Fíasól gefst aldrei upp

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum, fjallar um Fíusól í sýningu Þjóðleikhússins.

Það var mikið um dýrðir í Borgarleikhúsinu á laugardag þegar langþráð sýningin um Fíusól, sem aldrei gefst upp var frumsýnd. Leikhússherra minn var Ylfingur Kristján Árnason, 6 ára, sem nú þegar er orðinn mikill leikhússaðdáandi eins og hann á kyn til. Leikdómur hans var að þetta hefði verið  skemmtileg sýning.

Fíasól er sköpunarverk Kristínar Helgu Gunnarsdóttur, rithöfundar. Fyrsta bók hennar um þetta framkvæmdasama stúlkubarn hét Fíasól í fínum málum og fleiri hafa fylgt á eftir enda er Fíasól engin venjuleg stelpa heldur níu ára orkubúnt og baráttukona. Hún býr með foreldrum sínum, eldri systur og hundinum Jensínu. Hún gengur líka í skóla eins og önnur börn og á þar góða vini en lífið þar er ekki bara dans á rósum. Stærðfræði verður að læra hvort sem maður vill eða ekki. Í skólanum er hópur krakka sem leggur bekkjarsystkini sín í einelti og eru verulega andstyggileg. Fremst í flokki fer tuddinn Tedda  Þó Marteinn kennari sé ljúfur og mikill vinur barnanna ræður hann ekki við gengið undir stjórn Teddu sem Rafney Birna Guðmundsdóttir túlkaði mjög vel, bæði hina reiðu hlið hennar og hið særða barn sem síðar kom í ljós. 

Aðalhlutverkið, Fíusól, lék Hildur Kristín Kristjánsdóttir sem var hreint mögnuð í því hlutverki. Þrátt fyrir ungan aldur kann hún textann óaðfinnanlega, syngur vel og dansar eins og hver annar fagmaður.

Fíasól er mikið baráttubarn. Hún minnir sterklega á annan kvenskörung, Línu langsokk, en skilur sig samt frá henni í því að Lína er fyrst og fremst  einstaklingshyggjumanneskja en Fíasól er samfélagslega hugsandi, leiðtogi sem hringir umsvifalaust í  umboðsmann barna ef einhver ætlar sér að beita hana eða önnur börn órétti.

Líf Fíusólar er viðburðaríkt og dramatískt í baráttunni við eineltisgengið í skólanum og stærðfræðina sem ætlar hana lifandi að drepa en hún á góða vini og er hrókur alls fagnaðar. En hún kynnist líka  dauðanum.  Fjölskyldan umvefur hana ást og alúð eða eins og Fíasól syngur:

Fjölskyldan mín er ekkert eðlileg/hún er erfið og skrítin – ja, öll nema ég/Hún er frábær í litlum skömmtum/ og hún er bæði fyndin og skemmtileg.

Bragi Valdimar Skúlason semur fyndna og frábæra söngtexta og tónlist við leikinn.  Leikmyndina gerði Eva Signý Berger og hún var gríðarleg skrautleg, minnti svolítið á hoppukastala og var vettvangur mikillar hreyfingar og fjörs á sviðinu.

Það er ekki hægt að telja hér upp allt það góða og flinka fagfólk sem stendur að þessari sýningu. Mjög mikið hefur verið í hana lagt af Borgarleikhúsinu og það er lofsvert að svo vel sé gert við börnin því að þau munu leikhúsið erfa.

Og að lokum, Borgarleikhúsið var troðfullt og Það mætti segja mér að þessi sýning ætti eftir að ganga vel og lengi og eignast minnst níu líf.

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum.