Hver fær að blása á kertin? Frá Shakespeare 1769 til Schillers 2005

Um höfundinn
Jón Karl Helgason

Jón Karl Helgason

Jón Karl Helgason er prófessor í Íslensku sem öðru máli við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur skrifað fræðibækur og -greinar, fengist við þýðingar og komið að ritstjórn tímarita, bóka og vefja á Netinu. Sjá nánar

David Garrick í hlutverki Ríkharðs III eftir William Shakespeare árið 1745 á þeim tímapunkti í leikritinu þar sem Ríkharður gerir sér grein fyrir að dauðinn er yfirvofandi. David Garrick, þjóðþekktur Shakespeare-leikari, leikstjóri, leikritahöfundur og leikhúseigandi skipulagði fyrstu Shakespeare-hátíðina sem efnt var til í Stratford-upon-Avon árið 1769, rúmum 205 árum eftir að enska leikritaskáldið fæddist þar í bænum.

200 ára afmæli H.C. Andersen, sem ég fjallaði um í grein hér á Hugrás fyrir skömmu, er hluti af langri hefð minningarhátíða sem tengjast stórafmælum og ártíðum þekktra listamanna, vísindamanna og þjóðhetja víðsvegar um heiminn – einstaklinga sem ég hef viljað kalla veraldlega þjóðardýrlinga. Sumir vilja rekja þessa hefð, að minnsta kosti hvað rithöfunda snertir, til fyrstu Shakespeare-hátíðarinnar sem efnt var til í Stratford-upon-Avon árið 1769, rúmum 205 árum eftir að enska leikritaskáldið fæddist þar í bænum.

Aðalskipuleggjandi þessarar hátíðar var David Garrick, þjóðþekktur Shakespeare-leikari, leikstjóri, leikritahöfundur og leikhúseigandi. Ástæða þess að hann blandaðist í málið var sú að bæjaryfirvöld ætluðu að vígja nýtt ráðhús og könnuðu hvort að Garrick væri fáanlegur til að gefa bænum brjóstmynd, styttu eða málverk af Shakespeare til að skreyta bygginguna. Í staðinn var lofað að Garrick yrði gerður að heiðursborgara og fengi einnig að gjöf öskju sem skorin hefði verið út úr afleggjara trés sem talið var að enska leikritaskáldið hefði gróðursett í garði sínum í lifanda lífi. Garrick sagði ekki bara já takk heldur hafði frumkvæði að því að setja saman þriggja daga dagskrá í samráði við heimamenn. Hver dagur skyldi hefjast á því að hleypt væri af fallbyssum og ljúka á dansleik og flugeldasýningu en meðal annarra dagskráratriða var afhjúpun Shakespeare-styttunnar, sem Garrik gaf bænum, tónlistarflutningur – meðal annars á óratóríunni Judith eftir Thomas Arne – kappreiðar og reiptog persóna úr verkum skáldsins en Garrick lagði þar til búninga úr leikhúsi sínu við Drury Lane. Markmiðið var að lokka menningarelítu Englands upp í sveit til að hylla átrúnaðargoð sitt – „The god of our idoltary“ eins og sagði í ljóði sem Garrick samdi og flutti þegar styttan var afhjúpuð.[1]

Rigningar og flóð settu hins vegar strik í reikninginn, aflýsa þurfti sumum viðburðum, þar á meðal einni flugeldasýningunni og gestir á grímuballinu í samkomuhúsi bæjarins það sama kvöld, sem flestir voru í gervum persóna úr smiðju Shakespeares, blotnuðu í fæturna. Heimamenn mökuðu krókinn, verð á gistingu og veitingum var óeðlilega hátt þessa helgi, en í lok hátíðar stóð Garrick sjálfur uppi með tap upp á 2000 pund og mátti þola margháttaða gagnrýni og jafnvel háðsglósur fyrir framtakið. Helsti Shakespeare-fræðingur samtímans, Dr. Samuel Johnson, benti til að mynda á að ekki eitt einasta leikrit eða ljóð eftir meistarann hefði verið flutt á hátíðinni.[2] Garrick var þó ekki af baki dottinn því innan fárra vikna hafði hann samið leikritið The Jubilee sem gaf öllu þekkilegri mynd af dögunum þremur í Stratford en bresku dagblöðin höfðu gert. Verkið sýndi hann hvað eftir annað þennan og næstu vetur við góðar undirtektir í leikhúsi sínu; sjálfur lék hann vitanlega aðalhlutverkið: sjálfan sig.[3] Þrátt fyrir allt tókst Garrick að koma Stratford á kortið sem pílagrímastað Shakespeare-aðdáenda og skapa mikilvægt fordæmi fyrir síðari afmælishátíðir. Hefðin breiddist meðal annars út til annarra Evrópulanda. Þegar kom að 300 ára afmæli Shakespeares 1864 var frægð enska skáldsins orðin slík að það var ekki nóg með að tveggja vikna hátíðarhöld væru skipulögð í Stratford heldur tóku borgaryfirvöld í Birmingham og London einnig myndarlega við sér, sem og ýmsar borgir Þýskalands, reyndar undir slagorðinu „unsere Shakespeare“.[4]

