Ritið í rafrænni útgáfu og opnum aðgangi

Ritið 1/2018 er komið út og er Ritið nú í fyrsta sinn í rafrænni útgáfu og opnum aðgangi. Frá upphafi hefur stefnan með útgáfu Ritsins verið að gefa fólki kost á að lesa öflugt og vandað fræðirit. Með rafrænni útgáfu mætir Ritið að auki stefnu Háskóla Íslands um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum.

Þema þessa heftis er lög og bókmenntir en heimar bókmennta og skáldskapar geta skarast margvíslega við lög og rétt. Í heftinu eru sex þemagreinar, þar af fjórar frumsamdar og tvær þýðingar, en utan þema eru tvær greinar.

Gunnar Karlsson sagnfræðingur fjallar um lög, siðareglur og bókmenntatexta frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar sem snerta annars vegar á eignarrétti höfunda á eigin textum og hins vegar þeim hömlum sem tjáningu miðaldaskálda voru settar. Lára Magnúsardóttir sagnfræðingur túlkar afmarkaða kafla í Árna sögu biskups í ljósi þeirra afdrifaríku pólitísku breytinga sem urðu hér á landi á síðari hluta þrettándu aldar með norsku konungsvaldi og vaxandi andlegu valdi miðaldakirkjunnar.

Einar Kári Jóhannsson bókmenntafræðingur greinir skáldsögurnar Kötu eftir Steinar Braga og Gott fólk eftir Val Grettisson í ljósi hugmynda fræðimanna um söguleg tengsl hefnda og réttarfars. Guðrún Baldvinsdóttir og Sólveig Ásta Sigurðardóttir bókmenntafræðingar skrifa aftur á móti um það hvernig opinberar umræður um skáldsöguna Konan við 1000° eftir Hallgrím Helgason og sjálfsævisöguna Útlagann eftir Jón Gnarr tengdust lögum um tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs, sem og almennari viðhorfum fólks til þessara efna.

Þá er birt íslensk þýðing á nýlegri grein eftir bandaríska lögfræðinginn og sagnfræðinginn William Miller þar sem greint er hvernig lykilpersónur úr Egils sögu, Njáls sögu og Sturlu sögu beita ógnandi framkomu og hótunum í samskiptum sín á milli. Hin þýdda greinin er eftir tvo danska fræðimenn, bókmenntafræðinginn Karen-Margrethe Simonsen og lögfræðinginn Ditlev Tamm. Þau fjalla um söguna Præsten i Vejlbye (Vaðlaklerk) eftir danska nítjándu aldar skáldið Steen Steensen Blicher en hún byggði á þekktu sakamáli frá fyrri hluta sautjándu aldar þar sem danskur prestur var ákærður og dæmdur fyrir að hafa myrt vinnumann sinn.

Auk þemagreinanna birtast í þessu hefti grein Hjalta Hugasonar um siðaskiptarannsóknir og grein Guðrúnar Steinþórsdóttur um upplifanir fólks af lestri texta eftir Vigdísi Grímsdóttur.

Þemaritstjórar heftisins eru þau Jón Karl Helgason og Lára Magnúsardóttir en aðalritstjóri þess er Rannveig Sverrisdóttir. Kápumyndin er eftir myndlistarkonuna Katrínu Helenu Jónsdóttur og sýnir réttlætisgyðjuna leggja bókmenntir á vogarskálarnar.

 

[fblike]

Deila