Myndin sem dregin hefur verið upp af Jóni og Páll gerir svo góða grein fyrir er spunnin saman af staðreyndum, minningum, ímyndun, gildismati, persónugerðum hugsjónum, pólitískri tækifærismennsku og hagsmunatogstreitu af öðru tagi. Framan af stóð samkeppni um forsetann látinn. Við 100 ára afmælið tókst meiri samstaða og Jón varð að sameiningartákni. Allt fram til dagsins í dag hafa þó ólíklegustu hópar notað sér hann málstað sínum til framdráttar. Í uppvextinum var ég oft spurður í áminningartón: „Hvað heldur þú að pabba þínum finnist?“ Ef mikið lá við var afa blandað í málið! Í „þjóðaruppeldinu“ er þráfaldlega fullyrt hvað Jóni hefði fundist.
Páli tekst vel að benda á hvernig minningin um Jón hefur þróast líkt og eftir helgunarferli dýrlinga. Að vísu þurfti ekki að koma til beinaupptöku eins og þegar Jónas átti í hlut. Jarðneskar leifar voru þó fluttar um langan veg. Gröfin er helgur staður þar sem reglulega er efnt til minningarhátíða. „Standmynd“ af Jóni „sem steypt er í eir“ stendur í miðpunkti lýðveldisins og heimili Jóns og Ingibjargar í Höfn er fjölsóttur pílagrímastaður. Þegar minnst er á þau hjón saman ber þó að geta þess að ímyndarsmíðin um Jón hefur alla tíð verið karllæg og Ingibjörg gleymst að mestu.
Eini helgistaðurinn um Jón sem mistekist hefur af endurvekja er sjálfur fæðingarstaðurinn. Þar var byggt reisulegt steinhús sem aldrei hefur tekist að glæða neinu lífrænu hlutverki sem hæfir minningu Jóns. Auk þess var reist minningarkapella um leið og sóknarkirkjan á staðnum var endurbyggð þótt nokkur sókn fyrirfinndist tæpast. Loks stóð til að hlú að veggjarbroti sem enn stóð af gamla bænum og Jón hafði hugsanlega fæðst undir. Það hefði orðið látlaus og „ekta“ minnisvarði. Að ráði varð þó að reisa burstabæinn sem þar stendur nú. Skökk hlutföll byggingarinnar sýna þó að þarna er um að ræða 20. aldar eftiröpun af torfbæ fyrri tíma — óekta tilgátuhús. Forsagan var einkennilega lík aðdraganda Þorláksbúðar sem nú er deilt um í Skálholti. Hrafnseyrarnefnd fór sem sé sínu fram þrátt fyrir andstöðu fagfólks. Nú er torvelt að sjá gildi þess að þessi bygging standi á hinu forna bæjarstæði.
Sjálfur á ég ljúfa minningu frá Hrafnseyri. Við komum nokkrir karlar á staðinn á fögrum degi eftir ferð um Ketildali. Staðarhaldarinn og aðstoðarmaður hans sleiktu sólskinið úti undir vegg. Heimamenn voru báðir kennaramenntaðir og aðstoðarmaðurinn nemandi okkar sumra. Hann vildi að við gengjum í kapelluna og hann léki fyrir okkur lag. Við settumst dreift og bjuggum okkur undir ættjarðarlag jafnvel eitthvað andlegt. Við vorum alltént tveir vígðir í hópnum! Tónlistarmaðurinn tók dýfu og brast á með Tondelayo. Andaktin vék fyrir afkáraskap en stundin varð ógleymanleg. Tengingin við forsetann var þó óljós!
Leave a Reply