Um höfundinn
Íris Ellenberger

Íris Ellenberger

Íris Ellenberger er nýdoktor við sagnfræðistofnun Háskóla Íslands. Hún leggur stund á rannsóknir á sögu kynverundar á Íslandi og sögu fólksflutninga með áherslu á samskipti, átök og samblöndum ólíkra menningarkima í íslensku þéttbýli.

Árið 2011 var ár Jóns Sigurðssonar. Á síðustu tólf mánuðum höfum við fengið að kynnast því betur hver (eða hvað) hann var í gegnum ritgerðasamkeppnir, hátíðahöld, nýútkomnar bækur og að minnsta kosti eitt sérhefti tileinkað þessum ágæta manni. En undir lok árs kom út lítið rit á vegum Bókafélagsins Uglu og Sögufélags undir titlinum Ingibjörg. Hér er komin ævisaga Ingibjargar Einarsdóttur, konunnar sem er þekkt fyrir að hafa beðið í tólf ár eftir Jóni á Íslandi á meðan þjóðhetjan var upptekinn við nám, störf og sjálfstæðisbaráttu. En eins og höfundurinn, Margrét Gunnarsdóttir sagnfræðingur, dregur fram bjó margt fleira í þessari konu en biðlundin enda ver Margrét ekki nema 22 blaðsíðum í umfjöllun um árin tólf sem Ingibjörg er þó hvað þekktust fyrir. Uppvaxtarár og menntun fá enn minna pláss en þeim mun meira púðri er eytt í þau 32 ár mikillar samheldni sem fylgdu í kjölfar festaráranna. Þá tók Ingibjörg virkan þátt í störfum Jóns og átti stóran þátt í uppbyggingu þess orðspors sem ýtti undir það að Jón varð þjóðhetja í lifanda lífi. Þeim þætti í lífi og störfum Jóns hefur sjaldnast verið mikill gaumur gefinn enda hefur lítil meðvitund ríkt um þátt eiginkvenna í að byggja um það félagslega og menningarlega auðmagn sem er undirstaða þess frama sem eiginmenn þeirra hafa notið. Margrét leiðir hins vegar í ljós að Ingibjörg var bæði eiginkona og, sem slík, mikilvægur bandamaður Jóns í hans störfum.

Stærsta vandamálið sem Margrét stendur frammi fyrir er það að sárafáar heimildir liggja fyrir um Ingibjörgu. Bók Margrétar er því fyrst og fremst áhugaverð vegna þess að hún vekur athygli á þeim erfiðleikum sem sagnritarar nafngreindra kvenna úr fortíðinni glíma við þegar þeir reyna að gera viðfangsefnum skil. Og það jafnvel þótt konan sem um ræðir sé eiginkona þess manns sem er hvað best skrásettur á spjöld Íslandssögunnar. Verkefni Margrétar felst því að vissu leyti í að rýna aukasetningar, að lesa líf og tilveru Ingibjargar út úr lýsingum á ,,Jóni Sigurðssyni og konu hans”. Margrét grípur því jafnframt til þess ráðs að leita upplýsinga í þeim heimildum sem liggja fyrir um og eftir Jón sjálfan. Það er því afar viðeigandi að Jón vaki yfir eiginkonu sinni á bókarkápunni því hann er að vissu leyti lykillinn að ráðgátunni um þessa dularfullu konu.

Nærvera Jóns er því alltumlykjandi. Hennar nýtur meira að segja í lýsingum á eldhúsi Ingibjargar. Heimildanna vegna er saga Ingibjargar að mörgu leyti saga mannanna í kringum hana, bróður hennar, Ólafs Einarssonar prests, fóstursonarins Sigurðar en þó fyrst og fremst eins konar hversdagssaga Jóns Sigurðssonar. Þannig birtist Ingibjörg okkur aðallega, þó ekki einvörðungu, sem móðir, eiginkona og systir. Þótt lesandinn geri sér grein fyrir því að nærvera þessara karlmanna sé að mestu óumflýjanleg þá verður hún svolítið hvimleið þegar líður á frásögnina, sérstaklega þar sem þeir yfirtaka hana endrum og sinnum. Það bendir því til þess að ævisögur sem þessar séu ef til vill ekki besta leiðin til að skrá konur á spjöld sögunnar, eins og mikið hefur verið rætt um að undanförnu.

Margrét beitir þó ýmsum brögðum til að leysi Ingibjörgu úr viðjum aukasetninganna og staðfesta tilverurétt hennar utan tvíeykisins “Jón Sigurðsson og frú”. Að því leyti eru lýsingar á ljósmyndum af Ingibjörgu, persónuleika hennar, klæðaburði og fatakaupum með áhugaverðari köflum bókarinnar. Hún reynir jafnframt að lesa í þann persónuleika sem kemur fyrir í heimildunum. Sá er æði mótsagnakenndur, enda á fólk á sér margar hliðar. Annars vegar birtist okkur alúðleg kona sem styður eiginmann sinn og hefur þá köllun að gera honum kleift að svara sinni köllun. Hins vegar afar ákveðin, beinskeytt og langrækin kona. Herfa, myndu sumir segja. Í því sambandi hefði verið áhugavert að fjalla um þá staðreynd að Jón Sigurðsson varð þjóðhetja í lifanda lífi og hvaða áhrif hún er líkleg til að hafa haft á þá mynd sem dregin er upp af Ingibjörgu í þeim heimildum sem Margrét styðst við. Með öðrum orðum: Hvers konar eiginkona þykir hæfa þjóðhetju? Og mótast lýsingar á persónueinkennum Ingibjargar af slíkum hugmyndum? Hvaða ályktanir er því hægt er draga af lýsingunum?

Slíkum spurningum svarar Margrét því miður ekki. Aftur á móti fjallar hún á afar áhugaverðan hátt hvernig þjóðhetjan Jón Sigurðsson var samvinnuverkefni þeirra hjóna. Hún laðar fram hvernig margt af því sem jók á hróður Jóns, svo sem gestrisni, tíð heimboð, aðstoð við Íslendinga í Danmörku og sífelldur erindrekstur fyrir fólk á Íslandi, var í raun á könnu Ingibjargar. Sú umfjöllun er hvergi áhugaverðari en þegar Margrét greinir frá því hvernig heimili þeirra hjóna var opinber vettvangur sem gerði það að verkum að skiptingin milli kvennastarfa og karlastarfa, einkalífs og hins opinbera, var ekki eins skýr og yfirleitt er látið í veðri vaka. Þannig voru störf Ingibjargar í kringum heimilið ekki einfaldlega hefðbundin heimilisstörf heldur einnig opinber störf.

Þannig að jafnvel þótt bókin snúist á köflum fullmikið í kringum karlmennina í lífi Ingibjargar og sé að mestu sögð út frá sjónarhóli karla þá tekst Margréti að draga fram hlutdeild Ingibjargar í þjóðhetjunni Jóni. Án hennar hefði hann aldrei getað skapað sér það orðspor gestrisni, greiðvikni og þjónustu við föðurlandið sem gerði hann að óskabarni þjóðarinnar því gestrisnin, greiðvikning og þjónustan var að mörgu leyti Ingibjargar.

Að því leyti er mjög viðeigandi að afmælisári Jóns Sigurðssonar skuli ljúka með útkomu mjög áhugaverðrar bókar um eiginkonu hans, Ingibjörgu Einarsdóttur. Ekki aðeins til að hægt sé að draga upp betri mynd af þjóðhetjunni heldur einnig til að undirstrika að slíkir menn, þeir sem þjóðarsagan hverfist oft um, eru ekki einfaldlega drífandi snillingar, eins og okkur er svo tamt að halda, heldur byggist orðspor þeirra á gífurlegri auðmagnssöfnun í formi fjölskyldutengsla, gjafa, greiða, félagslegrar stöðu og svo framvegis. Eins og rit Margrétar Gunnarsdóttur undirstrikar eru eiginkonur þeirra á stundum lykilpersónur í söfnuninni en eru, vegna kerfisbundins misréttis, ekki líklegar til að hljóta verðskuldaða og opinbera viðurkenningu á framlagi sínu.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *