Konur sem fara huldu höfði

Löngum hefur líkami konunnar verið söluvara. Jafnan er hann skammarlega lágt metinn, þrátt fyrir að vera munaðarvara. Vissulega má svo deila um hvort nokkur verðlagning sé réttlætanleg yfir höfuð. Þær deilur eiga sér stað með reglulegu millibili. Nóg um það.

Það er gömul saga og ný að konur eru notaðar sem leikmunir í auglýsingum, enda hefur það gefist einkar vel. Rakspírar, bílar, áfengi, utanlandsferðir og dýnur virðast seljast mun betur ef fáklæddar konur sýna með nærveru sinni fram á „gæðin“. Sjálf gæti ég ekki hugsað mér að kaupa viskí væri ekki nakin kona búin að gefa því bestu meðmæli. Og þá er ekkert endilega nauðsynlegt að hafa höfuðið með á myndinni. Líkaminn er það sem máli skiptir.

Ýmsir hópar femínískra mótmælenda hafa hulið andlit sín við mótmælaaðgerðir. Má þar til dæmis nefna górillurnar í Guerrilla Girls og lambhúshettuklæddu pönkarana í Pussy Riot. Einhverjir telja þessar andlitsumbúðir ætlaðar til þess að skapa samstöðu í hópnum – mynda einhvers konar sameiningartákn. Aðrir segja þetta einfaldlega vera heigulshátt. Burtséð frá ástæðunum sem liggja að baki þá vekur þetta fólk til umhugsunar. Ef konur eru annars vegar, skipta þá höfuð máli?

Og talandi um höfuð.

Listaverkasafnari nokkur í París rambaði inn í antíkverslun fyrir þremur árum. Þar rak hann augun í andlitsmynd af „lostafenginni fegurðardís“. Málverkið kostaði 1400 evrur, það jafngildir um það bil 237 þúsund krónum, sem setti hann ekkert á hausinn, svo hann keypti það. Það var mikið gæfuspor.

Þegar hann kom heim tók hann eftir því að brúnir strigans höfðu verið skornar til. Hann fékk þá flugu í höfuðið að andlitið tilheyrði kannski stærra verki. Átti munaðargjarna konan líkama sem hékk kannski á vegg annars staðar í París? Safnarinn varð æstur og fékk líkamann brátt á heilann. Verkið var ómerkt en á bakhlið strigans var einhvers konar stimpill, hugsanlega frá sölumanni aftan úr grárri fortíð. Nú fann listaverkasafnarinn að hann gæti ekki um frjálst höfuð strokið fyrr en hann kæmist til botns í þessu máli. Hafði hann fundið verðmæta perlu? Höfuðdjásn? Safngrip? Hver var þessi frygðarfulla kona?

Til að gera langa og spennandi sögu stutta komst kauði að því að hér lá höfuð þeirrar konu sem gjarnan hefur verið tengd sköpun alheimsins. Sköp hennar, það er að segja. Ætli sköp hennar séu ekki þau frægustu í heimi? Í það minnsta í hinum hámenningarlega listaheimi. Píka hennar hefur verið til sýnis í Orsay safni Parísarborgar frá árinu 1995. Þar á undan hafði hún ferðast á milli listaverkasafnara og opinberra sýningarstaða. Hún er nefnd Upphaf heimsins, eða L’Origine du Monde, og var máluð á striga fyrir hartnær 150 árum. Menn hafa velt vöngum yfir þessum lögulegu sköpum æ síðan Gustave Courbet kom þeim fyrir á striganum, en fyrirmyndin var uppáhaldsmódelið hans og eiginkona vinar hans, bandaríska listmálarans James Whistler (konan hét Joanna Hiffernan, ef einhverjum skyldi ekki vera sama). Courbet hefur svo ákveðið að ganga milli bols og höfuðs á verki sínu og aðskilja höfuð og búk. Kannski var þetta femínísk félagsfræðirannsókn hjá honum? Í það minnsta varð píkan smám saman heimsfræg en andlitið gleymdist.

