[container] Sjónrýnir fer á frumsýningu hjá Dansflokknum.
Íslenski dansflokkurinn: Emotional.
Meadow eftir Brian Gerke.
EMO1995 eftir Ole Martin Meland.
Búningar: Agniezka Baranowksa.
Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason.
Sviðsmyndir eftir danshöfunda.
Hold og blóð, húð og bein, krampi, kippir, kvikar og mjúkar hreyfingar. Taumlaus, streymandi tjáning, eins og sjálfur frumkraftur mannsins losni úr læðingi. Í samfélagi þar sem enginn dansar ófullur og líkamar eru almennt til trafala frekar en hitt er dálítið hressandi að fara og sjá nútímadans.
Það sem kemur þeim sem vanari eru leikverkum svolítið á óvart er hversu ómenguð, skynræn upplifun danssýning er. Fyrra verk kvöldsins, Meadows, fjallar um einhvers konar lífsferil, náttúrulega hringrás, og er að mestu leyti dansað við draumkennda og annarsheimslega raftónlist Isao Tomita frá áttunda áratugnum. Verkið er samkvæmt höfundinum, Bandaríkjamanninum Brian Gerke, innblásið af engjunum og vötnunum kringum bæinn þar sem hann ólst upp, en þar er óvenju fjölskrúðugt dýra- og plöntulíf.
Engið í þessu verki er þó hvergi til í alvörunni heldur er, samkvæmt leikskránni, um að ræða hið ævintýralega engi hugarheims höfundarins, fullt af dýrslegum mannskepnum. Sjálft engið er búið til með töfrum slunginni lýsingu Jóhanns Bjarna Pálmasonar sem varpar á gólfið gróðurmynstri í mildum og hlýlegum pastellitum. Lýsingin breytir mjúklega um lit eftir því sem verkinu vindur fram, fer frá gulum og bleikum yfir í rauða tóna og í einni senunni verður hún blágræn og kallar fram hughrif um líf á vatnsbotni.
Búningar Agniezku Baranowksu eru ákaflega látlausir, næstum því ekki-búningar, ljósgráir, fölbláir, húðlitir og samanstanda eingöngu af stuttum dansbuxum og hlýrabol með víðara koti utan yfir. Þetta eru ekki spennandi flíkur, dæmigerð dansföt af því taginu sem leggja fyrst og fremst áherslu á líkama dansaranna sjálfa, efnislitlar og sveigjanlegar, eins konar ytri húð. Flaksandi kotið gaf búningunum þó örlítið sjálfstætt, sjónrænt líf. Bæði kyn klæddust nákvæmlega eins búningum og varð yfirbragðið mjög kynlaust og dálítið sterílt fyrir verk með svo lífrænu inntaki.
Dansverkið Meadows segir sköpunar- og lífsferilssögu sem mér finnst ég hafa oft séð áður. Það hefst með veru sem rís óburðugum fótum upp af jörðinni og stígur sín fyrstu, klaufalegu skref og svo framvegis allt þar til yfir lýkur og verurnar skríða að leiðarlokum. Ég gat ekki að því gert að hugsa til Fantasíu Disneys með sínum dansandi blómálfum og deyjandi risaeðlum, en Meadows virtist stundum eins og mislukkað bergmál af því liðlega 70 ára gamla meistaraverki. Það ríkti í verki Gerkes einhver andi úrkynjunar sem í bland við klisjukennd efnistökin varð hreinlega of yfirþyrmandi. Þrátt fyrir að eiga sterk augnablik, til dæmis áhrifaríka senu sem gerist á vatnsbotni, heillaði Meadows mig á heildina litið ekki.
Reyndar grunar mig, svo allrar sanngirni sé gætt, að höfundur Meadows leiki sér viljandi að klisjum í þessari sviðsetningu því þær eru einnig allsráðandi í tónlistinni. Um er að ræða hljóðgervilsútsetningar á frægum, klassískum stefjum á borð við Arabesku nr. 1 eftir Debussy og gítarkonsert Rodrigos og When you Wish upon a Star úr Gosa Disneys skýtur einnig upp kollinum (Disney enn og aftur …). Endir verksins er illskiljanlegur en þar brestur skyndilega á með heilli sinfóníuhljómsveit sem spilar Indiana Jones-stefið og verurnar dansa einhvern sigurdans sem ekki virðist í nokkru samhengi við meginhugmynd verksins eins og ég skynjaði hana. Ekki bætti úr skák að hljóð aftarlega í sal var vont og hátalararnir sífellt við það að sprengja, sem spillti nokkuð fyrir upplifuninni.
Eftir hlé tók við annar heimur og gerólíkur. Við erum komin með látum til ársins 1994 í félagsskap hipphopparans Dr. Albans í verki Ole Martin Meland, EMO1994. „It´s my Life“ drynur þungum takti úr hljóðkerfinu og danshópurinn hoppar eins og samstillt maskína vinstra megin á sviðinu. Lengi, lengi, heilt lag. Þetta einfalda en kröftuga upphaf á verkinu virtist undir eins ná tökum á áhorfendum þetta kvöld.
Verkið keyrir á hverjum danssmellinum frá 1994 á fætur öðrum og skapast hrá reif-stemning þar sem hver og einn dansar tengslalaus og í firringu í sínum prívat e-töflu heimi, öll mannleg nánd er vélræn og framtíðarsýnin kaldranaleg. Danshöfundur á heiðurinn af sviðsmyndinni sem samanstendur af nokkrum, svörtum plaststólum á hægri sviðsvæng, stórri viftu og stafla af sjónvarpsskjám. Umgjörðin er öll í anda vöruskemmu og hæfir verkinu vel. Einu litirnir í verkinu birtast svo á sjónvarpsskjánum, litrík gerviveröld sem er meira lifandi en grár og napur raunveruleikinn.
Lýsing Jóhanns Bjarna er hluti af leikmyndinni: Vinstra megin á sviðinu er heill veggur af ljóskösturum og frá þeim skellur ágeng hliðarbirta á dönsurunum mestallan tímann. Reifstemningin er síðan undirstrikuð með markvissri notkun á stróbljósum og algjöru niðamyrkri.
Dansbúningar Agniezku eru eins og í fyrra verkinu einfaldir en í þessu tilfelli meira afgerandi. Agnieszka á rætur í tískuheiminum og búningarnir eru í anda tískunnar á síðustu árum 20. aldarinnar, kynlausir, gráir og vélrænir. Í upphafi verksins eru allir dansarar klæddir hnésíðum, dökkgráum sloppum með standkraga, dálítið eins og hópur af ógnvekjandi (og hoppandi!) skurðlæknum. Allir eru með svört sólgleraugu og dökkar derhúfur af því tagi sem Hollywoodstjörnur bera þegar þær vilja ekki láta bera kennsl á sig.
Eftir fyrsta atriðið er sloppunum kastað og upp frá því klæðast dansararnir aðallega svörtum, stífum, gljáandi erma- og skálmalausum samfestingum (bodysuits) í líkingu við sadó-masógallann sem Páll Óskar skartaði í Eurovision 1997 og reyndar einnig mörgu sem sést hefur í myndböndum Lady Gaga síðustu ár. Sólgleraugun eru á sínum stað. Með búningunum tekst að þurrka séreinkenni hvers dansara svo gjörsamlega út að varla er leið að þekkja sundur karla og konur og ljá búningarnir verkinu með því móti mjög áþreifanlegan og sálarleysislegan óhugnað.
Senurnar í EMO1994 eru hver annarri kröftugri og áhrifamest er ofbeldis/ástarsenan langa þar sem tvær konur takast á af krafti en hópur dansara situr og horfir svipbrigðalaus á með sjónvarpsskjáina flöktandi á bak við sig. Nú bregður svo við að undirleikurinn er ekki teknó, heldur aðeins rigningarhljóð, hljóð sem maður myndi heldur tengja kyrrð og notalegheitum og sem gerir það að verkum, ásamt skyndilegu, bleiku konfettíregni af himnum ofan, að firringin verður algjör.
EMO1994 rifjar ýmislegt upp frá síðustu árum 20. aldarinnar, þegar allir biðu milli vonar og ótta eftir árþúsundamótunum og einhver tæknivæddur djöfuldómur og sjálfsskoðunar-svartsýni hljóp í mannskapinn. Verkið gerir magnaða grein fyrir þátíðarandanum og skilur eftir hroll í beinunum.
Sigríður Ásta Árnadóttir, textílhönnuður og meistarnemi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu.
[/container]
Leave a Reply