Guðmundur Andri Thorsson,Mín kynslóð er þessi árin að taka saman, laga til, leysa í sundur og gera upp bú foreldra okkar. Þau hverfa nú eitt og eitt yfir móðuna eða „inn í ljósið“. Við stöndum eftir frammi fyrir fortíð sem er okkur að nokkru kunn en að furðu miklu leyti hulin en snertir okkur djúpt af því að þarna liggja rætur okkar sjálfra. Við erum að taka niður leiktjöldin fyrir fyrri þætti æfi okkar og lífs sem er nú endanlega lokið. Við göngum í þetta verk með ólíku móti enda er foreldraarfur okkar ólíkur. Guðmundur Andri hefur lokið sinni tiltekt á afar persónulegan og grípandi máta í bókinni um Thor föður sinn: Og svo tjöllum við okkur í rallið.
Og svo tjöllum við okkur í rallið. Bókin um Thor
JPV Útgáfa, 2015
Titillinn slær tóninn. Hann er sóttur í einkasamskiptamál þeirra feðga og gefur vísbendingu um að þarna sé á ferðinni persónuleg mynd af þeim svipmikla manni sem Thor var. Það fer líka vel á að bókin byggist á myndum. Það er svo mikið í anda Thors. Sagan er sögð út frá myndum úr fórum fjölskyldunnar en líka rituð í lifandi myndum úr ævi sögupersónunnar og samskiptum þeirra feðga.
Vissulega var Thor sérstæður maður í íslensku samfélagi, bókmenntum og menningu um sína daga. Um hann verður margt ritað á komandi árum, jafnvel heilar bækur, en það fer vel á að þessi skuli vera sú fyrsta. Líklega hefði orðið ómögulegt að skrifa svona persónulega bók þegar búið væri að draga upp annars konar myndir í fræðiritum af ýmsum toga. Nú var rétti tíminn til að við fengjum að sjá persónuna í öðrum fókus.
Nú var rétti tíminn til að við fengjum að sjá persónuna í öðrum fókus.Sérstaða Thors felst í að hann skapaði sérstakan heim í skáldverkum sínum sem var þjóðinni raunar lengi æði framandi en hann skapaði líka sjálfan sig á frumlegan og framandi hátt: Hvern gat órað fyrir að strákur sem ólst upp á háborgaralegu heimili við Bergstaðastrætið á fyrri hluta aldarinnar sem leið og var auk þess af ætt Thorsaranna yrði hvorki hægripólitíkus, forstjóri né diplómat eins og þeir heldur berðist til fátæktar og gerði gallajakka að tákni sínu í stað lafafrakka? Thor synti sem sé gegn straumi í því velsældarsamfélagi sem var í mótun hér á uppvaxtarárum hans og sótti fyrirmyndir til tveggja andstæðra hópa: evrópskra bóhema í París á árunum eftir stríð og íslenskra togarasjómanna við Grænland þar sem gefur á bátinn.
Í þeirri fallegu föðurminningu sem Guðmundur Andri hefur nú deilt með okkur dregur hann heldur ekki dul á að það gaf oft á í lífi Thors. Hann valdi ekki auðveldu leiðina, hvorki í lífinu né listinni. Þeir sem leggja í vegferð ekki „upp“ heldur „niður“ stéttastiga samfélagsins eiga nokkuð víst að mæta tortryggni og skilningsleysi, ekki aðeins meðal þeirra sem þeir snúa baki við heldur einnig hinna sem þeir leitast við að samlagast. Thor fór ekki varhluta af þessu. Hin bókmenntalega uppreisn hans kostaði einnig sitt. Hann var í hópi þeirra sem harðast gengu fram í að rjúfa „samhengið í íslenskum bókmenntum“ þar sem það var hvað sterkast, þ.e. á sviði hinnar epísku skáldsagnahefðar. Lykilbækur hans frá 8. áratugnum varð að skynja með sjón eða heyrn þar sem þar var ekki að finna þann söguþráð sem við flest ætlumst til að geta lesið okkur eftir gegnum allar miklar skáldsögur. Það var ekki tekið út með sældinni að eiga hlut að slíkri afbyggingu bókmenntaarfsins. Þessi lesandi skynjaði enda hvað næmast kvikuna í frásögunni þar sem Guðmundur Andri segir frá hvernig faðir hans tókst á við þetta hlutskipti. Gæfa hans fólst þá, eins og oft endranær, í að hann „kunni að detta“ að hætti bardaglistamanna og rísa á fætur að nýju.
Og svo tjöllum við okkur í rallið bregður upp myndum úr samskiptasögu feðga sem hvor um sig skipar mikilvægan sess í hópi öndvegishöfunda okkar, hvor af sinni kynslóð. Hún sýnir einnig myndir af ytra og innra lífi eins af af- og endurbyggingarmeistara íslenskra bókmennta á 20. öld. Að leiðarlokum má spyrja hvort Thor hafi verið módernisti eða póst-módernisti sem Guðmundur Andri hafnar að vísu. Ef til vill var hann einkum pre-módernisti. Það kann til að mynda hafa ráðið því að undir lok ævinnar lagði hann á Jakobsveginn , Camino de Santiago, í slóð pílagríma frá örófi alda. Sögunni lýkur svo á óljósum mörkum tilverusviðanna með jarteinum sem verða meðan sterkt orkusvið mikils anda fjarar út á leið „inn í ljósið“. Og svo tjöllum við okkur í rallið verður þar fyrir engin heilagra manna saga nema síður sé.
[fblike]
Deila