Ewa LipskaÞegar Ewa Lipska sótti Bókmenntahátíð í Reykjavík árið 2013 vakti hún athygli fyrir áhrifarík og sterk ljóð. Á sama tíma kom út plakat eða ljóðörk með nokkrum ljóðum hennar í íslenskri þýðingu en fleiri plaköt/arkir voru gefin út með ljóðum pólskra skálda í íslenskri þýðingu og pólskum þýðingum á ljóðum íslenskra skálda. Olga Holownia hafði veg og vanda af þeirri útgáfu og af kynningarverkefni á bókmenntum frá Póllandi og Íslandi sem kallast ORT: Ljóð frá Íslandi/Ljóð frá Póllandi. Í nýrri ljóðabók Ewu Lipsku er safnað saman úrvali af ljóðum hennar frá árunum 1967 til 2015. Olga er einn af þýðendunum og hægt að titla hana ritstjóra bókarinnar en þar birtir hún einnig áhugaverðan eftirmála um ljóðlist Ewu Lipsku og stöðu hennar innan pólskra bókmennta. Valin hafa verið nokkur ljóð (að meðaltali fimm) úr öllum 20 ljóðabókum Ewu og því ætti ljóðaúrvalið að gefa glögga mynd af ljóðum hennar og þróun þeirra.
Neyðarútgangur
Þýðendur: Áslaug Agnarsdóttir, Bragi Ólafsson, Magnús Sigurðsson, Olga Holownia og Óskar Árni Óskarsson
Dimma, 2016
Ljóðin eru bæði áhrifarík og sláandi, ljóðmyndir eru ferskar og frumlegar og oft örlar á kímni og kaldhæðni. Í ljóðunum eru gjarnan lýsingar á reynslu einstakrar persónu sem á sér samfélagslega og sammannlega skírskotun. Þau gefa nýja sýn á ofsann í lífinu sem og dauðanum og draga upp mynd af valdi og varnarleysi. Svefnleysi ber á góma í nokkrum ljóðum og sömuleiðis ofsafengið ofbeldi gegn eigin sjálfi. Í ljóðinu Veiði (bls. 129) er dregnar upp frumlegar myndir og veiði sett í nýtt samhengi:
VEIÐI
Að halda í humátt á eftir sjálfum sér.
Á veiðum alla ævi.
Hundelta. Með gjammandi orðum.
Og árásargjarnri hljóðfræði skógarins.
Að fylgjast náið með sér
í riffilsjónaukanum.
Að veita tungumálinu eftirför.
Miða.
Skjóta.
Verða að mold.
Þetta ljóð er gott dæmi um þann kraft sem einkennir ljóð Ewu Lipsku, hann kraumar undir og hreyfir við lesandanum. Ljóðið kallast á við annað ljóð í bókinni, Varnaðarorð (bls. 32), en þar er lesanda gert ljóst að hann er sjálfum sér hættulegur. Í ljóðinu Hugsýki (bls. 30-31) er ofsafengin lýsing á svefnleysi sem blandast lyfjum og stjórnlausum hugsunum og ljóðið endar á orðunum: „Við sofnum öskrandi.“ En ljóðin lýsa ekki bara innri baráttu sem hver manneskja glímir við heldur líka átökunum á milli þjóða og kynslóða. Ljóðin fjalla á gagnrýninn hátt um hlutskipti þjóða og kynslóða og það óréttlæti sem má finna á öllum tímum, á öllum stöðum.
Þannig er nánast öll mannleg reynsla undir og ljóðin bera með sér sterkan boðskap án þess að detta í pytt einföldunar og prédikunar.Þannig er nánast öll mannleg reynsla undir og ljóðin bera með sér sterkan boðskap án þess að detta í pytt einföldunar og prédikunar. Til dæmis geta sprottið fram ljóðlínur innan ljóðs sem virðast ekki tengjast efni þess en svo reynast þessar sömu línur sterkt mótvægi sem stækkar ljóðið enn meira. Þetta minnir á mörg ljóð eftir Tomas Tranströmer; þar er oft raðað saman ljóðlínum sem virðast ekki passa saman en svo kemur annað í ljós þegar betur er skoðað. Hin gagnrýna afstaða er sterk og endurómar í verkum annarra skálda á öðrum tímum. Til dæmis minna eftirfarandi ljóðlínur úr ljóðinu Kvíði (úr bókinni Þriðja ljóðasafn frá 1972) óneitanlega á tóninn í nýjustu ljóðabók Lindu Vilhjálmsdóttur, Frelsi (2014):
Sem sjónarvottur
að allsherjarsjónmissi
hef ég áhyggjur
af mínum heimi. En í hvirfilbyl lita
áhyggjulaus eins og myndasaga
ærslast hann í tívolíum. Heitir vöðvar
heimsálfanna springa. Jöklar brenna. (bls. 21)
Í tveimur ljóðabókum, Kæra frú Schubert … (2013) og Ást, kæra frú Schubert … (2014), ávarpar ljóðmælandi frú Schubert, segir henni frá og spyr hana spurninga. Ljóðin minna á stutt bréf og skapa skemmtilegt sjónarhorn en flest byrja þau á orðunum „Kæra frú Schubert‟. Ljóðin fjalla meðal annars um minnið, glæpi, ofbeldi og einsemd. Í ljóðinu Þögn er martraðakennd lýsing á hótelherbergi sem ljóðmælandi er staddur í og þar hverfa öll hljóð: „Ég var að deyja úr þögn. Hitinn í herberginu mínu var átta desíbel.“
Í eftirmála Olgu Holowniu kemur fram að Ewa er fædd árið 1945 og tilheyrir kynslóð eftirstríðsáranna. Upphafsljóð bókarinnar, Við, sem er jafnframt upphafsljóð fyrstu ljóðabókar hennar (Wiersze, 1967) hafi verið túlkað sem nokkurs konar stefnuyfirlýsing þeirrar kynslóðar. Þetta er kynslóðin sem ólst upp við frið en drungi seinni heimsstyrjaldarinnar var allt í kring og faldi sig í þögninni. Í þessu ljóði nær Ewa að fanga hlutskipti heillar kynslóðar en þar segir meðal annars: „Við þjáumst af svefnleysi við líkjumst náttfiðrildinu.“ (bls. 11) Í ljóðinu er því lýst hvernig þessi kynslóð öfundar þá fyrri og það sýnir hve eftirmálar heimsstyrjaldarinnar voru langir og flóknir og hvernig hið skothrjáða minni lifir enn. Þetta upphafsljóð bókarinnar kallast á við lokaljóðið, Heimurinn, en í þeim báðum er dregin upp risastór mynd og linsan er gleið. Í lokaljóðinu er sjónum beint að heiminum öllum, afstöðu okkar til hans og hvort hann sé eilífur. Lokalínurnar ná að draga saman einn af mörgum kjörnum bókarinnar (bls. 132):
Ég veit jafnvel ekki
hvort það var sagan sem skapaði okkur
eða við sem sköpuðum söguna.
Hvort við erum bara bergmál
af hjörtum annarra.
Alls koma fimm þýðendur við sögu í bókinni sem er áhugavert en jafnframt vandasamt. Flest þýða þau ljóðin úr ensku sem skapar óneitanlega fjarlægð og er hætt við að merking og andrúmsloft þynnist við það. Hins vegar þýðir Olga beint úr pólsku og hefur farið yfir allar þýðingarnar í samstarfi við aðra þýðendur og borið saman við frummálið. Þetta verður til þess að lesandinn finnur ekki á milli ljóða hvort einn þýðandi taki við af öðrum. Þannig skapast nauðsynlegt samræmi og óhætt að segja að vel hafi tekist til þrátt fyrir fjölda þýðenda.
Þessi leið, að nota marga þýðendur til að koma á framfæri stóru yfirliti yfir ljóð eins höfundar, gæti orðið öðrum til fyrirmyndar.Þessi leið, að nota marga þýðendur til að koma á framfæri stóru yfirliti yfir ljóð eins höfundar, gæti orðið öðrum til fyrirmyndar. Hingað til hefur verið algengara að sjá ljóðasöfn þar sem einn þýðandi velur verk eftir marga höfunda. Hér mæðir mest á ritstjóra sem þarf að velja bestu ljóðin (í þessu tilviki tók Ewa Lipska þátt í að velja ljóðin) og vinna með þýðendum í að skapa sannfærandi heildaráferð. Það hefur heppnast vel.
Þessi útgáfa minnir á mikilvægt þýðingarstarf Geirlaugs Magnússonar og kallast á við bókina Í andófinu (Hörpuútgáfan, 1993) þar sem hann gaf út ljóðaúrval pólskra nútímaskálda. Þar má finna ljóð eftir höfunda eins og Wisława Szymborska, Zbigniew Herbert, Tadeusz Rozewicz og Ewu Lipsku. Pólverjar eru langstærsti hópur innflytjenda á Íslandi og það liggur í augum uppi að það býður upp á blómlegt menningarsamstarf á milli þessara þjóða. Saga Póllands og bókmenntaarfur er eitthvað sem við þurfum að þekkja. Þannig getum við stuðlað að frjórri blöndun því sagan sýnir að þegar tveir menningarheimar mætast verður til einstakur sköpunarkraftur. Ljóðaúrval Ewu Lipsku er einn af ávöxtum ORT verkefnisins og vonandi fáum við meiri kynningu á pólskum bókmenntum í nánustu framtíð.
[fblike]
Deila