Íslenski dansflokkurinn frumsýndi Dísablót á Nýja sviði Borgarleikhússins þann 17. nóvember. Sýningin var hluti af sviðslistahátíðinni Spectacular og saman stóð af tveimur fimmtíu mínútna löngum verkum: Verk nr. 1 eftir Steinunni Ketilsdóttur við tónlist Áskels Harðarsonar og Pottþétt myrkur eftir Ernu Ómarsdóttur og Valdimar Jóhannsson.

Verk nr. 1

Kóreógrafían í verkinu einkennist af formum. Sýningin er mjög sjónræn og rýmið er vel nýtt. Dansararnir mynda boga, standa í hring, fara í raðir eins og módel á sýningarpalli, búa til línur, standa í þríhyrning með hendur fyrir aftan hnakka svo þær mynda einnig þríhyrning og mynda seinna láréttan tígul á gólfinu. Því væri sýningin eflaust mjög flott séð úr lofti. Að því leyti minnir sviðsetningin á marserandi lúðrasveit (e. marching band) en sýningar þeirra eru alltaf mjög sjónrænar og nákvæmni og tilfinning fyrir rýminu mikilvæg.

Þrátt fyrir mikla samstillingu innan danshópsins er einhver dansaranna endurtekið aðeins á eftir eða á undan hinum í hreyfingum. Það virtist vera stílbragð í verkinu, samanber: „Það er alltaf en aldrei viðkvæmt og nákvæmt“ eins og segir í sýningarskránni. Mikið er um að dansararnir geri allir sömu sporin samtímis þar til einn byrjar að gera eitthvað öðruvísi. Þeir eru gjarnan undrandi eða forvitnir á svipinn og gera tilraunir með að skapa tengingu sín á milli, til dæmis með augnsambandi og vangadansi. Tvisvar virðast þeir verða frjálsir undan forskriftinni og fylgja innsæinu. Það er fyrst eftir að þeir hafa hreyft sig taktfast eins og pendúll og tónlistin breytist, og gefur þeim rými, að þeir dansa villt og sleppa aðeins fram af sér beislinu. En fljótlega eru þeir aftur farnir að dansa eins og áður. Seinna skiptið er lengra og minnir á danspartý. Þar dansa þeir hver með sínum hætti, þétt hver upp við annan líkt og þeir séu staddir á bar. Túlka mætti verkið sem sögu einstaklinga sem reyna að fóta sig í samfélagi þar sem krafist er þess að maður falli inn í hópinn en sé í senn trúr sjálfum sér.

Búningarnir (Alexía Rós Gylfadóttir) ýta undir þá túlkun að dansararnir séu einstaklingar en um leið ein heild. Þeir eru allir í þröngum samfestingum með rykktum röndum. Ermar og buxnaskálmar eru ýmist langar eða stuttar. Einn strákanna (Camilo) er ber að ofan. Ein stelpnanna (Erna) er í sniði sem minnir á ballettbol. Efnið hefur allt sömu glansandi áferðina en litirnir eru allir ólíkir þó tónarnir séu rauðbleikir, bláir og grænir. Í einu atriðinu þar sem dansararnir standa þétt saman og vagga sér til hliðar minna litirnir á kóralrif. Í ákveðinni birtu virðast búningarnir svo breyta um lit: blái liturinn verður dekkri, rauðbleiki liturinn appelsínugulur og græni liturinn dökkblár. Í lok sýningar er aðeins ein manneskja inni á sviðinu. Hún hefur skipt um búning. Sá nýi er hvítur á litinn. Velta má fyrir sér hvort það eigi að tákna nýtt upphaf.

Pottþétt myrkur

Það er dimmt á sviðinu. Dauf þokuhvít birta beinir sjónum áhorfenda að óljósum verum sem liggja í hrúgu á gólfinu. Hreyfingarnar eru óljósar. Verurnar eru óhugnanlegar eins og skrímsli í myrkrinu. Þegar birtir sést að þær eru með marga útlimi og geta tekið á sig sérkennileg form. Líkamspartarnir fléttast saman svo óljóst er hver á hvaða höfuð, fót eða hönd. Sjónblekkingin er alger í fyrstu en svo áttar áhorfandinn sig á því að hver og einn dansari er klæddur í svartan þröngan heilgalla og heldur á dúkku sem líkist honum. Þannig virðast vera fjórtán manns á sviðinu þó þar séu aðeins sjö.

Dúkkurnar fjarlægjast dansarana og virðast taka á sig mynd skugga þeirra. Þannig mætti túlka hreyfingarnar sem baráttu við eigin sjálfsmynd. Skugginn eða hluti af sjálfinu er líkamnaður og dansarinn á í haltu-mér-slepptu-mér-sambandi við hann. Saman fara þeir í kollhnísa, faðmast en slást líka. Ofbeldið stigmagnast. Dansararnir fara að slengja dúkkunum í gólfið en inn á milli gá þeir að þeim og strjúka þeim. Hljóðheimurinn vekur upp óhug eins og kvikmyndatónlist í dystópískri hasarmynd. Verkið verður martraðarkennt því það er sem dansararnir séu á flótta. Þeir hlaupa og öskra og kasta dúkkunum hver í annan og detta í gólfið.

Dansararnir fara út af og skil verða í verkinu. Þegar þeir koma aftur inn á eru þeir í hversdagslegum fötum í svörtum, hvítum og rauðum tónum. Í þessum hluta verksins er áhersla lögð á hljóð og hreyfingar. Dansararnir gefa frá sér froskaleg hljóð, stunur og öskur, rophljóð og hljóð sem minna á stunginn grís. Hreyfingarnar felast margar í því að þeir snúa sér á hvolf með því að líta aftur fyrir sig. Þessi samþætting hljóðs og hreyfingar er án efa krefjandi fyrir dansarana en það er erfitt að sitja undir þessu til lengdar. Aftur taka við ofbeldisatriði þar sem dansararnir slengja dúkkunum í gólfið. Endurtekningin er fyrirsjáanleg og þreytandi. Aftur kemur góður sprettur í verkið þegar dansararnir fara sumir að dansa saman tveir og tveir. Það er flott hvernig þeir sveifla og kasta hver öðrum svo annar þeirra gerir hreyfingar eins og dúkkurnar höfðu gert.

Sýningin endar líkt og hún byrjaði. Á sviðinu er hrúga af dökkum verum því þegar dansararnir ganga út af skilja þeir dúkkurnar eftir. Því er óvænt þegar hrúgan fer að hreyfast en inni í henni leynist einn dansaranna í svörtum búningi. Lokaatriðið þegar gráum pappírsstrimlum rignir yfir sviðið minnir á sýninguna Njálu en Erna og Valdimar unnu bæði að þeirri sýningu sem var samstarfsverkefni Íslenska dansflokksins og Borgarleikhússins. Í verkinu Pottþétt myrkur er sitthvað kunnuglegt; það ber skýr höfundareinkenni Ernu.

 

Lokaorð

Verkin tvö eru mjög ólík og skapa áhugaverða andstæðu. Verk nr. 1 er bjart og fallegt en Pottþétt myrkur dimmt og drungalegt. Bæði verkin krefjast mikils af dönsurunum, hið fyrra vegna skipulags og stjórnleysis í bland, og hið seinna vegna samhæfingar raddar og líkamshreyfinga. Það er mikil orka í flutningi dansaranna.

Dansarar Íslenska dansflokksins: Elín Signý W. Ragnarsdóttir, Erna Gunnarsdóttir, Ernesto Camilo Aldazabel Valdes, Félix Urbana Alejandre, Hannes Þór Egilsson, Inga Maren Rúnarsdóttir, Sigurður Andrean Sigurgeirsson, Una Björg Bjarnadóttir og Þyri Huld Árnadóttir. Sólbjört Sigurðardóttir dansaði í stað Ingu Marenar í Verki nr. 1.

Um höfundinn
Karítas Hrundar Pálsdóttir

Karítas Hrundar Pálsdóttir

Karítas Hrundar Pálsdóttir er með meistarapróf í ritlist frá Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila