Árið 2017 var ár Ernu Ómarsdóttur listræns stjórnanda Íslenska dansflokksins. Tvær stórar frumsýningar voru á árinu þar sem höfundaverk hennar voru í forgrunni.
Fórn
Sú fyrri var danshátíðin Fórn sem haldin var í Borgarleikhúsinu í mars. Aðeins var um 5 sýningar að ræða hér á landi en síðan hefur flokkurinn gert víðreist með hátíðina og sýnt í Utrecht Hollandi, Harstad Noregi, London, Dusseldorf Þýskalandi og Kortrijk Belgíu. Sýningin Fórn var sett upp sem hátíð sem tók yfir allt Borgarleikhúsið þessa kvöldstund. Til viðbótar við dansverkin Shrine og No tomorrow sem boðið var upp á á stóra sviðinu þá var hatursjóga í boði á litla sviðinu. Stuttmyndin Dies Irae eftir Gabríelu Friðriksdóttir myndlistamann á nýja sviðinu. Öskurboxið þeirra Ernu og Valda var til staðar fyrir fólk í framsalnum auk þess sem komið hafði verið upp nokkrum sölubásum á einskonar markaðstorgi. Kvöldið endaði svo á frumsýningu á kvikmyndinni og innsetningunni Union of the North á stóra sviðinu.
Kvöldið byrjaði með verkinu Shrine eftir Ernu Ómarsdóttur og Valdimar Jóhannsson sem bar höfundum sínum sterk merki. Það kom í sjálfu sér ekkert nýtt fram í verkinu hreyfingar, öskrin, sönglið, húmorinn allt var eins og við var að búast. Að sama skapi leyndi handbragðið sér ekki. Hér var um vandað verk að ræða sem skildi eftir sterkar myndir í huganum. En þó að verkið væri áferðarfallegt og vel gert þá vantaði það einhvern neista til að það næði alveg til hjartans. Svart var áberandi í búningum og sviðsmynd. Eins og dansinn sjálfur þá var öll ytri umgjörð vel gerð en náði ekki að heilla. Það gerði aftur á móti lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar, hún var listaverk út af fyrir sig og gaf verkinu þá áferð sem þurfti til að vekja áhuga áhorfandans. Það sem var áhugavert að sjá í þessu verki var hvað dansararnir höfðu mikið vald á líkamstjáningunni sem notuð var en hún bar öll merki líkamstjáningar Ernu sjálfrar. Fyrir nokkrum árum þegar Erna var fyrst að setja upp verk fyrir Íslenska dansflokkinn voru dansararnir greinilega ekki undirbúnir undir að takast á við hennar stíl. Þetta hefur alveg breyst.
Verk Margrétar Bjarnadóttur og Ragnars Kjartanssonar No tomorrow var gimsteinn kvöldsins. Einfalt en samt svo heillandi. Í viðtali við höfund tónlistarinnar var talað um að með því að hafa gítarleikarana á hreyfingu myndaðist þrívíður hljómur en fyrir mig var þetta hreyfing í fylgd tónlistar. Verkið var kallað ballettverk eitthvað sem varla sést lengur í umfjöllun um dans hér á Íslandi. Í flestra huga vísar ballett til stórra verka með mörgum dönsurum þar sem táskórnir eru í aðalhlutverki. Í þessu verki eru engir táskór og allar hreyfingar bundnar þeirri staðreynd að dansararnir allir kvenkyns spiluðu á gítar allan tímann. Það var aftur á móti ýmislegt í uppbyggingu verksins og framsetningu á sviðinu sem minnti á klassískt ballett verk. Til dæmis var samhverfa og beinar línur áberandi í danssmíðinni og dansararnir færðust til sem ein heild. Það var í sjálfu sér engin vá upplifun í verkinu, vá hvernig er þetta hægt, heldur frekar seiðandi framvinda sem leið áfram hægt og yfirvegað og gaf aldrei færi á að maður liti undan eða léti hugann reika eitthvað annað. Reyndar voru kaflaskil í verkinu þar sem salurinn brast í klapp og undirrituð hugsaði, hvernig ætla þau að ná sér aftur á strik en svo var maður strax aftur fastur í heljargreipum verksins og fylgdist með hverju smáatriði sem fram fór þar til yfir lauk. – Lýsingin var ekki eins afgerandi í þessu verki eins og í verkinu á undan en samt mjög vel gerð. Búningarnir voru hversdagslegur klæðnaður og sviðsmyndin engin. Það var því fyrst of fremst frammistaða dansaranna og dansköpunin sjálf, samsett af tónum og hreyfingum sem sköpuðu töfra verksins.
Dansmyndin Union of the North eftir Matthew Barney, Ernu Ómarsdóttir og Valdimar Jóhannsson var lokaverkið á stóra sviðinu. Myndin sem var 80 mínútur sýnir gæsun og steggjun útfrá sjónarhóli þess að um helgiathöfn sé að ræða og síðan einingu parsins í lokin. Myndin er tekin inn í kringlunni og er blandað saman í eina mynd hversdagsleika afgreiðslufólks í Kringlunni sem andstæða við gæsun og steggjun sem fram fór á sama stað. Á meðan vinnan við afgreiðslu lét sín hefðbundnu lögmálum fór gæsunin og steggjunin sífellt lengra út fyrir hefðbundna hegðun fólks þar til ferlið endaði á hjónavígslunni sjálfri, helgiathöfninni sem allt stefndi að. Áhorfendur fá að fylgjast með bæði steggjunni og gæsunni samtímis með samhliða römmum á tjaldinu. Inn á milli komu svo senur í einni mynd þar sem þeir sem að gæsuninni og steggjunni eru eitthvað að bralla. Efni myndarinnar er subbulegt og líkamleg alveg í anda Ernu og var nekt áberandi í myndinni. En þó að nektin spilaði stórt hlutverk í uppfærslunni þá var hún aldrei klúr, eitthvað sem er sjaldgæft þegar nekt í íslensku verkum er annars vegar. Viðfangsefni myndarinnar var áhugavert og útfærslan skemmtileg. Myndina hefði samt mátt beitla betur með sterkari listrænni útfærslu þannig að framvindan væri markvissari og skýrari. Það háði reyndar líka myndinni að mati undirritaðar að hún var sýnd sem endirinn á dagskrá sem var þá þegar orðin nógu löng. Myndin stakk einnig á margan hátt í stúf við annað sem var í gangi á stóra sviðinu og á hátíðinni sem heild. Eftir að hafa verið þátttakandi í lifandi viðburðum bæði frammi í forsal og horfa á dansverk á sviðinu þá var það að setjast í „bíó“ til að horfa á langa mynd anti klimax. (Björn Þór Vilhjálmsson fjallar um tilraunakvikmyndina Union of the North (2017) hér í Hugrás)
Stuttmynd Gabríelu Friðriksdóttur Dies Irae var heillandi listræn stuttmynd í svarthvítu þar sem hugmyndin, útfærslan, kvikmyndatakan og klippingin voru skýr og falleg. Í myndinni var leikið sér með tengsl líkama og umhverfisins. Líkamar tveggja dansara voru eitt með umhverfinu þar sem þeir hurfu og birtust. Erna og Valdi ljáðu myndinni mannleg hold. Þau saman eru ótrúlega falleg eining og það er magnað að sjá hvernig Valdimar fylgir og styður við hreyfitjáningu Ernu. Þegar þau vinna saman virka hann eins og magnari á það sem hún gerir. Tónlistin studdi vel við það sem var á skjánum en þar verð ég einfaldlega að játa að athyglin mín beinist alltaf fyrst og fremst að hreyfingunni það er hún sem fangar athygli mína. Öll úrfærsla í myndinni var frábærlega flott. Verkið sem var sýnt í hléunum var 15 mínútur en það hefði svo gjarnan mátt horfa á það aftur og jafnvel aftur. Ólíkt Union of the North þá hafði Dies Irae sömu áhrif á áhorfandann og dansverk á sviði. Stemmningin í myndinn greip mann og maður fann fyrir því sem var að gerast í myndinni en horfði ekki bara á það sem fram fór á skjánum.
Fórn stóðu undir nafni sem hátíð. Þessi fjölbreytta umgjörð var að mínu mati frábær en hún fékk ekki að njóta sín sem skildi vegna þess að það þurfti að halda áfram með dagskrána á stórasviðinu. Dansverkin tvö hefðu verið næg dagskrá fyrir stóra sviðið svo að áhorfendur hefðu örugglega tíma til að sjá stuttmyndina og líka að prufa eins og hatursjógað og öskurklefann. Það var líka upplifun út af fyrir sig að rölta um á milli sölubásanna og hlusta á mismunandi atriði sem boðið var upp á upphækkunum þarna frammi. Upplifun sem hefði mátt fá meira pláss. Eins og fram kemur í kynningarefni sýningarinnar þá er Fórn viðamesta sýning sem Íslenski dansflokkurinn hefur lagt í bæði hvað varðar pláss því sýningin leggur undir sig alla sali Borgarleikhússins og líka að þar er telft saman listformum eins og dansi, kvikmyndun, myndlist, leiklist og tónlist. Samspil listformanna gekk fallega upp enda ljóst að allir þeir sem að sýningunni standa eru verulega flottir listamenn á sínu sviði. Þau þrjú af verkum kvöldsins, Shrine, Union of the North og Dies Irae þar sem Erna og Valdi voru í aðalhlutverkum annað hvort sem höfundar og eða sýnendur sköpuðu rauðan þráð kvöldsins. Þessi verk tengdust á áhugaverðann hátt í gegnum búninga, hreyfingar og leikmuni og vísuðu þannig í hvert annað. No tomorrow var aftur á móti allt öðruvísi og skapaði algjört en skemmtilegt uppbrot í það flæði. Fórn var flott og eftirminnileg sýning þrátt fyrir vankanta í tímastjórnun og listrænum frágangi.
Norður og niður
Seinni frumsýning Íslenska dansflokksins var á listahátíðinni Norður og niður sem haldin var í Hörpunni af hljómsveitinni Sigurrós á milli jóla og nýárs 2017. Grunnurinn að hátíðinni voru þrír Sigurrósar tónleikar í Eldborginni en að auki mátti finna ótal tónlistar viðburði um allt hús, myndlist og dans.
Stemmningin í Hörpunni var lágstemmd en góð. Í öllum hornum byggingarinnar mátti finna tónlistarviðburði en einnig mátti finna myndlistarverk víðs vegar um húsið og í einu horninu hafði Íslenski dansflokkurinn hreiðrað um sig dagana 29. og 30. desember 2017 og bauð upp á tvö dansverk báða dagana. Á þessari annarri frumsýningu dansflokksins árið 2017 var annars vegar boðið upp á verk eftir Ernu Ómarsdóttur listrænan stjórnanda ÍD og Valdimar Jóhannsson tónlistarmann en hins vegar upp á verk eftir danshöfundinn Ásrúnu Magnúsdóttur og Alexander Roberts. Dansverkin fléttuðust vel inn í dagskrá listahátíðarinnar því í þeim báðum var dansinn saminn við tónlist sem boðið var upp á hátíðinni.
Erna samdi sitt verk Myrkrið faðmað við nýja tónlist Sigurrósar. Hún talar um að tónlistin hafi verið sterkur innblástur að danssköpuninni því upphaf vinnuferilsins hafi verið að dansararnir spunnu við tónlistin og léku sér þar með eldra hreyfiefni og rödd. Í lokagerð verksins mátti greinilega sjá þetta þétta samband á milli þessara tveggja listforma, dansararnir riðu öldu tónlistarinnar af mikilli næmni og mynduðu með henni eina heild. Verkið skiptist eiginlega í tvo þætti, hinn dökk og þann litríka. Í fyrri hlutanum er nóttin og myrkrið faðmað og beitt fangbrögðum í viðleitni til að losna undan fortíðinni en í þeim seinni birtast litir sem gefa vísbendingu um endurfæðingu, nýtt upphaf og í lokinn er áramóta stemming alsráðandi. Í dökka hlutanum byrjaði tónlistin sem og hreyfingarnar veikt en urðu smátt og smátt kröftugri, ofbeldisfyllri og örvæntingafyllri þegar á leið. Það var eins og að fylgjast með öldu leggja af stað að landi, litla og hljóða í fyrstu en eflast svo þegar nær dregur þar til hún nær hæðstu hæðum og hvolfist fram fyrir sig, örmagna en umbreytist í kjölfarið í stillan sjó sem skoppar í flæðarmálinu á leiðinni út á haf að nýju. Í seinni hlutanum dönsuðu raddir dansaranna ekki síður en líkamar þeirra. Torkennileg rophljóð, þungur andardráttur og óp bárust um salinn samhliða því að dansararnir hreyfðu líkama sína.
Það voru mörg kunnuleg stef í danssköpun Ernu bæði hvað varðar hreyfingar og notkun raddarinnar. Áhorfendur höfðu margir séð þetta allt áður nema í öðru samhengi og með öðrum blæ. Það má spyrja sig hversu lengi er hægt að vinna með sama þemað eða stefið í listsköpun og það má gera ráð fyrir að við því sé ekkert einhlýtt svar. Endurtekningin getur orðið klisjukennd og borið þess merki að lítil vinna liggi á bak við listsköpunina en hún getur líka borið með sér dýpt og hugmyndaauðgi þegar þekktur efniviður öðlast í sífellu nýtt líf. Undirrituð naut sýningarinnar “Myrkrið faðmað”, naut þess að vera hrifin með inn í þennan óræða heim tónlistar og hreyfinga þar sem skammdegismyrkrið varð áþreifanlegt en einnig endurfæðingin sem fylgir hækkandi sól og nýju ári. Frammistaða dansarar Íslenska dansflokksins var frábær. Þau sýndu gífurlegan líkamlegan styrk og færni því eins og í öðrum verkum Ernu Ómarsdóttur var verkið mjög líkamlegt og krafðist þess að dansararnir dönsuðu ekki aðeins hreyfingarnar heldur umbreittustu í hreyfinguna. Meðferð Valdimars Jóhannssonar sem sá um hljóðmynd verksins, á tónlist Sigurrósar var áhugaverð og flott. Tónlistin smaug áreynslulaust inn í vitundina samhliða sjónrænum og líkamlegum áhrifum verksins. Umgjörðin verksins var einföld, það er svart dansgólf umlykið svörtum veggjum og upphækkuðum áhorfendapöllum. Nálægðin við áhorfendur var samt meiri en venjulega vegna þess að til viðbótar við að sitja í hinum eiginlegu áhorfendabekkjum þá sátu þó nokkrir á púðum fyrir framan áhorfendabekkina og einnig út með veggjunum til beggja hliða. Lýsingin í verkinu var átakalítil en ágæt. Búningarnir voru áhugaverðir en í fyrri hlutanum voru dansararnir í svörtum þröngum heilgöllum með svartar brúður í fullri stærð fastar við sig. Brúðurnar léku stórt hlutverk í öllu verkinu og gáfu því sem fram fór áhugaverðan blæ. Í seinni hlutanum voru dansararnir komnir í litrika boli og stuttbuxur eða leggings. Þessi umbreyting á búningum skapaði skemmtilegar andstæður og undirstrikaði endurfæðinguna sem átti sér staða í verkinu. Litaval og snið búninganna í þessum hluta var ekki eins og nákvæmt og svörtu búningarnir og truflaði aðeins flæðið í því sem gerðist á sviðinu. Í stuttu máli sagt var “Myrkrið faðmað” góð upplifun þó að það væri ekki hnökralaust. Búningarnir trufluðu aðeins, notkun á þekktum stefum úr öðrum verkum vakti upp spurningar og framvinda verksins var ekki kristal tær þó að verkið rynni nokkuð vel.
Í dansverkinu The great gathering nota Ásrúnu og Alexander mismunandi tónlist eftir tónlistarmenn sem fram koma á hátíðininni. Með því reyna þau að skapa tilfinningu fyrir því að Sigurrós sé ekki ein sérstök hljómsveit heldur fjölskylda eða samsett mynd af mismunandi hljómsveitum. Verkið hafði þennan sérstaka og skemmtilega blæ sem verk einkennir verk Ásrúnar en hún hefur fyrst og fremst unnið með ungufólki i listsköpun sinni eins og í Girrrrrls sem sýnt var í byrjun árs 2017 og Hlusturnarpartý sem sýnt var í lok árs 2017. Í þessum verkum Ásrúnar vinnur hún eingöngu með ungt fólk en núna í The great gathering hefur Alexander komið inn í dansköpunina með henni og dansarar dansflokksins bæst við í danshópinn á sviðinu. Verkið er fullt af gleði og samstöðu. Hópurinn nær skemmtilega saman þannig að allir fá að njóta sín sama hvar þau eru stödd hvað dansfærni varðar. Þetta var svona virkilegt feel good verk eins og flest það sem Ásrún kemur nálægt. Svona lítið og kósý en samt svo stórkostlegt.
Eins og áður segir þá hefur Íslenski dansflokkurinn verið á ferð og flugi um heiminn með hátíðina Fórn síðan það var frumsýnt. The great gathering fór síðan aftur á kreik í tengslum við Listahátíð Reykjavíkur 2018 en var núna sýnt á Eiðistorgi. Verkið Myrkrið faðmað hefur ekki sést meira á sviði en Erna hefur haldið áfram að kanna þemað, myrkur. Í febrúar síðast liðnum var verkið Örævi sýnt á Marshall tönkunum. Verkið Brot úr myrkri verður frumsýnt á Listahátíð Reykjavíkur 15. júní 2018 á björtu vorkvöldi í Hafnarhúsinu og í á dans- og leiklistarhátíðinni Everybody Spectacular í haust verður svo fjórða og síðasta verkið tengt myrkrinu frumsýnt.
[fblike]
Deila