Andlit á glugga

Andlit á glugga er safn íslenskra þjóðsagna og ævintýra með nútímastafsetningu og ítarlegum orðskýringum, sem Jón Karl Helgason, prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, og Romina Werth, doktorsnemi við sömu deild, önnuðust útgáfu á. Myndir í bókinni eru eftir Halldór Baldursson.

Bókin hefur að geyma sextíu sögur sem fylgt er úr hlaði með fróðlegum inngangi og milliköflum Rominu Werth þar sem hún varpar ljósi á munnlega geymd efnisins, alþjóðlegt samhengi þess og gildi þessara bókmennta í menningarsögulegu samhengi. Þar segir m.a. að þrátt fyrir að upphaf kerfisbundinnar þjóðsagnasöfnunar í Evrópu á 19. öld sé tengt þjóðernishyggju sterkum böndum þá séu fræðimenn í dag sammála um að þjóðsögur virði ekki landamæri. „Þjóðsögur finnast í öllum löndum og málsvæðum og hafa til að mynda verið flokkaðar eftir sagnagerðum í alþjóðlegum gerðaskrám,“ segir Romina.

„Sívinsæla draugasagan um djáknann á Myrká finnst t.d. í mjög svipaðri mynd í breskum og þýskum ballöðum en íslenska tilbrigði sögunnar hefur aðlagast umhverfi sínu og er staðsett í íslenskri sveit. Í því samhengi má segja að þjóðsögur séu gott viðfangsefni fyrir nemendur af erlendum uppruna þar sem flestir þeirra þekkja sambærilegar sögur frá sínum eigin heimslóðum. Það er því mjög skemmtilegt og gefandi fyrir mig sem kennara að vinna með þessa þekkingu nemenda.“

Romina Werth.

Romina hefur kennt erlendum nemendum í íslensku sem öðru máli, sem kennt er á BA-stigi við Háskóla Íslands, og hún og Jón Karl fengu styrk úr Kennslumálasjóði vorið 2018 til að vinna að útgáfu bókarinnar. „Okkur fannst mikilvægt að semja ítarlegan inngang sem setur íslenskar þjóðsögur í stærra samhengi og eins töldum við þörf á góðum orðskýringum þar sem orðaforði þjóðsagnanna getur reynst erlendum nemendum erfiður. Bókin hentar þó einnig nemendum sem hafa íslensku að móðurmáli og Forlagið hefur auglýst hana fyrir fjölbreyttan hóp nemenda. Með lestri þjóðsagna öðlast lesandinn aukið menningarlæsi og kynnist íslensku sveitasamfélagi fyrri alda. Auk þess hafa margir íslenskir listamenn notað þjóðsögur sem innblástur fyrir eigin listsköpun og þess vegna veitir þekking á þjóðsögum tækifæri til að skoða verkin út frá nýju og spennandi sjónarhorni.“

Um höfundinn
Hugrás

Hugrás

[fblike]

Deila