Evrópsku háskólakvikmyndaverðlaunin bjóða kvikmyndafræðinemum til Hamborgar

Evrópsku háskólakvikmyndaverðlaunin verða veitt í þriðja sinn á þessu ári og í fyrsta sinn er Háskóli Íslands þátttakandi í verðlaunaafhendingunni. Um er að ræða verkefni á vegum Evrópsku kvikmyndaakademíunnar, Kvikmyndahátíðarinnar í Hamborg og Kvikmyndaverðlauna Quebec Háskóla, í samstarfi við Evrópsku kvikmyndaverðlaunin. Tuttugu og þrír háskólar í jafnmörgum löndum taka þátt. Erindreki frá hverjum háskóla er valinn og sækir þriggja daga ráðstefnu í Hamborg í byrjun desember, en á þessari ráðstefnu er sigurmyndin valin. Í fyrra hlaut Hjartasteinn í leikstjórn Guðmundar Arnars Guðmundssonar verðlaunin, en í ár voru fimm myndir tilnefndar. Kjartan Már Ómarsson ræddi við Björn Þór Vilhjálmsson, greinarformann kvikmyndafræðinnar, um verkefnið og þátttöku Háskóla Íslands.

Gætirðu sagt mér aðeins meira um Evrópsku háskólakvikmyndaverðlaunin og það sem í þeim felst? Hvaða myndir koma til greina?

Þetta eru eins konar „hliðarverðlaun“ við Evrópsku kvikmyndaverðlaunin. Skammstöfunin fyrir verkefnið er EUFA en það stendur fyrir „European University Film Awards“ og Evrópska kvikmyndaakademían stendur fyrir verðlaununum, í samstarfi við aðra, og raunar eru myndirnar sem eru tilnefndar allar valdar úr tilnefningamenginu til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna. Það er að segja, af þeim 49 frásagnarmyndum og fimmtán heimildarmyndum sem tilnefndar hafa verið til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna eru fimm valdar fyrir Evrópsku háskólakvikmyndaverðlaunin, en það er fimm manna nefnd sem velur myndirnar fyrir háskólaverðlaunin. Að þessu sögðu er hugtakið „hliðarverðlaun“ kannski ekki endilega rétta orðið, þetta eru jafnframt sjálfstæð verðlaun sem standa í eigin nafni, fá heilmikla fjölmiðlaumfjöllun og svo framvegis, ef ég man rétt var Guðmundur Arnar Guðmundsson til dæmis viðstaddur þegar hann hlaut verðlaunin fyrir Hjartastein, heilmikil viðhöfn, pomp og prakt. Þetta árið eru EUFA myndirnar Hamingjusamur eins og Lazarro (Alice Rohrwacher, 2018), Styx (Wolfgang Fischer, 2018), Foxtrot (Samuel Maoz, 2017), Útey: 22. júlí (Erik Poppe, 2018) og Eistu Tarzans (Alexandru Solomon, 2017). Af þessum er sú síðastnefnda eina heimildarmyndin í hópnum.

Björn Þór Vilhjálmsson, greinarformaður kvikmyndafræðináms við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Hver er tilgangur – eða markmið – verðlaunanna? Af hverju eru Evrópsku háskólakvikmyndaverðlaunin haldin?

Það eru held ég fjölmargar ástæður sem liggja að baki háskólaverðlaununum í Evrópu, forsendur sem eru í senn menningarlegar, pólitískar, og tengdar ákveðinni hugsjón. Í grunninn, held ég, þá erum við að tala um hina þverþjóðlegu hugmynd um „Evrópu“ sem ESB stendur fyrir, sameinuð Evrópa, og hvernig styrkja má færsluna yfir til raungervingar þessarar hugsjónar. Svo erum við að tala um það að verið er að virkja ákveðinn ungan áhorfenda– og viðtökuhóp, það er verið að tengja það sem er að gerast í evrópskri kvikmyndagerð með beinum hætti við komandi kynslóð, þá sem er í þann mund að taka við taumunum, bæði hvað varðar menningarlega stýringu og bara almenna viðveru í evrópskum samfélögum. Þetta er pólitíska hliðin. Menningarlega hliðin er að sumu leyti samtengd, kvikmyndin sem listform þarf auðvitað að lifa í nánu sambandi við almenning og hérna er verið að beintengja við yngri áhorfendur, það eru ungir háskólastúdentar sem hér standa við stjórnvölinn, ekki rosknir og virðulegir tuttugustu aldar menn sem nálgast óðfluga eftirlaunaaldurinn í upphafi þessarar nýju aldar okkar, aldar sem lofar – eða kannski hótar – viðamiklum breytingum á öllum sviðum.

Svo er auðvitað fræðilega hliðin, fyrir utan almenna viðtökuhópa þá er hér verið að virkja með beinum hætti háskóla og háskólastúdenta, það er með öðrum orðum verið að leiða með beinum hætti kvikmyndamenningu líðandi stundar í Evrópu inn í kennslustofur álfunnar, það hefur þýðingu. Þá blasa við aðrir áþreifanlegir kostir, verið er að stuðla að þverþjóðlegri kennslu– og menntamenningu, samstarfi háskóla, tengslamyndun fræðimanna og ekki síst verið að skapa stökkpall og svigrúm fyrir tengslamyndun nemenda í kvikmyndafræði milli þjóða og menningarheima. Í þessu ljósi hlýtur að vera um eflingu að ræða, bæði hvað varðar kennslu í hugvísindum, kvikmyndafræði eða einfaldlega ákveðinnar samræðumenningar.

Er það rétt skilið að nemandi úr kvikmyndafræði Háskóla Íslands ferðast til Hamborgar til að taka þátt í þverþjóðlegri ráðstefnu?

Einmitt, það er auðvitað eitt af aðalatriðunum. Eftir að EUFA myndirnar hafa verið lagaðar að kennslu í kvikmyndafræðinni og svigrúm skapað fyrir sýningar á þeim í tilteknu námskeiði, þá er einn nemandi úr þessu námskeiði valinn til að ferðast til Hamborgar til að taka þátt í alþjóðlegri nemendaráðstefnu. Það er nemandanum að kostnaðarlausu, Evrópska kvikmyndaakademían sér alfarið um þennan hlut verkefnisins og heldur utan um það með skeleggum hætti. Nema mér skjátlist þá bauðst nemandanum jafnvel að framlengja ferðina, kynni hún eða hann að kjósa það, en aðalatriðið er að viðkomandi nemandi lendi á sama stað og á sama tíma og erindrekar hinna tuttugu og tveggja háskólanna, og taki þátt í ráðstefnunni. Vandlega er haldið utanum ráðstefnuna sem nemandinn tekur þátt í og sérstaklega er gætt að því að erindrekar ólíkra háskóla þingi saman og hópurinn allur komist svo að sameiginlegri niðurstöðu á þeim dögum sem fyrirliggja, sem eru þrír.

Kvikmyndarýni 2018 ©Kristinn Ingvarsson

Þú nefndir að þátttökuna í EUFA þyrfti að „laga að kennslu“ í greininni. Hvernig fer þetta fram, hvernig taka háskólarnir þátt? Fer einhvers konar val fram innan háskólanna eða hvernig er verðlaunamyndin valin?

Þetta er býsna þaulskipulagt að hálfu Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna, það er tímalína fyrir allt ferlið, og henni er fylgt út í æsar, en auðvitað er misjafnt hvernig háskólar koma inn í þetta verkefni. Fyrir það fyrsta er bara einn háskóli frá hverju landi sem tekur þátt. Í tilviki Íslands er það ekki stórt mál en annars staðar, þar sem fleiri en einn háskóli kenna kvikmyndafræði, veltur það eflaust á ýmsum þáttum hvaða háskóli það er sem verður erindreki þjóðarinnar. Í okkar tilviki er það Laufey Guðmundsdóttir hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands sem var milliliðurinn milli EUFA og kvikmyndafræði HÍ. Síðan lifum við náttúrlega á tækniöld þannig að vefkóðar eru sendir fyrir tilnefndu myndirnar og þeim er svo streymt í tíma – vefkóðar sem umsjónarmönnum er auðvitað gert að fara með eins og mannsmorð, þetta eru í flestum tilvikum glænýjar myndir og þær mega ekki fara á flakk, sumar eru ókomnar í bíó eða voru sýndar í kvikmyndahúsum á sama tíma og við vorum að horfa á þær í tímum, hér er ég að hugsa um Úteyjarmyndina og Hamingjusamur eins og Lazarro, sem báðar voru sýndar í Bíó Paradís á sama tíma og við vorum að horfa á þær sem tilnefndar myndir.

En hvað með valið? Hvernig er sjálft ferlið? Og hvernig hefur gengið að fella EUFA myndirnar að kennslu?

Þessum spurningum er kannski best svarað í öfugri röð, ef þér er sama, en þær tengjast svo sem allar með nokkuð beinum hætti. Lykilatriði var auðvitað að geta fellt tilnefndu myndirnar að kennslutilhögun einhvers námskeiðs í kvikmyndafræðinni núna í haust. Ákveðið frumskilyrði fyrir þátttöku HÍ er að nemendum í tilteknum áfanga sé gert kleift að horfa á og ræða allar fimm myndirnar sem eru tilnefndar, og það er ekki endilega sjálfsagt að hægt sé að skapa svigrúm fyrir þetta margar kvikmyndasýningar, einkum þar sem um er að ræða myndir sem óljóst er hverjar séu þegar lagt er af stað í upphafi, í hvaða áfanga sem er. Hins vegar er grunnnámskeið kvikmyndafræðinnar, „Kvikmyndarýni“, sérstaklega sveigjanlegt og hentugt undir þessum kringumstæðum. Í hverri kennsluviku í námskeiðinu er fjallað um tiltekið svið eða þátt í fræðilegri umfjöllun um og rýni í kvikmyndir, það er í raun verið að fara yfir grunnatriðin, í einni viku er fjallað um klippingu til dæmis, í annarri um kvikmyndatöku, í þeirri þriðju leikmyndina og í þeirri fjórðu frásögn, og svo framvegis. Samhliða fyrirlestrum og lestri nemenda er mynd sýnd sem svo er rætt og fjallað um í samhengi við viðkomandi áhersluatriði (klippingu, leikmynd o.s.frv.) og þar sem hægt er að fjalla um nær allar kvikmyndir á þessum forsendum, er auðvelt að innlima myndirnar sem EUFA tilnefnir í kennsluefnið og hættina. Hvað þetta varðar var kvikmyndafræðin sem sagt frekar lukkuleg, það var auðvelt að uppfylla skilyrðin fyrir þáttöku, að geta sýnt tilnefndu myndirnar í kringumstæðum þar sem jafnframt var hægt að ræða þær. Umræðurnar urðu reyndar gjarnan svo umfangsmiklar og heitar, og mikið af viðhorfum og skoðunum sem nemendur höfðu, að nauðsynlegt var að færa umræður bekkjarins niður á Stúdentakjallara þegar hefðbundnum kennslutíma lauk. Þar var gjarnan haldið áfram í klukkustund eða tvær.

Ferlið sem slíkt er svo eins og ég hef þegar lýst – myndirnar voru sýndar í skipulagðri dagskrá námskeiðsins, umræðurnar sömuleiðis haldnar (þó stundum hafi teygst á þeim), en þegar allar fimm myndirnar höfðu verið sýndar og ræddar var formleg kosning, nemendur fylltu út eyðublöð frá EUFA og niðurstöður þessarar kosningar hafa svo verið sendar út til Hamborgar. Þannig var það í HÍ og þannig er það í hinum tuttugu og tveimur háskólunum sem taka þátt. Þessi „innri“ kosning í háskólunum hefur svo áhrif á það hvaða myndir komast uppúr fyrstu umferðinni á ráðstefnunni.

Hefur erindreki Háskóla Íslands verið valinn?

Já, svo sannarlega. Námskeiðið var sniðið sumpart að þessu verkefni þannig að þeir nemendur sem helst sköruðu framúr hvað varðar verkefnavinnu og önnur prófform varðar, þrír talsins, voru valdir og einn þeirra að endingu valinn til útferðar, með tilliti til svigrúms og ferðakosta viðkomandi nemenda. Í þessu tilviki voru allir þrír nemendur sem til greina komu reiðubúnir til að fara til Hamborgar þannig að úrslitin voru valin með hlutkesti.

Hvaða mynd var valin af hálfu „Kvikmyndarýninnar“ sem sigurmynd og tilnefnd af hálfu íslensku kvikmyndafræðinnar? Og var einhverja sameiginlega þætti að sjá milli myndana sem tilnefndar voru? Er hægt að sjá mynstur í tilnefningunum?

Það var ítalska myndin Hamingjusamur eins og Lazarro, sem sýnd var í Bíó Paradís í haust. Kosningin var reyndar býsna spennandi. Myndir frá Ísrael, Foxtrot, og Noregi, Útey: 22. júlí, fylgdu fast á fætur sigurmyndarinnar. Og já, enginn vafi leikur á því að EUFA valnefndin valdi myndir sem tækla stóru spurningarnar í Evrópu dagsins í dag, tilnefndu myndirnar voru flestar hápólitískar eða tóku á viðfangsefnum sem eru í brennidepli í dag, sambandi Evrópu við aðra menningarheima til dæmis, fóttamannavandamálinu, arðráni hagsælla þjóða á öðrum þjóðum, uppgangi fasisma og nýnasisma í Evrópu, og Ísrael/Palestínu krísunni, þetta voru allt krefjandi myndir. Valið undir lokin var erfitt og mikið um það rætt hvaða forsendur ættu að leiða innanhússkosningar HÍ, pólítiskar eða fagurfræðilegar til dæmis. En myndin sem valin var, Hamingjusamur eins og Lazarro, er frábær kvikmynd og nú verður forvitnilegt að sjá hvernig ráðstefnan í desember fer og hvaða mynd verður valin fyrir háskólaverðlaun Evrópu.

Um höfundinn
Kjartan Már Ómarsson

Kjartan Már Ómarsson

Kjartan Már Ómarsson er með MA gráðu í bókmenntafræði. Hann er stundakennari við íslensku- og menningardeild HÍ þar sem hann kennir jöfnum höndum í bókmennta- og kvikmyndafræði.

[fblike]

Deila