Afmælisveislur, eins og flestir aðrir félagslegir viðburðir, lúta sínum eigin lögmálum; vissar hefðir skapast og þróast og þykja með tímanum bæði ómissandi og sjálfsagðar. Þegar ég var drengur var súkkulaðikaka með logandi kertum fastur liður á afmælinu mínu, að áti loknu fórum við börnin í leiki en í kringum sjö ára afmælið olli 16 mm sýningarvél afa míns þar vissri byltingu þar sem hún gerði mér kleift að bjóða gestum mínum upp á bíósýningu. Myndbandstæki, DVD-spilarar og leikjatölvur tóku við þessu hlutverki í afmæli barnanna minna og pizzubakstur hefur breytt matseðlinum en þó kemur enn fyrir að farið sé í flöskustút og alltaf er blásið á kerti. Hækkandi aldur hefur vissulega haft áhrif á gestalistann og skipulagið í afmælunum mínum; ég á þó enn eftir að halda upp á eigið stórafmæli með tugum eða hundruðum gesta, ræðuhöldum, glasalyftingum og dansleik.

Frímerki með mynd af William Shakespeare sem var gefið út árið 1864 þegar 300 ár voru liðin frá fæðingu hans.

Ef horft er á stórafmæli veraldlegra þjóðardýrlinga frá þessum sjónarhóli lítur út fyrir að slíkir viðburðir hafi (eða geti) gengið í gegnum nokkra fasa. Framan af virðast þessi tímamót hnitast um afhjúpun á opinberum minnismerkjum um viðkomandi eða uppbyggingu á safni á fyrrum heimili hans en frímerkjaútgáfa og örnefnabreytingar koma einnig oft og iðulega við sögu. Útgáfa bóka, sýningar og ráðstefnur eru orðin ómissandi hluti af slíku hátíðarhaldi en á síðari áratugum hafa sjónvarpið, kvikmyndatæknin og tölvutæknin einnig verið nýtt í vaxandi mæli. Það sem gerir þessi stórafmæli sérstök er að afmælisbarnið sjálft er fjarverandi en segja má að einn tilgangurinn með öllu tilstandinu sé að reyna að bæta upp þessa tilfinnanlegu fjarveru með því að framkalla ímynd einstaklingsins eða arfleifð hans.

Titli þessa greinaflokks er ætlað að draga athygli að því að í fjarveru afmælisbarnsins tekur einhver við hlutverki þess, skipuleggur veisluhöldin, leggur í nauðsynlegan kostnað, býður gestum og blæs jafnvel á kertin. Að einhverju leyti snýst spurningin um það hver hafi umráðarétt eða jafnvel eignarrétt á minningu viðkomandi einstaklings og jafnvel minningunni um þá minningu. Á hátíðinni í Stratford árið 1769 var David Garrick í raun staðgengill Shakespeares, reyndar í umboði bæjaryfirvalda; í tilviki H.C. Andersen árið 2005 má segja að yfirvöld í Kaupmannahöfn, á Fjóni og í Odense hafi, ásamt Bykubfonden, stofnað hlutafélag í kringum menningarlegt auðmagn Andersens. Þess má geta í þessu samhengi að formaður HCA 2005 Fonden var borgarstjórinn í Odense, Anker Boye.

Líkt og Garrick, sem samdi sjálfur leikritið The Jubilee, stóð  HCA 2005 Fonden fyrir heilmikilli úttekt á Andersen-afmælisárinu en munurinn fólst í því að til verksins voru ráðnir utanaðkomandi aðilar; fræðimenn (flestir reyndar frá Syddansk Universitet í Odense) sem fjölluðu með gagnrýnum hætti um afmarkaða þætti á borð við myndlistarsýningar, vefverkefni, leik- og dansuppfærslur og kynningarstarf í skólum. Skýrsla hópsins, sem ber titilinn Nu skulle vi høre!, er helsta heimild mín um þetta efni en þess má geta að þótt ýmsir höfundar minnist á opnunarhátíðina á Parken er enginn einn kafli helgaður þeim umdeilda viðburði. Þeir kaflar sem mér þóttu hnýsilegastir í skýrslunni voru samanburður Tom Pettitt á Andersen-afmælisárinu og Shakespeare-hátíðarhöldum fyrr og síðar, sem og afar athyglisverður og gagnrýninn samanburður sem Christian Benne gerir á Andersen-árinu og þeim hátíðarhöldum sem skipulögð voru í kringum 200 ára dánarafmæli Schillers í Þýskalandi árið 2005.

Minnispeningur sem gefinn var út á 200 ára fæðingarafmæli rithöfundarins Friedrich Schiller.

Samkvæmt Benne var Schiller-árið tiltölulega hógvær viðburður í samanburði við tilstandið í kringum 100 ára afmæli Schillers 1859 og 100 ára dánarafmæli hans 1905, þar sem skáldið var sannarlega hafið í dýrlingatölu. Ein ástæðan var sú að Schiller hefur í seinni tíð fengið meiri samkeppni frá öðrum þýskum eða þýskumælandi stórmennum. Árið 2005 voru liðin 50 ár frá dauða bæði Alberts Einstein og Thomasar Mann og 100 ár frá fæðingu Eliasar Canetti, auk þess sem menn voru farnir að búa sig undir 150 ára afmæli Sigmund Freuds og 250 ára afmæli Wolfgangs Amadeus Mozart 2006. Fyrst og fremst lýsir Benne þó Schiller-árinu sem fullkominni andstæðu Andersen-ársins. Í stað hinnar pólitísku og markaðslegu forystu í Danmörku hafi menningarstofnanir og fræðimenn, sérfróðir um Schiller, ráðið ferðinni í Þýskalandi. Á meðan lögð hafi verið áhersla á sviðslistir í tengslum við Andersen og þá gjarnan róttæka endursköpun verka hans, hafi Schiller-árið einkennst af öflugu útgáfustarfi og ráðstefnuhaldi. Í stað flugeldasýningarinnar á Parken hafi höfuðviðburðurinn á Schiller-árinu verið sólarhringslangur upplestur úr verkum þýska skáldsins þar sem meira en 80 þekktir stjórnmálamenn, rithöfundar, heimspekingar, leikarar, tónlistarmenn og aðrir menningarfrömuðir hafi lesið brot að eigin vali. Upplesturinn var sendur út beint, bæði í þýska sjónvarpinu og útvarpinu.[5]

Á undanförnum árum hefur verið haldið upp á tvö stórafmæli íslenskra þjóðardýrlinga; 200 ára afmælis Jónasar Hallgrímssonar var minnst árið 2007 og 200 ára afmælis Jóns Sigurðssonar var minnst á liðnu ári. Í báðum tilvikum voru settar á fót opinberar nefndir til að hafa yfirumsjón með hátíðarhöldunum. Störf þessara nefnda verða til umfjöllunar í þriðju og síðustu grein minni um þetta efni sem birtast mun hér á Hugrás innan tíðar.

Jón Karl Helgason,
dósent við Íslensku- og menningardeild


[1] Tilvitnun fengin frá Tom Pettitt, „You think you have problems? Shakespeare-fejringens genvordigheder fra The Great Stratford Jubilee til Shakespeare‘s Birthday Fun Run“, Nu skulla vi høre!,Samfatning og analyser af H.C. Andersen 2005, ritstj. Johs. Nørregaard Frandsen, Odense: Syddansk Universitetsforlag, 2007 s. 96. Hér er einnig stuðst við Jack Lynch. Becoming Shakespeare. How a dead poet became the world‘s foremost literary genius. London: Constable& Robinson, 2007, s. 239–56.

[2] Sama heimild en Pettitt vísar m.a. í rit Christian Deelman, The Great Shakespeare Jubilee, London: Michael Joseph, 1964, s. 6 og 270.

[3] Sjá: Brooks McNamara, „The Stratford Jubilee: Dram to Garrick’s Vanity“, Educational Theatre Journal14/2 (maí 1962), s. 139 og John A. Parkinson, „Garrick’s Folly: Or, the Great Stratford Jubilee“, The Musical Times 110/1519 (september 1969), s. 926.

[4] Tom Pettitt, „You think you have problems?“, Nu skulla vi høre!, s. 97.

[5] Christian Benne. „En sammenligning af H.C. Andersen-jubilæet og Schiller-året 2005“, Nu skal vi høre!, s. 109–13.

Deila


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *