[x_text]
Bilið milli daglegs máls og þess óopinbera ritmálsstaðals sem gilt hefur á Íslandi undanfarna öld fer sífellt breikkandi og verður áður en langt líður óbrúanlegt. Nauðsynlegt er að endur­skoða staðalinn en til þess skortir frumkvæði, tæki og vettvang.

„Er nú búið að leyfa þetta“

Á fyrri árum mínum í kennslu fékk ég stundum, einkum frá eldri nemendum, spurningar á við „Er nú búið að leyfa þetta?“, yfirleitt bornar fram með hneykslun í röddinni. Ég man svo sem ekki glöggt um hvað verið var að spyrja, en held að oftast hafi uppáhaldsmálvilla Íslendinga, þágufallssýkin, verið til umræðu. Ég man hins vegar eftir því hverju ég svaraði því að það var alltaf það sama: að ég vissi ekki hver ætti að leyfa það sem spurt var um – nú eða banna það, ef því væri að skipta. Margir virtust halda að til væri – eða ætti að vera – eitthvert yfirvald, kannski Íslensk málnefnd, sem gæti leyft og bannað tiltekið málfar eftir smekk og geðþótta.

viðbrögð þeirra sem Gísli nefndi „málveirufræðinga“ og vildu ekki hvika frá því að dæma eitt rétt en annað rangt
Á þessum árum, upp úr 1980, var talsverð umræða um rétt mál og rangt og hvernig ætti að skera úr álitamálum á því sviði – hvaða viðmið ætti að hafa. Grein Gísla Pálssonar, „Vont mál og vond málfræði. Um málveirufræði“, sem birtist í Skírni 1979, kallaði fram mikil viðbrögð þeirra sem Gísli nefndi „málveirufræðinga“ og vildu ekki hvika frá því að dæma eitt rétt en annað rangt þar sem tvennt væri uppi. Aðrir drógu taum Gísla, vildu tengja umræðuna félagslegum þáttum og sýna meira umburðarlyndi, og voru þá stundum nefndir „reiðareksmenn“.

Um þetta deildu menn í nokkur ár og má líklega segja að umræðan hafi náð hámarki 1985 þegar Samtök móðurmálskennara helguðu íslenskri málstefnu heilt tölublað af málgagni sínu, Skímu. Um það leyti skipaði menntamálaráðherra nefnd til að gera tillögur um „málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum“.

Í álitsgerð nefndarinnar 1986 var sett fram skilgreining á réttu máli og röngu: „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju“. Hugras_Skima1985En jafnframt er bent á að þrátt fyrir þetta geti verið ástæða til að gera upp á milli málvenja, og það sé „í samræmi við meginstefnuna í málvernd að reyna að sporna gegn nýjum málsiðum með því að benda á að þeir séu ekki í samræmi við gildandi mál­venjur“.

Það er langt síðan ég hef fengið spurningar eins og þá sem nefnd var í upphafi – hvort það ber vott um minnkandi áhuga nemenda á þessum málum veit ég ekki. Á hinn bóginn finnst mér sjálfum sífellt bagalegra að geta ekki vísað ýmsum álitamálum til einhvers yfirvalds. Ég er að vísu fullkomlega sáttur við að nota málvenjuna til að dæma um rétt og rangt, þótt það viðmið sé ekki með öllu vandræðalaust eins og vísað var til í álitinu þar sem það var sett fram. Það er tekið fram að ekki sé átt við „einstaklingsbundin tilbrigði í máli. Tiltekið atriði getur ekki orðið rétt mál við það eitt að einn maður temji sér það“. Gott og vel – en ef þeir eru tveir? Eða tíu? Eða fimmtíu? Þarna hljóta alltaf að koma upp matsatriði, en þetta er ekki stórt vandamál.

Íslenskur málstaðall

En þrátt fyrir þetta viðmið hangir enn yfir okkur einhver óopinber staðall, að verulegu leyti óáþreifanlegur og óskráður, um það hvað megi segja, eða a.m.k. skrifa – og sá staðall hefur lítið breyst undanfarna öld. Samkvæmt honum á ekki að skrifa „mér langar“ heldur „mig langar“, ekki „við hvorn annan“ heldur „hvor við annan“ ekki „hjá sitthvorri“ heldur „sinn hjá hvorri“, ekki „ef hann sé heima“ heldur „ef hann er heima“, ekki „eins og mamma sín“ heldur „eins og mamma hennar“, ekki „vegna lagningu“ heldur „vegna lagningar“, ekki „það var hrint mér“ heldur „mér var hrint“, ekki „rétta upp hendi“ heldur „rétta upp hönd“, ekki „ég er ekki að skilja þetta“ heldur „ég skil þetta ekki“, ekki „báðir tónleikarnir“ heldur – ja, hvað? „Hvorir tveggja tónleikarnir“? „Hvorirtveggju tónleikarnir“? Hver segir það eiginlega?

Það er enginn vafi á því að fyrra afbrigðið í hverri tvennd, það sem á ekki að skrifa, er mál­venja margra – í mörgum tilvikum örugglega meirihluta þjóðarinnar. Þess vegna er þetta allt saman rétt mál, samkvæmt þeirri skilgreiningu sem áður var vitnað til. En það er samt ekki „búið að leyfa þetta“, í þeim skilningi að það sé komið inn í hinn óopinbera staðal. Ef ég, sem háskólakennari í íslensku, færi að boða það að þetta væri í góðu lagi er ég hræddur um að einhvers staðar heyrðist hljóð úr horni og umræða um „reiðareksmenn“ færi aftur á flug.

Hugras_islenskmalfraediÍslenskur málstaðall – e.t.v. væri réttara að tala um ritmálsstaðal – varð til á 19. öld þótt rætur hans séu vissulega í fornmáli. Sjálfsagt má segja að Rasmus Kristján Rask, Sveinbjörn Egils­son og Fjölnismenn hafi lagt drög að honum en hann mótaðist svo ekki síst í Lærða skólanum eftir miðja öldina, einkum hjá Halldóri Kr. Friðrikssyni sem var aðalíslenskukennari skólans í hálfa öld. Björn Guðfinnsson lagði svo lokahönd á staðalinn með málfræði sinni sem flestir Íslendingar lærðu frá því um 1940 (frá 1958 í endurskoðari útgáfu Eiríks Hreins Finnboga­sonar) og langt fram eftir öldinni – sumir jafnvel fram á þessa öld.

Þessi staðall miðast við það sem þótti vandað ritmál fyrir 80–100 árum. Síðan þá hefur eigin­lega allt breyst í íslensku þjóðfélagi og það væri mjög undarlegt ef sama málsnið þjónaði þörfum okkar núna og fyrir einni öld. Enda er það auðvitað ekki svo.

Breytt umhverfi staðalmálsins

Þegar ég byrjaði að kenna fyrir 35 árum var bara ein útvarpsstöð á Íslandi og útvarpaði bara á einni rás – fyrirbærið „Rás 1“ var ekki til því að ekki þurfti að greina Útvarpið (með stóru Ú) frá neinu öðru. Það var bara ein sjónvarpsstöð (Sjónvarpið, með stóru S) en fimm dagblöð. Í öllum þessum miðlum sáu menn og heyrðu einungis vandað mál sem samræmdist staðlinum. Talað mál í útvarpi og sjónvarpi var nær allt undirbúið og að verulegu leyti ritmál. Blöðin voru vandlega prófarkalesin. Almennir málnotendur komust í raun hvergi í kynni við ritaða íslensku annarra almennra málnotenda. Þetta var þjóðfélagið sem Hallgrímur Helgason lýsir svo vel í bókinni Sjóveikur í München.

En aðalatriðið er að nú getur hver sem er skrifað – eftirlitslaust – texta sem allur heimurinn hefur aðgang að.
Nú er þetta allt breytt. Nú er í landinu fjöldi útvarps- og sjónvarpsstöðva þar sem hver sem er getur látið dæluna ganga endalaust, án nokkurs handrits eða yfirlestrar. Dagblöðum hefur fækkað og prófarkalestri þeirra hrakað, auk þess sem netmiðlar hafa að verulegu leyti komið í stað prentaðra blaða og eru enn minna yfirlesnir. En aðalatriðið er að nú getur hver sem er skrifað – eftirlitslaust – texta sem allur heimurinn hefur aðgang að.

Það er í sjálfu sér frábært. Það er stórkostlegt að það skulu ekki lengur vera forréttindi fárra útvalinna að skrifa fyrir lýðinn. Það er augljóslega stórt skref í lýðræðisátt og á án efa eftir að hafa meiri áhrif en við gerum okkur grein fyrir – þótt uppgangur Pírata sé kannski aðeins farinn að opna augu manna fyrir þeim breytingum sem eru að verða. En þetta hefur vitanlega mikil áhrif á málstaðalinn og hugmyndir manna um það hvernig íslenskt ritmál sé. Þegar verulegur hluti af því máli sem menn heyra og sjá fylgir ekki staðlinum, þá er ekki von að ungt fólk tileinki sér hann sjálfkrafa og áreynslulaust.

Við þetta bætist að íslenskan – daglegt mál – hefur vitaskuld breyst talsvert undanfarna öld. Staðallinn hefur hins vegar ekki breyst og því hefur fjarlægðin þarna á milli aukist. Það þýðir aftur að málnotendur þurfa að leggja meira á sig, eða fá meiri kennslu, eða lesa meira af formlegu máli, til að tileinka sér staðalmálið. En raunin er sú að þessu er þveröfugt farið. Ís­lenskukennsla hefur síst aukist, og rannsóknir sýna að ungt fólk les sífellt minna af bókum, þar sem staðlinum er helst fylgt.

Hætt er við að ritmál þessa meirihluta verði bastarður – sambland af hversdagsmáli og einstökum atriðum úr staðlinum sem fólk hefur gripið upp án þess að hafa raunverulegt vald á
Þetta getur ekki endað nema á einn veg: Bilið milli máls almennings og staðalsins verður óbrúanlegt. Þeir nemendur sem búa við ákjósanlegar aðstæður, t.d. lesa mikið og eiga lang­skóla­gengna eða aldraða foreldra – eða eru nördar – munu geta tileinkað sér staðalmálið til hlítar enn um sinn, en meginhlutinn gerir það ekki. Hætt er við að ritmál þessa meirihluta verði bastarður – sam­bland af hversdagsmáli og einstökum atriðum úr staðlinum sem fólk hefur gripið upp án þess að hafa raunverulegt vald á. Ég þykist stundum sjá merki um þetta í skrifum nemenda nú þegar.

Nýr málstaðall

Það þarf samt að hafa einhvern staðal, eitthvert viðmið til að nota í kennslu þótt ekki væri annað. Ég er ekki þeirrar skoðunar að allt sé jafngott eða jafngilt, þótt „reiðareksmönnum“ hafi iðulega verið borið það á brýn. Ég held hins vegar að það sé nauðsynlegt að breyta þeim staðli sem hefur gilt undanfarna öld og færa hann í átt til þess máls sem almenningur talar og skrifar (en ekki alla leið). Þetta þarf að gerast án þess að fórnað sé hinu órofa samhengi í ís­lensku ritmáli sem svo oft er vegsamað – með réttu.

Vandinn er bara sá að við höfum hvorki tæki né vettvang til slíkra breytinga. Það hefur enginn lengur þá stöðu sem Björn Guðfinnsson, Halldór Halldórsson, Árni Böðvarsson, Gísli Jónsson og Baldur Jónsson (allt karlmenn, auðvitað) höfðu á síðustu öld. Ég held að það vilji heldur enginn hafa þá stöðu – eða að einhver hafi þá stöðu yfirleitt. Ef einhver ætti að beita sér fyrir endurskoðun staðalsins væri það kannski helst Íslensk málnefnd sem vann gott starf við mótun íslenskrar málstefnu fyrir nokkrum árum, og hefur m.a. það hlutverk „að veita stjórn­völdum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli“.

En almenn stefna er eitt, útfærsla hennar annað, og jafnvel þótt einhver hefði boðvald eða kennivald til að endurskoða staðalinn væri það ýmsum vandkvæðum bundið. Staðallinn er nefnilega hvergi skráður nema að hluta til, eins og áður er vikið að – hann felst mestanpart í einhverri tilfinningu sem erfitt er að negla niður, og fæst varla nema með lestri texta þar sem honum er fylgt. En ef fjallið kemur ekki til Múhameðs verður Múhameð líklega að brjóta odd af oflæti sínu og koma til fjallsins. Fyrsta skrefið er að vekja umræðu og greina vandann.

[Mynd ofan við grein: Samsett úr forsíðu Skímu 1. tbl. 8. árg. 1985 og mynd í Stúdentablaðinu, 3. tbl. 56. árg. 1980][/x_text]

Um höfundinn
Eiríkur Rögnvaldsson

Eiríkur Rögnvaldsson

Eiríkur Rögnvaldsson er prófessor emeritus í íslenskri málfræði. Undanfarin ár hefur hann einkum fengist við máltækni en hefur einnig stundað rannsóknir í samtímalegri og sögulegri setningafræði, svo og orðhlutafræði og hljóðkerfisfræði. Sjá nánar

[x_text][fblike][/x_text]

Deila