En nú er sumsé búið að finna höfuðið og með því fylgdi fyrirsætan líka. En hvað getum við lært af þessari sögu? Jú, að næmt auga karlmannsins þarf til að koma auga á verðmæti kvenhöfuðs sem hímir eitt í lítilli fornmunaverslun í París, vanmetið og falt fyrir slikk.

Halla Þórlaug Óskarsdóttir,
meistarnemi í ritlist


Comments

2 responses to “Konur sem fara huldu höfði”

  1. Margrét Elísabet Ólafsdóttir Avatar
    Margrét Elísabet Ólafsdóttir

    Þetta eru áhugaverðar vangaveltur um höfuð og sköp, en sem listfræðingur get ég ekki annað en leiðrétt þá rangfærslu að verk Courbet af kvensköpunum, hafi ferðast um heiminn á milli opinberra sýningarstaða þar til Orsay safnið eignaðist það. Verkið var einmitt ekki til sýnis opinberlega og átti ekki að vera það – ekki frekar en verkið Venus eftir Titian frá 16 öld, sem var fyrirmyndin af Olympiu eftir Manet frá 19 öld. – En listfræðingurinn Daniel Arasse, hefur einmitt fært rök fyrir því að Venus hafi verið þess tíma “pin up”. Verk eins og þessi voru hengd upp “prívat” á 16 öld. Á 19 öld urðu listasöfn hins vgar opinber, sem og sýningar á nýjum verkum. Olympia vakti því hneyksli þegar hún var sýnd opinberlega – því hún særði blygðunarkennd fólks. – Áður en það fór að tíðkast að listaverk væru hengd upp “fyrir alla að sjá” voru verk ef þessum toga hengd upp í svefnherbergjum, bakvið luktar dyr og aðeins sýnd útvöldum – amk í Evrópu. Eldri verkin eiga það sameiginlegt að þar hylja konurnar sköp sín – en þó eru tákn á verkunum sem vísa til þeirra. Eitt af því sem vakti hneykslun við Olympiu var hve blyðgunarlaus hún var í allri sinni netk. Verk Courbet var hins vegar of blátt áfram – sneri sér beint að efninu – enda var Courbet þannig málari – og því var verk hans jafnvel falið á bakvið önnur málverk. Lengi vel vissi enginn hvað hafði orðið um verkið, einmitt af því það var falið. Saga verksins er skrautleg – og skrýtin – eins og verkið sjálft.
    Þegar verkið komst í eigu Orsay safnsins skrifaði ég þessa grein :
    http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3348630

  2. Halla Þórlaug Óskarsdóttir Avatar
    Halla Þórlaug Óskarsdóttir

    Þakka þér fyrir gott innlegg í umræðuna, Margrét. Greinin þín frá 1997 er mjög áhugaverð.

    Ég var reyndar fyllilega meðvituð um sögu verksins, sem hægt er að lesa um víða á netinu, en hefði kannski mátt vera skýrari í framsetningu minni þarna. Það sem var efst í huga mér var menningarleg staða málverksins sem hefur farið vaxandi með ári hverju síðustu tvo, þrjá áratugina. Ætlun mín var því ekki að láta sem verkið hafi verið til sýnis í öll þessi ár heldur einungis leggja áherslu á vægi þess í listasögunni. Verkið var þó sýnt opinberlega, til dæmis í hinu stóra Brooklyn safni New York borgar árið 1988.

    Hins vegar er dulúðin yfir verkinu, sem þú talar meðal annars um í greininni þinni, áhugaverður vinkill í ljósi umræðunnar þar sem þessi óþekkta kona gekk manna á milli í „húmi nætur“ eins og klámtímarit á milli unglingsdrengja. Sú „dulúð“ er þó að sjálfsögðu af allt öðrum toga tveimur áratugum eftir að píka þessi varð almenningseign. Viðfangsefni pistilsins snýst miklu meira um þennan punkt og kannski hefði þurft að draga hann betur fram.

    Takk aftur fyrir athugasemdina.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *