Vonir og væntingar – “Pa´l norte”

Smáríki mið-Ameríku ber ekki oft á góma í umræðu um málefni Rómönsku Ameríku, hvað þá þegar heimsmálin eru rædd. Lífsviðurværi íbúa landa – el istmo – eins og eiðið á milli norður- og suður-Ameríku er gjarnan kallað, byggir á frumframleiðslu landbúnaðarafurða fyrir Bandaríkja- og Evrópumarkað. Bananar, kaffi, sykur og pottablóm (!) ber þar hæst. Á eiðinu mætast tvær jarðskorpur og því eru virk eldfjöll í löndunum flestum, jarðskjálftar tíðir og eldgos hversdagslegt fyrirbæri. Lönd eiðisins eru 7 – sé Belice, fyrrum nýlenda Breta talið með – og þar búa rúmlega 40 milljónir íbúa.[1] Náttúrufegurð er óvíða meiri, veðursæld rómuð en stéttskipting er gríðarleg. Þeir fáu sem tilheyra yfirstétt lifa í fágætum munaði á sama tíma og smábændur og verkafólk, rétt draga fram lífið.

Syðst liggur Panama, sem nýtur nokkurrar sérstöðu vegna Panama-skurðsins sem skilar landinu umtalsverðum tekjum vegna umsýslugjalda og mútugreiðslna þeirra sem vilja komast hraðar eða óséðir milli Atlants- og Kyrrahafsins. Þar fyrir norðan er Kosta Ríka, þekkt náttúruparadís og mikið ferðamannaland, og er aðsetur ýmissa alþjóðasamtaka og stofnana sem styrkja mjög ímynd landsins.

Næst til norðus liggur Níkaragva, sem telja verður nokkuð sér á báti. Þar unnu fylkingar vinstrisinnaðra Sandinista sigur á einræðisherranum Somosa í blóðugri byltingu árið 1979 og eftir 10 ára vinstri-stjórn, 10 ára miðju-stjórn og 10 ára hægri-stjórn, eru Sandistar nú aftur við völd. Tíð stjórnarskipti og mótsagnarkennd leiðarljós stjórnvalda hafa valdið því að landið er í dag fátækasta land eiðisins. Talið er að um ein milljón “nicas”, eins og íbúar Níkaragva eru kallaðir, starfi við láglaunastörf í Kosta Ríku – aðallega í landbúnaði og við heimilishjálp.

Norður af Níkaragva er svo „Þríhyrninginn“ svokallaða að finna, þ.e. smáríkin Hondúras, sem er mikilvæg herstöð og fátækt leppríki Bandaríkjanna, El Salvador og Gvatemala sem sjaldan ber á góma– nema ef vera skildi vegna frétta af hrottafengnu ofbeldi – og það á friðartímum. Vert er að rifja upp að í síðarnefndu löndunum geisuðu grimmúðlegar borgarastyrjaldir undir lok síðustu aldar. Dreggjar kalda stríðsins voru þá enn ráðandi og stórveldin lögðu stríðandi fylkingum til fjármagn, vopn og þjálfun. Hundruðir þúsunda flóttamanna leituðu skjóls í Bandaríkjunum, án þess þó að nokkur sérstök úrræði eða aðlögunardagskrá væri hönnuð þess vegna. Þegar börn þessa fólks uxu úr grasi og varð ljós jaðarstaða sín í bandarísku samfélagi – ekki hvað síst í stórborgum Kaliforníu – fóru þau að skipuleggja sig í tiltekin félagsmengi og hópa sem skáru sig úr. Þörfin fyrir því að tilheyra menningarlegu samfélagi varð ákallandi. Til urðu þjóðdansafélög, trúarsöfnuðir, salsaklúbbar, rappsveitir, sérskólar, smáverslanir og bakarí þar sem kornbrauðin „empanadas“ og „tortillas“ seldust eins og heitar lummur. Samhliða varð til ný málýska, mið-Amerísk spænska með ensku ívafi. En … undir-niðri kraumaði einnig óánægja,  gremja og reiði sem varð kveikjan að stofnun glæpagengja, eins og Mara Salvatrucha og MS 13, en félagar þeirra fylltu brátt fangageymslur borga eins og Los Angeles. Þegar Bill Clinton forseta var bent á að lausn vandans gæti legið í því að senda þessa misyndismenn aftur til síns heima, samþykkti hann tillöguna. Undir aldamótin voru fyrstu rúturnar sendar áleiðis til San Salvador, höfuðborgar El Salvador, og farþegunum svo einfaldlega hleypt út í miðbænum og málið dautt – eða þannig! Áskorunin var rétt að byrja fyrir þetta bláfátæka og stríðshrjáða smáríki.

Engin aðlögunardagskrá var heldur undirbúin í upprunalandinu og meðlimir gengjanna héldu uppteknum hætti. Í dag ráða þeir lögum og lofum í tileknum hverfum borga eins og San Salvador, Tegucigalpa í Hondúras og Guatemala borg og stuðla að enn frekara óöryggi íbúanna. Viðvera þeirra og verknaðir, ásamt ráðaleysi stjórnvalda og almennri fátækt stuðla að því að flóttamannastraumurinn hefur haldið áfram allt til dagsins í dag – þrátt fyrir friðarsamkomulög og þróunaraðstoð. Aðalástæðan er jú sú að að unga fólkið sér engin teikn á lofti um að lífsviðurværi þess sé eða verði borgið í þessum smáríkjum þar sem landbúnaður og frumframleiðsla eru aðalatvinnugreinarnar og þrældómur frá sólarupprás til sólarlags heillar það ekki. Því til viðbótar verður æ algengara – þar eins og annars staðar – að vélvæðingu vex fiskur um hrygg og ófaglært vinnuafl verður óþarft. Óveðursský hrannast upp og unga fólkið – sem töggur er í – tekur sig upp í leit að betri tíð. Og auðvitað heldur það til norðurs, til suðurs er ekkert að sækja og fjármagn fyrir flugfarseðlum til að komast lengra eiga ekki aðrir en þeir sem þegar eru í ágætri stöðu, eins og nú gerist með miðstéttarfólkið frá Venesúela sem fjölmennir til Evrópu og fær – að því er mér skilst – sjálfkrafa formlega stöðu flóttamanna og vernd. Alþýðan á ekki annarra kosta völ en að fara fótgangangi – og gerir það, svo þúsundum skiptir.

Talið er að á árunum 2005 til 2010 hafi um 400.000 manns lagt upp í langferðina eftir endilangri Mexíkó á ári hverju.[2]  Síðan þá hefur hann eitthvað rénað og tekið breytingum. Lengi vel safnaðist fólk saman á þökum vörulesta, „La Bestia“ eða Óargadýrsins, eins og þær voru kallaðar, sem urðu táknmyndir flóttamannastraumsins vestanhafs. Nú til dags fer fólk, eins og fram hefur komið í fréttum, fótgangandi í átt til draumalandsins, enda ríkjandi sú ímynd að þar býði tækifærin í röðum þeirra sem tilbúnir eru að leggja á sig mikla vinnu og að þar fái 17 ára unglingar bíl í afmælisgjöf og hús í brúðkaupsgjafir.

Og án þess að rekja þessa framhalds- og örlagasögu í smáatriðum, má benda áhugasömum á tvær nýlegar kvikmyndir sem gerðar hafa verið og auðvelt er að nálgast á veraldarvefnum um sögu og aðstæður flóttamanna mið-Ameríkuríkja. Annars vegar er um myndina Sin nombre, eða Nafnlaus, frá 2009, að ræða. Myndin er ekki fyrir viðkvæma, og beinir sjónum að þeim margsamsettu ógnum sem vofa yfir flóttafólkinu á ferð sinni eftir Mexíkó endalangri, ekki hvað síst ungum konum. Hins vegar er myndin Jaula de oro, eða Gullbúrið, frá 2013, sem sýnd var hér á RIFF fyrir nokkrum árum, og beinir sjónum að yngsta aldurshópi flóttafólksins. Myndin varpar ljósi á aðstæðurnar sem fólk yfirgefur, angistina sem óvissan skapar, en veitir einnig innsýn í samstöðuna sem til verður, vinskap og þann velvilja og stuðning sem íbúar Mexíkó sýna ferðalöngunum.

Áhorfendum verður betur ljóst hvernig útskúfun og örbyrgð, ásamt skorti á framtíðarsýn stjórnmálahreyfinga landanna kynda undir vonleysi og  hvers vegna fólk heldur af stað í leit að betra lífi. En óöryggi, ógnir og hörmungar leysa einnig úr læðingi áður óþekktan sköpunarkraft. Þess vegna blómstrar menningar og listalíf um alla álfuna. Öflugt tónlistarlíf, blómstrandi myndlistartjáning og lifandi og iðandi götumarkaðir votta um frumleika og áræði. Ljóðskáldið Vladimar Amaya og rithöfundar eins og Jacinta Escudos, Horacio Castellanos Moya og Claudia Hernandez hafa komið fram á sjónarsviðið í El Salvador. Sögupersónur verka þeirra hrærast í mótsagnakenndu samfélagi samtímans sem tekst á við þær gjár sem mynduðust á tímum borgarastyrjaldar. Í Gvatemala opnaði indjánakonan Rigoberta Menchú, friðarverðlaunahafi Nóbels árið 1992, dyr að reynsluheimi og menningararfleifð Maya indjána og nú er svo komið að gefin hafa verið út tvö tvímála ljóðasöfn ungskálda úr röðum frumbyggja. Og ef fræðikonan Amy Kaminsky hefur rétt fyrir sér þegar hún bendir á að hörmungar og þjáning séu forsendur góðs skáldskapar þá er von á góðu og ástæða til að snúa sér að námi í spænsku til að hafa aðgengi að þeim fjársjóði sem í vændum er.

[1] Íbúaskipting landa mið-Ameríku: Gvatemala 12 millj., Hondúras 9 millj., El Salvador 6 millj., Nikaragva 6 millj, Kosta Rica 5 millj., Panama 4 millj og Belice 385 þúsund. Sjá: https://www.indexmundi.com/map/?v=21&r=ca&l=es

[2] Sjá skýrsluna: Niñez y migración en América Central y América del Norte: Causas, políticas, prácticas y desafios (Án höfundar, 2015).

Um höfundinn
Hólmfríður Garðarsdóttir

Hólmfríður Garðarsdóttir

Hólmfríður Garðarsdóttir er prófessor í spænsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur hún lagt áherslu á bókmenntir Rómönsku Ameríku og um þessar mundir vinnur hún að nýrri bók um málefni minnihlutahópa við Karíbahafsströnd Mið-­Ameríkuríkja. Sjá nánar

[fblike]

Deila