Um höfundinn
Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir er doktorsnemi í þýðingafræðum og starfar á alþjóðasviði Árnastofnunar. Hún hefur einnig sinnt stundakennslu í Deild erlendra tungumála og í Sagnfræði- og heimspekideild við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Ingibjörg er með meistarapróf í Mennta- og menningarstjórnun og bakkalárpróf í leiklist.

Það er ótrúlega gaman að fara í leikhús með lítil börn (og stór ef því er að skipta). Börn eru þakklátustu áhorfendur sem um getur. Þau lifa sig inn í verkið, taka þátt í sýningunni með framíköllum og hafa skoðun á öllu sem gerist á sviðinu. Leikarar verða að hafa sig alla við til að halda athygli smáfólksins, annars er engin miskunn hjá Magnúsi, þau missa áhugann og sýningin fer í uppnám. En mikið er gaman þegar vel gengur.

Á Litla sviði Borgarleikhússins er Gói (Guðjón Davíð Karlsson) að sýna leikgerð sína af ævintýrinu um Jóa og baunagrasið, Gói og baunagrasið. Gói leikur Góa og Þröstur Leó Gunnarsson leikur rest, eins og segir í auglýsingu.

Ævintýrið um Jóa og baunagrasið þarf vart að kynna. Einstæð móðir og sonur hennar búa við bág kjör en hinn útsjónarsami sonur reddar málunum á heldur óvenjulegan hátt.  Ævintýrið hefur allt sem þarf til að halda athygli kröfuharðra áhorfenda; skemmtilega sögu, risa, gullegg, hænu,  kú, baunagras sem vex upp í loft og allt kryddað með smá óþekkt.  Þeir Gói og Þröstur segja söguna eins og þeim einum er lagið með leiftrandi húmor og hnyttnum orðatiltækjum.

Leikgerð Góa er mjög vel heppnuð. Sjálfur hefur hann einstaklega lifandi framkomu og nær auðveldlega til áhorfenda af yngri kynslóðinni.  Í upphafi verksins kemur Gói fram sem hann sjálfur, kynnir Þröst, leggur leikreglurnar, spjallar við börnin og lætur þau vita þegar ballið byrjar.

Á sviðinu eru fjölmargir búningar á slám til hliðanna og leikmunir eru sýnilegir. Þetta er næstum eins og sýnikennsla í hvernig á að búa til leikrit, ja, kannski fyrir utan himinhátt baunagrasið, klifrið og fljúgandi risann. Þröstur hefur það erfiða en skemmtilega hlutverk að leika ”rest” og skiptir því oft um persónur. Búningaskiptin eru einföld því þau þurfa að gerast hratt og er stundum gripið það sem hendi er næst. Vafalaust er það viljandi gert og er kýrin, til að mynda, einstaklega hugvitsamlega útfærð og dæmi um hvernig börn geta sjálf búið til persónur úr því dóti sem þau eiga fyrir. Það þarf ekki mikið umstang við leikgerð, það má allt, hægt að nota allt (ef mamma leyfir).

Tónlistin er eftir Vigni Snæ Vigfússon og Góa. Mörg lögin eru mjög melódísk og grípandi og hefur undirrituð raulað stef úr söng risans í tíma og ótíma síðustu daga.

Áhorfendur voru alsælir í lok sýningar og klöppuðu leikurum lof í lófa og flýttu sér fram til að fá undirrituð veggspjöld. Hér var athyglinni svo sannarlega haldið allan tímann. Gói og baunagrasið er einstaklega skemmtileg barnasýning.

Leikarar: Guðjón Davíð Karlsson, Þröstur Leó Gunnarsson

Tónlist: Vignir Snær Vigfússon, Guðjón Davíð Karlsson

Leikgerð: Guðjón Davíð Karlsson


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *