Pistill: Listin að deyja, aftur og aftur

[container] 

Um höfund
Sigurlín Bjarney Gísladóttir

Sigurlín Bjarney Gísladóttir

Sigurlín Bjarney Gísladóttir er ljóðskáld og smásagnahöfundur. Hún er einnig doktorsnemi í íslenskum bókmenntum og stundakennari í ritfærni við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands.

Vampírur, uppvakningar, draugar og furðuverur munu birtast á götum borgarinnar föstudaginn 31. október. Margir góðborgarar munu eflaust hrista hausinn og tuða yfir þessu ameríska „hallóvín“ sem er nú að smitast yfir til Íslands. Hrekkjavaka fékk engan sérkafla í Sögu daganna þegar hún kom út fyrir rúmum 20 árum, enda ekki þekkt hér á landi á þeim tíma.  Hins vegar er minnst á daginn í umfjöllun um Allraheilagramessu sem er 1. nóvember. Kvöldið fyrir hana var kallað Allhallow Even (allra heilagra kvöld) sem breyttist síðan í Halloween. Dagurinn markaði upphaf vetrar og þróaðist yfir í þá gleði- og vættahátíð sem við þekkjum í dag.  Á þessum degi á bilið milli heima lifenda og dauðra að þynnast. Framliðnir fara á kreik og heimta eitthvað að borða (helst blóð) ella hljótum við verra af. Það borgar sig því að sanka að sér mat (eða blóði) fyrir næsta föstudag. Föstudag.

Rithöfundar og listamenn kljást við þetta í starfi sínu á hverjum degi. Hjá þeim eru allir dagar hrekkjavaka því draugar fortíðar krefja þá stöðugt um áheyrn, vilja endurfæðast sem skáldsagnapersónur, málverk eða raddir í tónverki. Listamaðurinn dvelur á þessum mörkum og þarf að þreifa sig áfram í óvissu og myrkri, fara inn í fortíðina og undirheimana og draga ný sannindi fram í dagsljósið, nýja sýn. Eins og kanadíski rithöfundurinn Margaret Atwood segir um dauðann, lífið og ægivald fortíðarinnar í bókinni Negotiating with the Dead: „Allir höfundar þurfa að komast héðan yfir í einu sinni var, vera þar en ekki hér; allir verða þeir að stíga þangað sem sögurnar búa og passa sig á því að fortíðin fangi þá ekki og festi.“

Dauðinn í jólabókaflóðinu
Jólabókaflóðið er brostið á og gaman væri að vita hve margir verða drepnir í ár. Ef morð er ekki framið í bókunum og enginn deyr þá hlýtur dauðinn samt að koma við sögu, fræðilega séð, sem hugmynd eða staðreynd. Án efa munu líkin hrannast upp í bókum Arnaldar, Yrsu og Steinars Braga eins og vörður í óreiðukenndu landslagi íslenskra bókmennta. Kaldur fyrirboði jólanna. Rithöfundar og listamenn virðast almennt með dauðann á heilanum. Það er eins og við séu öll með dauðann á heilanum. Öll menning okkar er gegnsýrð af honum og dauðastefin ganga stöðugt aftur. Um hverja páska rifjum við til dæmis upp dauða og upprisu smiðssonarins frá Nasaret. Margir reyna að ná sambandi við undirheima, handanheima eða himnaríki, fá miðla til að hringja yfir í ríki hinna dauðu sem búa í annarri vídd. Er einhver á línunni? Ein leið til að þokast í átt að skilningi á dauðanum (og lífinu líka) er að upplifa hann í gegnum listina: lesa, horfa, hlusta, skynja. Deyja aftur, og aftur. Á hrekkjavöku klæðum við okkur upp, göngum inn í óhugnaðinn og fögnum gáttinni sem hefur myndast yfir í heim hinna dauðu. Við þurfum meiri dauða, þurfum dauða til að skilja lífið. Það er heilmikið líf í dauðanum. Dauðanum.

Hrekkjavaka2

Djákninn á Myrká © Þórey Mjallhvít

Blóði drifin saga uppvakninga og spriklandi líkamsparta
Í evrópskri menningarsögu eigum við margar sígildar sögur af förinni niður í undirheimana og þangað fer hetjan gjarnan til að endurheimta ástvin sinn. Hvort sem hetjan heldur af stað í dauðaríkið eða hinir dauðu mæta í raunheima þá fylgir þessum ferðalögum heilmikill háski.

Egypski guðinn Ósíris var drepinn og líkamspörtum hans dreift um víðan völl en Ísis (því miður hefur nafn hennar fengið aðra merkingu undanfarið) lét það ekki stöðva sig, hún safnaði pörtunum saman og gat með honum soninn Hóras. Í Ummyndunum Óvíðs er sagan um Orfeus og Evridísi. Hún lést og hann elti hana til Hadesarheima. Þar tókst honum með söng sínum að fá leyfi til þess að leiða ástina sína aftur upp til lífsins gegn því að hann liti ekki aftur fyrir sig á hana á leiðinni upp. Eitt andartak leit hann við og með það sama hvarf Evridís aftur niður í undirheimana og dó í annað skiptið. Orfeus dó yfirkominn af sorg, líkami hans tvístraðist en tungan hélt áfram að syngja og þau sameinuðust í Hadesarheimum. Bæði Megas og Nick Cave hafa sungið um örlög þeirra skötuhjúa. Svipað er uppi á teningnum hjá Dante í hinum Guðdómlega gleðileik þegar hann nær að endurheimta minningu sína um Beatrice en rétt eins og Orfeus glatar hann ástinni endanlega frá sér. Frá sér.

Dauðinn er víða í íslenskum miðaldabókmenntum og hægt að skunda um víðan völl í þeim efnum. Í Gylfagynningu Snorra-Eddu segir frá því hvernig heimurinn var búinn til úr jötninum Ými. Líkami hans var tekinn og úr honum mótuð jörðin og allt sem henni tilheyrir. Til dæmis urðu björgin til úr beinum hans, sjórinn úr blóði hans og skýin úr heilaslettunum. Líkami Ýmis tvístraðist um víðan völl rétt eins og skrokkar Ósírisar og Orfeusar. Hermóður hélt á Helveg og til Valhallar til að fá Baldur, bróður sinn, aftur til lífsins. Hel var tilbúin að verða við því ef allir hlutir í heiminum myndu gráta hann. Hermóður fór aftur til baka með tíðindin og grátkórinn hóf upp raust sína: „En allir gerðu það, mennirnir og kykvendin og jörðin og steinarnir og tré og allur málmur …“ Gýgurin Þökk (Loki í enn einu dulargervinu) neitaði hins vegar að gráta svo Baldur komst ekki til baka. Í Völuspá er ragnarökum lýst, heimsendir er hinn endanlegi dauði en í lokin glittir þó í upprisu sem kallast á við allar hinar upprisurnar í heimssögunni. Sögunni.

Í íslenskum þjóðsögum kennir ýmissa grasa. Konan í Sálinni hans Jóns míns gerði sér ekki far um að endurheimta bónda sinn til lífsins heldur reyndi frekar að smygla honum yfir á réttan stað. Kannski kristallast þar íslenska leiðin, það hvernig við leysum flest okkar vandamál sem þjóð en það er önnur saga. Í þjóðsögunni um Djáknann á Myrká er það hinn nýdauði sem vitjar um hina lifandi Guðrúnu og reynir að draga hana með sér í gröfina. Það heppnast ekki en Djákninn segir þessi frægu orð:

„Máninn líður,
dauðinn ríður;
sérðu ekki hvítan blett
í hnakka mínum
Garún, Garún?“

Þó að Djáknanum á Myrká hafi ekki tekist ætlunarverk sitt má annað segja um Miklarbæjar-Sólveigu sem náði að draga ástina sína, hann séra Odd, til sín í gröfina. Ástin er nefnilega aldrei langt undan þegar dauðinn er annars vegar, og öfugt. Öfugt.

Gleðilega hrekkjavöku
Hvernig væri að setja meira íslenskt krydd í hina nýju hrekkjavökuhefð? Við getum klætt okkur upp sem Djáknann á Myrká eða aðra þekkta drauga og uppvakninga úr þjóðsögunum. Það væri gaman að sjá Loka ganga niður Bankastræti. Sviðakjammar gætu komið í stað graskerja og líkamspartar Ýmis geta umbreyst í hvers kyns mat. Ef hins vegar saklaus börn í draugabúningum, banka uppá hjá þér í lok mánaðarins og hrópa „grikk eða gott“ (yngri börnin hrópa stundum „drykk eða gott“) skaltu taka vel á móti þeim. Þau eru að prófa að deyja og það er ekkert grín. Gefðu þeim sviðakjamma og blóðmörskeppi og segðu þeim að þetta séu kekkir úr blóði Ýmis og endurtaktu allt sem þú segir tvisvar. Tvisvar.

Deila

[/container]