„Mann langar oft til að garga“

„Við flytjum bæði pönkópusa og ljóðapönk, blóðhráa tónlist með and-fasískum textum,“ segir Þórunn Gréta Sigurðardóttir um pönksveit sína Austurvígstöðvarnar sem nú safnar fyrir plötu á Karolina Fund og stefnir á útgáfu í júlí. Á söfnunarsíðunni segir að á meðan félagslegt óréttlæti vaði uppi hafi sveitin „skuldbundið sig til að öskra sannleikann yfir gauðrifna gítara, drynjandi bassatóna og dúndrandi trommuslátt“. Einkunnarorð sveitarinnar eru fengin beint úr Biblíunni: „Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ Heitið Austurvígstöðvarnar ber eitthvað uppreisnargjarnt og jafnvel kommúnískt í sér, en merki sveitarinnar er þó ekki hamar og sigð heldur gítar og sigð.

Skapandi fæðingarorlof

Aðspurð segir Þórunn Gréta að sambýlismaður hennar, Davíð Þór Jónsson, hafi fengið þá hugmynd sumarið 2016 að stofna pönkhljómsveit þegar þau bjuggu á Eskifirði en þar var Davíð prestur. „Það kom meðal annars til af því að hann fann svo mörg yrkisefni um pólitíska spillingu og fleira skemmtilegt í fjölmiðlum þegar við vorum heima í fæðingarorlofi,“ segir hún. „Til dæmis voru Panamaskjölin afhjúpuð akkúrat á þessum tíma. Hann orti texta og samdi lög á færibandi í nokkrar vikur svo það var orðið aðkallandi að prófa þetta. Ég þekkti nokkra hljóðfæraleikara á svæðinu sem hann hringdi í og allir voru til í þetta. Þannig að í raun fór Davíð af stað með fólki sem hann þekkti ekkert fyrir. Trommuleikarinn veiddi síðan gítarleikara inn í bandið, ég var fengin á hljómborð og loks bættist Díana söngkona við. Við erum frekar fjölskipuð pönksveit.“

Þegar sveitin var stofnuð var telpan Signý nýkomin í heiminn. Nú er aftur komið að fæðingarorlofi því þau Þórunn og Davíð eignuðust nýlega dreng. Ekki verður annað sagt en þessi orlof séu skapandi. Sköpunarkrafturinn kemur líka fram í því að þau kalla börn sín ekki prinsessu og prins, eins og annars er orðið algengt, heldur alþýðustúlku og alþýðupilt — enda bæði rammíslensk segja þau.

Fleiri meðlimir hljómsveitarinnar standa í barnastússi; trommarinn eignaðist barn í október síðastliðnum og gítarleikarinn er í þann veginn að bæta einu barni við. Þetta setur sérstakt mark á söfnunina á Karolina Fund: unnendur sveitarinnar geta styrkt útgáfuna með því að kaupa pakka sem inniheldur barnasamfellu með merki hennar.

Fimm háskólagráður og eitt rútupróf

Þórunn er sem fyrr segir hljómborðsleikari sveitarinnar en hún er einnig menntað tónskáld, hefur M.Mus.-gráðu frá Hochschule für Musik und Theater í Hamborg og er formaður Tónskáldafélags Íslands. Söngvari sveitarinnar er guðfræðingurinn og klerkurinn Davíð Þór sem nú þjónar í Laugarneskirkju í Reykjavík. Gítarleikarinn er tannlæknirinn Jón Hafliði Sigurjónsson; trommarinn er félagsfræðingurinn og verkefnastjórinn Jón Knútur Ásmundsson; bassaleikarinn er þroskaþjálfinn og félagsmálastjórinn Helga Elísabet Beck Guðlaugsdóttir; söngkonan er ferðamálastjórinn og rútubílstjórinn Díana Mjöll Sveinsdóttir. Meðalaldur meðlima sveitarinnar er ríflega 40 ár og þau státa af fimm háskólagráðum og einu rútuprófi. Tónlistarstefnan sem spratt upp úr svörtu malbiki stórborga Englands meðal snauðra ungmenna er orðin hámenntuð klassík í meðförum miðaldra Íslendinga.

„Ótrúlega hressandi“

„Já! Það er bara alltaf ótrúlega gaman að spila tónlist með skemmtilegu fólki,“ segir Þórunn Gréta þegar ég spyr hvort hámenntað tónskáld geti fengið eitthvað út úr þessum hávaða, þessari blóðhráu tónlist sem heldur sig við þrjá hljóma, hámark (já, já, þetta eru nú sennilega fordómar). „Ég er svo gott sem alæta á tónlist,“ heldur Þórunn áfram og bætir við: „Þótt ég sé ekki af pönk-kynslóðinni hef ég alltaf verið mikið fyrir hráa rokktónlist. Uppgangur hipphoppsins var reyndar alltumlykjandi þegar ég var unglingur en það talaði aldrei til mín svo ég leitaði bara aftur í tímann og á jaðarinn eftir einhverju skemmtilegu til að hlusta á. Þannig að mér finnst þetta ótrúlega hressandi og skemmtilegt, fyrir svo utan að það er stórhættulegt fyrir alla að taka sig of alvarlega.“

Ljóðapönksveit

Textar sveitarinnar eru rammpólitískir, grimmir og hráir. Titlarnir segja sitt um innihaldið: „Femínískt helvíti“, „Ósmekkleg sýning á auð“, „Sá feiti“. Pönkið hefur jú alltaf verið hápólitískt.

„Það eru svo furðulegir hlutir sem viðgangast umbúðalausir á almanna vitorði í íslensku samfélagi að mann langar oft til að garga,“ segir Þórunn Gréta um texta sveitarinnar og tilurð þeirra. „Það er tilvalið að garga í hljóðnema og óþarfi að vera feiminn við að nefna nöfn, því þau eru hvort sem er öll á yfirborðinu. Við erum ekki að segja neitt sem hefur ekki verið í fréttum, við höfum líka kallað þetta blogg-pönk. En við segjum það í bundnu máli, bragfræðilega réttu. Þess vegna erum við ljóðapönksveit.“

Til að gefa lesendum smjörþef af hinum bragfræðilega réttu textum er brot úr einu laga hljómsveitarinnar birt hér að neðan. Það má hlusta á þetta lag og fleiri á síðu Austurvígstöðvanna á Karolina Fund. Svo má skella sér á Eistnaflug í sumar því þar verður hljómsveitin í góðum félagsskap fleiri pönk- og þungarokksveita.

Sá feiti

Þeir moka peningum í milljónera
á meðan þeir skera niður og skera
hjá veiku fólki og fátækum lýð
og fylla vasa sín’ í erg og gríð.
Því sýnt þeir hafa siðblinduna bera,
ég skal segj’ykkur hvar þessi feiti á að vera.

Þessi umfjöllun var hluti af verkefnavinnu í námskeiðinu „Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku“ á vorönn 2018.

Um höfundinn
Auður Styrkársdóttir

Auður Styrkársdóttir

Auður Styrkársdóttir er nemi í ritlist við Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila