Fleiri magnarar en meðlimir

„Tónleikarnir eru í tilefni sýningar á myndinni The Doom Doc (Connor Matheson, 2017) sem við og hljómsveitin Godchilla stöndum að,“ segir Hörður Jónsson gítarleikari um tónleika sem hljómsveitin Morpholith heldur 20. apríl á Gauknum ásamt Godchilla og Kurokuma. Fyrsta smáskífa hljómsveitarinnar, Void Emissions, kemur einnig út þann dag.

Risastór hljómur

Þungarokkhljómsveitin Morpholith var stofnuð í lok árs 2015 og hefur síðan troðið upp á ýmsum tónleikum í Reykjavík og á tónlistarhátíðinni Norðanpaunk á Laugarbakka. Það eru hins vegar ekki margir staðir í Reykjavík nógu stórir fyrir hljómsveitina. „Það hefur verið erfitt að koma græjunum sem við notum fyrir á minni sviðum þar sem við höfum fleiri magnara en meðlimi. Það eru allavega tveir á mann fyrir þá sem nota magnara og effektabretti sem eru hálfur fermetri að flatarmáli á mann líka,“ segir Hörður.

Ástæðan fyrir öllum þessum græjum er hljóðið – það þarf að vera kraftmikið. „Hljóðið sem þú heyrir á plötunum er aldrei það sama og þú heyrir á tónleikum. Það er ekki hægt að taka þannig upp að það hljómi eins og þú værir með magnara fyrir framan þig. Þú finnur aldrei fyrir hljóðinu á sama máta ef þú ert með það í heyrnartólum eða í hátalara,“ útskýrir Hörður. Morpholith er alltaf með að minnsta kosti sex magnara í gangi, stundum sjö. „Við æfum alltaf með alla þessara magnara í gangi á fullum styrk. Við völdum kraftmikla og mjög háværa magnara ásamt góðum fuzz-pedulum[1], upp á það að vera alltaf með kraftmikinn hljóm.“

Tónleikar Morpholith, Godchilla og Kurokumo verða haldnir 20. apríl.

Popptónlist „extreme“- tónlistarinnar

Morpholith spilar svokallað Stoner-Doom, en hvað er það eiginlega? Hörður segir að Doom sé eins og popptónlist „extreme“-tónlistarinnar. „Tónlistin sem við spilum er allt öðruvísi en sú sem flestar dauða- og svartmálmshljómsveitir fást við. Þetta er aðallega 70‘s rokk með stóru gítarhljóði og góðum söngvurum og svo kemur viðhorfið úr pönkinu. Black Sabbath eiga auðvitað heiðurinn af því að hafa byrjað á þessu en eftir gullaldarskeið þeirra tóku önnur bönd við. Í byrjun tíunda áratugarins höfðu hljómsveitir eins og Saint Vitus, Kyuss og Sleep komið þessari tónlistarstefnu betur á kortið.“ Doom-senan á Íslandi hefur stækkað og minnkað á víxl. Plastic Gods voru lengi kóngarnir í Doom-inu en spila ekki lengur. Nú starfa hér á landi hljómsveitir eins og Slor, Witchking, Qualia og Godchilla en undanfarin ár hefur þeim farið ört fjölgandi.

Doom og meira doom

Kvikmyndin The Doom Doc, sem verður sýnd 19. apríl í Bíó Paradís, er heimildarmynd um Doom-tónlist en áhersla er lögð á senuna í Sheffield á Englandi, þar sem myndin var gerð. „Í henni er talað við aðdáendur og meðlimi í þekktum hljómsveitum eins og Bill Wards, trommuleikarann í Black Sabbath,“ útskýrir Hörður. Morpholith og Godchilla standa fyrir þessari einstöku sýningu. Tónleikar þessara hljómsveita ásamt Kurokumo, sem er Doom-hljómsveit frá Sheffield, verða haldnir á Gauknum daginn eftir, 20. apríl.

Á fyrstu smáskífu Morpholith, sem heitir Void Emissions og kemur einnig út 20. apríl, verða þrjú lög sem eru samtals u.þ.b. hálftími í spilun. Eiginlegir útgáfutónleikar vegna plötunnar verða að sögn Harðar líklega haldnir í maí en nú þegar má finna eitt af lögunum, „Voidwalker“, á Bandcamp. Hljómsveitin er augljóslega á uppleið og á eftir hrista upp í Doom-senunni á Íslandi. „Vinnsla er hafin við næstu plötu,“ tilkynnir Hörður að lokum.

[1]Effektar sem breyta gítarhljóðinu

Aðalmynd: Hljómsveitin Morpholith. Mynd: Verði Ljós.

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Phil Uwe Widiger

Phil Uwe Widiger

Phil Uwe Widiger er meistaranemi í blaða- og fréttamennsku.

[fblike]

Deila