Dómstóll feðraveldisins afnuminn

„Af ótta við að hún hyrfi sér og áfjáður í að sjá hana, leit [Orfeifur] um öxl ástaraugum – en á samri stundu hvarf hún sjónum. Hann teygði út handlegginu til þess að faðma og vera faðmaður en greip í tómt, vesalingurinn. [Evrídýka], sem dó í annað sinn, ásakaði hann ekki einu orði, því hver var sök hans önnur en sú að elska of mikið?“ – Óvíd

Listmálarinn Marianne (Noémie Merlant) ferðast seint á 18. öld að eyju utan við Brittaníu-hérað. Þar er henni ætlað að mála mynd af hinni undurfögru og dularfullu Héloïse (Adèle Haenel). Svipmynd af hefðarkonu í logum (2019) er fjórða mynd leikstjórans Céline Sciamma, en myndirnar tvær þar á undan, Tomboy (2011) og Girlhood (2014), hlutu afar góðar viðtökur, einkum vakti sú síðarnefnda töluverða athygli. Svipmynd af hefðarkonu í logum tekst á fallegan og einfaldan máta á við byrði kvenna, samkynhneigð, list og ást.

Eitt af ríkjandi þemum myndarinnar er forngríska goðsagan um Evrýdíku og Orfeif. Segir þar frá hvernig Evrýdíka lætur lífið vegna bits frá eitruðum höggormi, og hvernig harmi sleginn eiginmaður hennar, Orfeifur, heldur í kjölfarið til Undirheima með það að markmiði að bjarga ástkonu sinni sinni. Þegar hann er niður kominn leikur Orfeifur svo fagurt á hörpu sína að hvorki Hades né Persefóna geta neitað beiðni hans um að fá Evrýdíku til baka. Þau setja honum hinsvegar þau skilyrði að í göngu þeirra upp á yfirborðið þurfi Evrýdíka ávallt að fylgja á eftir Orfeifi og að hann megi ekki líta um öxl fyrr en þau eru komin á yfirborðið. Mistakist Orfeifi að fylgja skilmálanum glatar hann Evrýdíku að eilífu. Rétt áður en þau eru komin á yfirborðið stenst Orfeifur ekki mátið, lítur um öxl, og glatar Evrýdíku í annað sinn.

Samband Marianne og Héloïse felur í sér ákveðna hliðstæðu við grísku goðsöguna – sem jafnframt er lesin upphátt um miðbik myndarinnar – nokkuð sem er afar áberandi þegar þær hittast fyrst. Þá er Héloïse í hlutverki Evrýdíku og Marianne í hlutverki Orfeifs. Héloïse er klædd stórri kápu með hettu yfir höfði sér og er því algjörlega hulin Marianne. Þær fara saman í gönguferð og Héloïse er á undan á meðan Marianne eltir. Þannig er arfsögunni í vissum skilningi snúið á hvolf, skyndilega tekur Héloïse á sprett og stefnir fram af bjargi í átt að mögulegum dauða. Í senunni er það Orfeifur sem eltir Evrýdíku, og það er hún sem er honum hulinn. Einnig stefnir leið þeirra niður á við, í átt að dauðanum, í stað þess að leiða upp á við, í átt að lífinu. Céline Sciamma tekst að snúa goðsögunni algjörlega við, en þó halda í grunnhugmynd hennar um ást. En þetta er ekki eina forngríska tengingin sem greina má í myndinni. Í nafni Héloïse felst tilvísun í forngríska sólguðinn Helíos, sem táknar meðal annars bæði sköpun og sjón. Hvort tveggja má telja til miðlægra þematískra viðfangsefna myndarinnar.

Kvikmyndin fjallar um konuna í allri sinni dýrð og ljóma, og karlkynið er nánast alfarið fjarverandi, að tveimur atriðum undanskildum. Þannig er frásögnin kvenlæg og leitast er við að fjalla um og sýna kvenlegt hlutskipti, það sem felst í því að vera kona. Dæmi um þetta er umfjöllun myndarinnar um gildi systralags, kynhvöt kvenna, ferli fóstureyðingar, og úrræði við túr. En þrátt fyrir forföll karlmannsins viðheldur feðraveldið sér að einhverju leyti. Karlmaðurinn þarf ekki að vera til staðar til þess að feðraveldið haldi áfram að ríkja. Í þessu tilviki er það móðirin (Valeria Golino) sem viðheldur feðraveldinu með því að stilla kröfum þess upp sem lögmáli á heimilinu. Móðirin neyðir til að mynda Héloïse í hjónaband. Það sést hvað skýrast hvernig móðirin er táknmynd feðraveldisins þegar hún yfirgefur heimilið. Þá losna alla hömlur og Héloïse og Marianne geta elskast í friði – dómstóll feðraveldisins er tímabundið afnuminn.

Konum í myndinni er aldrei refsað fyrir kvenleika, kynhvöt eða kynhneigð sína. Engin sektarkennd fylgir kynhneigð þeirra eins og oft er tilfellið í kvikmyndum sem fjalla um hinsegin fólk, kynhneigð þeirra er náttúruleg og flæðandi eins og hafið.

Náttúruöflin, hafið og eldurinn, spila enda stórt hlutverk í myndinni og bæði geta þessi frumöfl reynst manneskjunni hættuleg. Eldurinn er skýrt tákn fyrir ástina og sést það hvað skýrast í atriðinu þar sem Héloïse stendur bókstaflega í ljósum logum. Það á sér stað meðan Marianne og Héloïse horfa í augu sitt hvorum megin við bálið á kvennasamkomu, bálskotnar hvor í annarri.

Hafið er tákn bæði dauðans og hvatalífsins. Hafið feykir þeim áfram og veitir þeim hugrekki til þess að elska hvor aðra. Á sama tíma er það sífelld áminning um dauða systur Héloïse, en hún kastaði sér fram af bjargbrúninni og féll í hafið. Þessi náttúruöfl eru hættuleg en ríkja þó aðeins tímabundið, að því kemur ávallt að flóðið fjarar, og loginn slokknar að lokum – rétt eins og ást þeirra var alltaf dæmd til þess að endast stutt.

Svipmynd af hefðarkonu í logum sannar að hægt er að gera jafnræði kynþokkafullt. Marianne og þernan Sophie (Luàna Bajrami) eru birtar í myndmálinu sem jafningjar Héloïse þrátt fyrir að þær starfi báðar fyrir hana. Meira að segja listin verður þeirra sameiginlega verkefni þegar Héloïse fær hugmyndina um að endurleika fóstureyðingu sem Sophie fór í gegnum og Marianne málar þær. Marianne er í raun ekki að vinna fyrir Héloïse né heldur reynist Héloïse vera einhvers konar kynlífsbrúða eða innblástur fyrir listamanninn, þær eru jafningjar. Sciamma tekst jafnvel að gera samþykki kynþokkafullt þegar Héloïse og Marianne kyssast í fyrsta sinn. Báðar er þær með slæðu fyrir vörunum á sér og draga þær niður svo sjáist í munn þeirra á sama tíma, og í kjölfar þess kyssast þær.

Öll myndin er endurminning Marianne um ást sína á Héloïse. Í endurminningunni eru þær ennþá ástfangnar, þó að straumur lífsins hafi ýtt þeim í sitthvora áttina. Fyrir þeim er ástin aðeins til sem minning. Þær muna eftir gönguferðum sínum meðfram ströndinni, þær muna eftir tónum Vivaldis, þær muna eftir söng kvennakórsins við bálið, þær muna eftir líkömum hvorrar annarar – þær muna hvor eftir hinni. Í þessum minningum er ást þeirra varðveitt. Því hvað annað er ást en runa hverfulla augnablika sem aðeins búa yfir merkingu í huga tveggja elskenda?

Hrafnkell Úlfur Ragnarsson er nemandi í heimspeki við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands og meðlimur í Engum stjörnum.

Jóna Gréta Hilmarsdóttir er nemandi í kvikmyndafræði við Íslensku– og menningardeild Háskóla Íslands og meðlimur í Engum stjörnum.

 

[fblike]

Deila