknaðir holdsveika.
Þú sérð angist mína, raunir og tár og þú veist, himneski faðir, hversu mikils ég þarfnast náðargjafar þinnar (hér skal mæla fram beiðni) … Og sem tákn um kærleik minn og þakklæti, Drottinn Jesús, mun ég ljósrita 100 eintök af þessari bæn til þess að aðrir bræður og systur, sem þín þarfnast, læri að treysta á miskunn þína. Ég lofa að skilja blöðin eftir í kirkju þinni til dreifingar …

Kristín Guðrún Jónsdóttir
Aðjúnkt í spænsku


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *