Fræðimenn & fræðibækur

Starf fræðimannsins er oft unnið í einrúmi þar sem áhugaverðar fræðibækur eru lesnar, kenndar og rannsakaðar. Hvað eru fræðimenn að lesa í sumar og hvað finnst þeim áhugavert við bókina sem þeir eru að lesa? Hvers vegna er bókin gagnleg, merkileg?

Ingibjörg Eyþórsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum:

Á borðinu hjá mér er stafli fræðibóka, enda er það sennilega hlutskipti allra doktorsnema að þurfa að lesa ógrynni fræðibóka og greina. Bækurnar sem hafa hlaðist upp á mínu borði tengjast sagnadönsum, ballöðum, með einum eða öðrum hætti; ýmist beinlínis þar sem orðið er að finna í titlinum, eða óbeint. Þetta eru bækur um munnmæli og munnlega menningu, um dægurmenningu miðalda, þetta eru rannsóknir í kynjafræðum sem snúa m.a. að því að greina kynhlutverk í íslenskum miðaldabókmenntum og sagnfræði.

Ein þessara bóka er Mandom och mödom: Sexualitet, homosocialitet och aristokratisk identitet på det senmedeltida Island eftir sænska sagnfræðinginn Henric Bagerius. Bókin kom út árið 2009 hjá Gautaborgarháskóla. Þetta er doktorsrannsókn Bageriusar.

Hvað er Bagerius að fjalla um í bók sinni? Hvað finnst þér áhugaverðast við hana?

Bagerius skrifar um stöðu kynjanna í íslensku samfélagi á miðöldum og skoðar breytingar sem urðu á stöðu kynjanna á seinni hluta 13. aldar og 14. öld. Heimildirnar sem hann nýtir sér eru íslenskar sögur af ýmsu tagi, þýddar og frumsamdar riddarasögur, ýmsar samtíðarsögur og Fornaldarsögur Norðurlanda. Það sem vakir fyrir honum er að sýna fram á hvernig staða kynjanna breyttist á íslenskum miðöldum, út frá stjórnmálalegu jafnt sem félagslegu tilliti. Breytingarnar urðu í kjölfarið á Gamla sáttmála, þegar íslenskt samfélag varð skipulagðara og stéttskipting sem svo sannarlega var til staðar áður, festist enn í sessi. Íslenskir höfðingjar tóku að líkjast evrópskum kollegum sínum, tóku á sig riddaralegra yfirbragð og konur af efri stigum urðu enn frekar skiptimynt í valdatafli höfðingjanna. Bagerius leggur áherslu á að ákveðin kynhegðun og skilningur á kynhlutverkum hafi verið liður í því hvernig yfirstéttin skilgreindi sjálfa sig. Kynhegðun (e. sexuality) varð því aðferð til að aðgreina efri stéttir frá öðrum, jafnvel frá tröllum og öðrum óvættum. Konur af efri stigum voru líka aðgreindar frá öðrum konum með því hvernig komið var fram við þær. Þar má benda á að ekki var litið á kynferðislegt ofbeldi sem ofbeldi væri því beitt gegn almúgakonum – og það var að sama skapi notað sem kúgunar- og valdatæki til að brjóta niður konur sem ekki kærðu sig um að fylgja reglunum. Hin óspjallaða mey er afsprengi þessa kerfis sem varð til á miðöldum – meydómur kvenna var ekki jafn mikilvægur í kerfi sem var lausara í sniðum, en með sterkari valdastétt og mikilvægi þess að börn væru rétt feðruð, varð þetta að mikilvægu atriði – skiptimyntin varð að vera heil.

Bagerius skrifar einnig um svokallaða homosocial, eða samkynja félagshegðun karla, þar sem útilokandi vinátta milli þeirra getur hafa haft áhrif á það hvernig karlar sáu og komu fram við konur. Fóstbræðralag eða náin vinátta karla er mjög algeng í fornum sögum og hér gerir Bagerius tilraun til að greina hvaða áhrif það getur hafa haft á viðhorf karlanna til kvenna, sem verður til innan útilokandi hóps karlanna.

Þetta er einstaklega áhugaverð rannsókn og nálgunin á þær miklu félagslegu og stjórnmálalegu breytingar sem urðu í kjölfar þeirra átaka sem stóðu allan fyrri hluta 13. aldar hér á landi er einstaklega skemmtileg. Hér er að sjálfsögðu átt við þann tíma sem gengið hefur undir nafninu Sturlungaöld. Þótt verkefnið mitt sé ekki beintengt rannsókn Bageriusar, er ljóst að hún mun nýtast mér við að skilja þá texta sem ég er að fjalla um – sem eru sagnadansar, sem eru oft á tíðum ættaðir úr heimi riddarabókmennta þar sem meyjar og frúr sitja í hægu sæti og bíða eftir riddurum, sem gætu allt eins átt eftir að taka þær með valdi.

Ég þakka Ingibjörgu kærlega fyrir að segja mér frá Mandom och mödom: Sexualitet, homosocialitet och aristokratisk identitet på det senmedeltida Island eftir sænska sagnfræðinginn Henric Bagerius. Ljóst er að nemendur munu njóta góðs af yfirgripsmikilli þekkingu Ingibjargar í námskeiðinu Íslensk bókmenntasaga til 1900 sem kennt verður á haustmánuðum.

Um höfundinn

Eyrún Lóa Eiríksdóttir

Meistaranemi í almennri bókmenntafræði og hagnýtri ritstjórn og útgáfu.

[fblike]

Deila