Um höfundinn

Magnús Örn Sigurðsson

Magnús Örn Sigurðsson er með MA-próf í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands.

Formaður húsfélagsins lætur af störfum bráðlega. Nágranni minn hér á stigaganginum tjáði mér það. Fyrst hugsaði ég að formaðurinn væri að flytja annað en nágranni minn gaf í skyn að húsfélagsstjórinn væri einfaldlega orðinn of gamall fyrir starfið. Síðan ég átti þetta samtal við nágranna minn eru liðin tvö ár.

Í blokkinni þar sem ég bý er dræm mæting á húsfundi. Sjaldnast meira en helmingur íbúða sem senda fulltrúa sinn. Þetta er hins vegar eina fjölbýlishúsið sem ég hef búið í um ævina og því hef ég litla tilfinningu fyrir því hver eðlileg mæting á húsfund sé. Sumir mæta líklega alltaf. Aðra hef ég bara séð einu sinni. Sjálfur mæti ég ekki að staðaldri en gerði það þó fyrst eftir að ég flutti. Þá var mikið talað um þakið. Það var orðið lélegt, leki víða. Ákvarðanir voru teknar. Hússjóðurinn greiddi verktakafyrirtæki. Reikningur var látinn ganga í plastvasa hringinn í kringum stofuborðið hjá formanni húsfélagsins og fundarmenn skiptust á að kinka íbyggnir kolli.

Formaður húsfélagsins hefur dálæti á plastvösum. Hann vill helst ekki sýna fundarmönnum neitt nema það sé rammað inn í glært plast. Ég hef einu sinni séð vökva geymdan í plastvasa. Það var á húsfundi í blokkinni minni. Rörin eru orðin léleg, sagði formaðurinn og dró upp vasa sem hann hafði lokað kyrfilega með bréfaklemmum á tveimur hliðum. Vatnið lá í horni hans og á meðan plastvasinn gekk hringinn útskýrði formaðurinn að líklegast væri einhver skítur í vatninu. Tæring, fullyrti nágranni sem gaumgæfði pokann. Er þetta í heita- eða kaldavatnsrörunum, spurði annar.

Formaður húsfélagsins er ennþá formaður húsfélagsins. Kannski sagði nágranni minn aldrei að hann ætlaði að láta af störfum. Þegar ég hugsa til baka er ég ekki frá því að hann hafi sagt að formaður húsfélagsins ætti ekki langt eftir. Það þýðir auðvitað ekki það sama.

Það er húsfundur í blokkinni minni. Konan sem mætir líklega alltaf býður mér rauðan kóngabrjóstsykur úr tinöskju. Ég afþakka. Pappírar í plastvösum ganga í hringi. Ýmis mál eru rædd. Síðan tilkynnir fundarstjórinn að dagskráin sé tæmd og spyr jafnframt hvort fundarmenn vilji ræða eitthvað utan dagskrár? Nei? Hann byrjar að taka saman plastvasana og sumir rísa úr sætum.

Er orðið heitara hérna í blokkinni eða er ég að verða eitthvað klikkaður, segir einhver um leið og konan býður mér aftur kóngabrjóstsykur. Ég kann ómögulega við að afþakka í annað skipti. Jú, það hefur verið undarlega heitt hér, svarar annar, við ættum kannski að láta kíkja á ofnana?

Svona hlýnun á að taka fagnandi, tilkynnir formaðurinn, í mínu ungdæmi var kvartað yfir kulda en ekki hita. Það er komin móða á gluggana. Um tylft lungna hafa hamast í um tuttugu mínútur við að breyta súrefni í koltvísýring. Við erum öll staðin upp. Formaðurinn opnar svalahurðina, snýr sér á hæl og heldur áfram: En jújú, það má svo sem kanna þessi hitamál. Ég bý ekki einn í blokkinni og auðvitað verður hér líf eftir mitt.

Jahá, það er aldeilis. Kóngabrjóstsykurinn veltist rauður um í munninum á mér. Það liggja nokkrir tómir plastvasar á borðinu, enginn segir neitt og ég ímynda mér að formaðurinn sé farinn að geyma í plastvösum þögnina sem hlýtur alla jafna að ríkja í íbúð hans. Hitastigið í blokkinni var ekki á dagskrá fundarins og dauði formannsins ekki heldur.

Ég geng ásamt öðrum fundarmönnum í halarófu niður stigaganginn frá íbúð formannsins sem trónir efst á toppi hans. Við förum mislangt niður. Ég á síðasta hurðaskellinn þegar ég loka á eftir mér hurðinni á fyrstu hæð til hægri, sparka af mér skónum og horfi á sjálfan mig í speglinum á ganginum. Ég verð að viðurkenna að síðan ég átti samtalið við nágranna minn fyrir tveimur árum hef ég oft, í huganum, mátað mig í hlutverkið. Magnús Örn Sigurðsson, meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræði og formaður húsfélagsins?


Comments

One response to “Formaðurinn góði og húsið”

  1. Jón Ásgeir Avatar
    Jón Ásgeir

    Virkilega vel skrifað

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *