Skrifa fyrst og fremst fyrir almenning

[x_text]
Guðjón Friðriksson sagnfræðingur hlaut Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar í ár, fyrir að hafa „með verkum sínum markað eftirminnileg spor í íslenska bókmenntasögu og breytt viðmiðum okkar í ritun sagnfræði og ævisagna“.
Í viðtali við Hugrás segist Guðjón líta á verðlaunin sem staðfestingu á því að hann hafi verið að gera eitthvað rétt. „Mér finnst varið í þessi verðlaun því þau beinast fyrst og fremst að málinu, ekki sagnfræðinni sem er mitt sérsvið, og það er mikilvægt fyrir mig persónulega að fá slíka viðurkenningu.“

hugras_gudjon_verdlaunaafhendingGuðjón hóf rithöfundarferil sinn hálffertugur en fyrsta stórvirki hans var Saga Reykjavíkur – Bærinn vaknar sem kom út í tveimur veglegum bindum árin 1991 og 1994. Þar fjallar hann um Reykjavík á árunum 1870 til 1940. Hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita fyrir fyrra bindið.

Í rökstuðningi dómnefndar Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar segir:

Aðferð hans er oft á tíðum sú að sviðsetja atburði og með því móti tekst honum að glæða frásögnina lífi svo minnir helst á spennandi skáldverk þótt aldrei sé slakað á fræðilegum kröfum. Stíll Guðjóns er þróttmikill og fágaður í senn, ljóðrænn og skáldlegur, en umfram allt einstaklega læsilegur og heillandi.
Aðferð hans er oft á tíðum sú að sviðsetja atburði og með því móti tekst honum að glæða frásögnina lífi svo minnir helst á spennandi skáldverk þótt aldrei sé slakað á fræðilegum kröfum. Stíll Guðjóns er þróttmikill og fágaður í senn, ljóðrænn og skáldlegur, en umfram allt einstaklega læsilegur og heillandi.

Guðjón segist alltaf hafa reynt að skrifa einfaldan og ljósan texta en forðast uppskrúfað mál, tískufrasa og illskiljanleg fræðiheiti, nýyrði og orðatiltæki. „Þannig skrifaði Jónas Hallgrímsson og ég hef alltaf haft mikið dálæti á honum, eins og reyndar fleiri af helstu skáldum okkar. Ég vona að sá áhugi hafi komist til skila í skrifum mínum. Ég hef raun og veru alltaf sett mér það markmið að skrifa fyrir almenning fyrst og fremst, en ekki eingöngu aðra fræðimenn. Það er mikils vert að stunda grunnrannsóknir en það er líka mjög mikilvægt að koma niðurstöðunum til almennings og ég hef haft verkin mín eins fræðileg og unnt er jafnframt því að gera þau alþýðleg. Ég hef m.a. notað þá aðferð að sviðsetja atburði, einkum í ævisögunum, og ég held að það hafi orðið til þess að þær voru mun meira lesnar en ella. Ég geri mér grein fyrir að þetta er umdeild aðferð, enda ekki víst að sviðsetningin verði nákvæmlega eins og atburðirnir, en ég hef reynt mitt besta að endurskapa þá samkvæmt heimildum og búa til myndir. Þessi aðferð hefur verið þakklát hjá lesendum og ævisögurnar mínar hafa verið mikið lesnar.“

Fyrsta stóra ævisaga Guðjóns var Saga Jónasar frá Hriflu, sem út kom í þremur bindum á árunum 1991-1993. Í rökstuðningi dómnefndar segir að með því verki hafi nýr tónn verið sleginn í ritun íslenskra ævisagna. Ekki aðeins með ítarlegri og strangri fræðimennsku, heldur vönduðum og læsilegum stíl. Guðjón segist sjálfur hafa ákveðið að skrifa um Jónas en ekki að beiðni neins. „Ævisögur eru oft skrifaðar á vegum einhverra aðila sem viðkomandi tengist, ættingja, flokka, jafnvel fyrirtækja, en ég setti mér að vera algjörlega óháður öllum hagsmunaaðilum og reyna að skyggja persónuna eins og hún kom mér fyrir sjónir með öllum sínum kostum og göllum. Á þessum tíma var algengt að ævisögupersónur væru hafnar upp til skýja en ég reyndi frekar að koma þeim niður á jörðina. Ef til vill sló það svolítið nýjan tón í íslenskri ævisögugerð, þótt ekki hafi það verið nýjung í alþjóðlegu samhengi. Jónas frá Hriflu var afar umdeild persóna og ég mat það þannig að mér hefði tekist vel til þegar jafnt heitir aðdáendur sem harðsvíraðir andstæðingar hans luku upp lofsyrði um söguna.“

Á eftir ævisögunni um Jónas frá Hriflu ritaði Guðjón tvær litlar bækur um Reykjavík og varð í kjölfarið einn eftirsóttasti fyrirlesari og leiðsögumaður um gömlu Reykjavík. Á árunum 1997-2000 kom út eftir hann Einar Benediktsson – ævisaga og fyrir fyrsta hlutann hlaut Guðjón Íslensku bókmenntaverðlaunin öðru sinni. Af öðrum verkum Guðjóns má nefna Jón Sigurðsson – ævisögu, sem kom út í tveimur bindum árin 2002 og 2003, en fyrir seinna bindið hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin í þriðja sinn. Ég elska þig stormur – ævisaga Hannesar Hafstein kom svo út árið 2005. Þá má ennfremur geta þess að Guðjón hefur ritað bækur um sögu fjölmiðlunar á Íslandi, forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar, um Kaupmannahöfn sem höfuðborg Íslands og Sögu Faxaflóahafna. Hann er nú nýbúinn að skrifa sögu Alþýðuflokksins, sem kemur út á næsta ári.

Guðjón hefur starfað sem sjálfstæður fræðimaður og viðurkennir að það hafi stundum reynst erfitt fjárhagslega. „Að baki flestra verka minna liggur gríðarleg heimildavinna. Þau eru ekki eitthvað sem maður hripar upp á einu sumri og ég þurfti nauðsynlega að hafa fjárhagslegan styrk til að geta þetta. Launasjóður rithöfunda veitti mér ákveðinn grunn lengst af og það hjálpaði til að bækurnar seldust vel þótt ég hefði aldrei getað lifað af sölulaununum einum. Markaðurinn hér er svo lítill. Svo fór að bregðast með launasjóðinn og þá hætti ég að skrifa ævisögur. Síðan hef ég ýmist tekið að mér launuð verkefni, sem mér hafa borðist, eða aflað sjálfur styrkja til þeirra, bæði heima og erlendis. Þrátt fyrir erfiðleika á köflum finnst mér ég hafa verið heppinn að getað helgað mig ritstörfum öll þessi ár. Það er ekki eins og ég hafi verið að fórna mér.“

Hugras_gudjon_bubbi
Guðjón Friðriksson og Bubbi Morthens. Bubbi Morthens fékk einnig sérstaka viðurkenningu á Degi íslenskrar tungu.
[/x_text]
[x_text][fblike][/x_text]

Deila