Mayenburgþríleikurinn

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum, fjallar um leikritið Ekki málið í sýningu Þjóðleikhússins.

Það er skemmtilegt og sérkennilegt að hafa fengið að sjá þríleik Mariusar von Mayenburg í Þjóðleikhúsinu í leikstjórn Benedict Andrews og Mayenburg sjálfs. Verkin þrjú tengjast ekki á öðru en að þau fjalla öll um samskipti venjulegs fólks sem lifir venjulegu lífi, og á sér drauma, þrár og leyndarmál sem koma upp á yfirborð þegar síst skyldi.

Síðasta leikritið „Ekki málið“ er frumlegast og kemur mest á óvart. Björn Thors og Ilmur Kristjánsdóttir leika ungt par, bæði eru metnaðargjörn, eru að byggja upp framaferil en einhver verður að passa börnin og hvort þeirra á að hafa forgang ef þau geta ekki leyst málin í sameiningu? 

Í upphafi er það Simone (Ilmur) sem er lengra komin í framapotinu og Erik (Björn Thors) sem kemst hvorki aftur á bak né áfram og er mjög þrúgaður. Þau reyna að ræða málið en allar samræður snúast upp í rifrildi enda í patt-stöðu. Þá kemur frumlegur viðsnúningur þar sem sama samtal fer fram en hlutverkin víxlast, Erik er að koma heim úr viðskiptaferðalagi og Simone er heima frústreruð og möguleikalaus. Ég get ekki annað en viðurkennt að það setti að mér leiða undir tvítekningu rifrildanna.

Snilldin í þessum viðsnúningi felst hins vegar í því að hér eru kynjahlutverkin og staðlaðar kynjamyndir teknar úr hefðbundnu átakasamhengi (konan þarf alltaf að axla byrðarnar, karlinn hefur alltaf forgang) því bæði kynin hafa nákvæmlega sömu sögu að segja, sama metnað, sömu sektarkennd. Þetta var afar vel leikið af Birni Thors og Ilmi sem bjuggu til skýra karaktera í báðum hlutverkum sínum. Sviðsmyndin í öllum verkunum var sú sama, stílhrein og naumhyggjuleg.

 Þegar upp er staðið finnst mér samt besta leikritið í þríleiknum vera það fyrsta þ.e.Ellen B.  Eins og öll verkin fjallar það um átök og uppgjör en mér fannst það flóknara og lævísara og átökin í því verki nístu meira en í hinum tveimur enda með beina skírskotun til átakamála í okkar litla samfélagi.  

Í leikskránni lýsir Marius von Mayenburg ást sinni og virðingu fyrir leikurunum sem bera uppi leiklistina. Hann segir að metnaður sinn sé að skrifa vel undirbyggðar persónur með ævisögu og sálfræðilegt farteski sem raskast í rás verksins.  Þannig geti áhorfendur speglað sig í þeim og öðlast kannski aukinn skilning á sjálfum sér.  Allt viðtalið er mjög athyglisvert

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum.