Hugræn fræði í miklum blóma

– viðtal við Bergljótu Soffíu Kristjánsdóttur, prófessor í íslenskum bókmenntum

Í hugrænum fræðum eða vitsmunafræðum (e. cognitive science) er maðurinn sem lífheild í forgrunni, þ.e. líkami hans, hugsun, tungumál, skynjun og tilfinningar – en þá jafnframt áhrif samfélags og menningar á mannlega vitsmuni. Þar sem fræðasviðið er vítt og breitt rúmast margar fræðigreinar innan þess sem aftur býður upp á möguleikann á þverfaglegum rannsóknum. Að þeim rannsóknum koma t.a.m. fræðimenn úr bókmenntafræði, málfræði, sálfræði, mannfræði, stjórnmálafræði, taugafræði og gervigreindarfræði. Hugræn bókmenntafræði er tiltölulega ung grein sem á sér meðal annars rætur í svonefndum hugrænum málvísindum (e. Cognitive Linguistics) sem greindu sig frá málkunnáttufræði strax á áttunda áratug síðustu aldar. Hérlendis hófst kennsla í hugrænni bókmenntafræði og hugrænum málvísindum á síðasta áratug og árið 2009 var félagið Hugsýn stofnað en það er félag áhugamanna um hugræn fræði. Það heldur fundi þar sem fræðimenn og listamenn sem hafa áhuga á efninu koma og kynna það sem þeir eru að fást við hverju sinni. Árið 2011 markaði tímamót en þá var Stofa um hugræna bókmenntafræði og hugræn málvísindi sett á laggirnar. Í stjórn hennar sitja bókmenntafræðingar, málvísindamenn og sálfræðingur. Meginmarkmið Stofu um hugræna bókmenntafræði og hugræn málvísindi eru: að efla rannsóknir í hugrænni bókmenntafræði og hugrænum málvísindum við Háskóla Íslands; að standa fyrir ráðstefnum og málþingum um hugræna bókmenntafræði og hugræn málvísindi; að bjóða til landsins erlendum fræðimönnum sem kynnt geta áhugaverð svið hugrænna fræða.

Hugræna stofan svokallaða markaði tímamót og út frá stofnun hennar var haldin málstofa í hugrænum fræðum á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands árið 2013. Í kjölfar málstofunnar urðu til þverfagleg rannsóknarverkefni, auk þess sem samstarf var hafið við þekkta fræðimenn í hugrænum fræðum.

Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum er meðal brautryðjenda í hugrænni bókmenntafræði hér á landi en hún hefur veitt hugrænum fræðum brautargengi með því að tengja saman mismunandi fræðimenn í gegnum Hugrænu stofuna sem hún er í forsæti fyrir.

Hugræna stofan

Ég bað Bergljótu að segja okkur nánar frá Hugrænu stofunni, hvernig hún kom til og þverfaglegum rannsóknum sem teygja anga sína í allar mögulegar áttir.

„Fyrir fáeinum árum þá stofnuðum við stofu um hugræn fræði. Ég var búin að vera að byggja upp kennslu í hugrænum fræðum innan íslenskugreinarinnar og naut þá tilstyrks málvísindamannanna Jóhannesar Gísla Jónssonar og Þórhalls Eyþórssonar. Við fengum Sif Ríkharðsdóttur í almennu bókmenntafræðinni til liðs við okkur; að auki málfræðing frá Belgíu, Dirk Geeraerts, og sálfræðing frá Kanada, Keith Oatley. Keith er reyndar enskur en býr í Kanada og starfaði þar síðustu áratugi. Hann er orðinn prófessor emirítus. Þessir tveir hafa báðir komið hingað, haldið fyrirlestra og hitt jafnt kollega sem nemendur. Þeir eru báðir mjög þekktir á sínu sviði, og einn af nemendum mínum, Sigrún Margrét Guðmundsdóttir, þýddi ásamt Jóhanni Axel Andersen grein eftir Keith Oatley og birti í Ritinu. Oatley hefur skrifað mikið um tilfinningar og geðshræringar en hann hefur líka samið skáldsögur.“

Ég spyr Bergljótu hvort þetta hafi verið árið 2012 en hugræna bókmenntafræði hafði lítið borið á góma hérlendis fram að þeim tíma.

„Það var árið 2012 sem við byrjuðum á þessu. Þá kom Oatley um haustið og ég var með námskeið, nánar tiltekið málstofu um hugræn fræði sem var kennd við hann. Hann sjarmeraði nemendur upp úr skónum og í framhaldinu voru hugræn fræði kynnt í málstofunni: bókmenntir, gervigreind, málvísindi, málaralist, tónlist, loftslagsmál – og reyndar sérstaklega fjallað líka um gagnrýni á hugræna bókmenntafræði. Seinna fórum við Þórhallur, Jóhannes Gísli og Hulda Þórisdóttur í rannsóknarverkefni um samlíðan og erum búin að vera að vinna í því í rúm þrjú ár með nemendum okkar. Það er búið að gera fjölmargar rannsóknir, til að mynda um samhengi milli pólitískra skoðana og samlíðunar, hvernig lesendur bregðast tilfinningalega við bókmenntatextum, hvort kynjamunur ráði einhverju um viðbrögð þeirra; hvort tiltekin einkenni í máli hafi áhrif á viðbrögðin o.s.frv. Við erum búin að tala um þessi efni með nemendum okkar á ráðstefnum, bæði heima og erlendis og birta margar greinar. En við erum enn að, lokahnykkurinn kemur á næstu mánuðum því að við ætlum skila af okkur um áramót.”

Bergljót með Guðrúnu Steinþórsdóttur doktorsnema er þær hlutu styrk úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur til rannsókna á máli og bókmenntum.

Málþing um sársaukafræði og námskeið um hugræn fræði

Í haust er fyrirhugað málþing eða samdrykkja um sársauka sem Bergljót er að skipuleggja með Hannesi Högna Vilhjálmssyni á gervigreindarsetri Háskólans í Reykjavík og Sigríði Zoëga sem kennir í hjúkrunarfræðinni og leiðir verkjateymi Landspítalans. Ætlunin er sem sé að hverfa frá samlíðan yfir í sársauka. Á málþinginu mun eiga sér stað áhugavert þverfaglegt samtal milli fræða- og listafólks á ólíkum sviðum en tilgangur samdrykkjunnar er að tengja saman fólk innan hugrænna fræða og opna um leið á umræðuna um sársauka í samfélaginu.

„Við erum að færa okkur núna úr samlíðan yfir í sársauka. Í haust verðum við með alþjóðlega samdrykkju um sársauka þar sem bókmenntafræðingar, sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar, heimspekingar, læknar og gervigreindarfræðingar ræða við fólk sem hefur lagt sig eftir hinsegin fræðum, loftslagsmálum og mannréttindamálum (kjörum flóttamanna og innflytjenda), o.s.frv. Við ætlum að reyna að stefna saman á að giska tuttugu manna hópi úr mjög ólíkum fræðigreinum, bæði til þess að byggja upp tengsl milli fólks sem er að starfa á ólíkum sviðum og líka til þess að opna umræðuna í samfélaginu um sársauka; sársauka sem sjálfsagðan fylgifisk tilvistarinnar og fyrirbæri sem hrín sérstaklega á ákveðnum minnihlutahópum, eins og hommum og lesbíum; innflytjendum og flóttamönnum. Við verðum með fimm erlenda lykilfyrirlesara og Íslendingarnir verða a.m.k einn flóttamaður í þeim hópi. Þetta ætti því að verða mjög fjölbreyttur hópur. Reykjavík – Bókmenntaborg hefur lofað að taka þátt í þessu með okkur og við vonumst til að njóta stuðnings bæði ríkis og borgar. Skipuleggjendurnir sjálfir koma úr mjög ólíkum áttum en við höfum áður unnið vel saman: Hannes Högni er t.d. í stjórn Hugsýnar og Sigríður hefur haldið fyrirlestur í námskeiði um bókmenntir og læknisfræði.”

En hvernig mun þetta koma nemendum Bergljótar til góða? „Þetta verður upphafið á námskeiðinu, þ.e. málþingið verður fyrsti hluti þess. Þannig að við sameinum kennsluna og opinbert alþjóðlegt málþing. Kennarar eru úr mörgum áttum; úr íslensku- og menningardeild, bæði bókmenntafræðingar og málfræðingar; Listaháskólanum; hjúkrunarfræði; mála-og menningardeild, Háskólanum í Reykjavík o.s.frv.“

Ég þakka Bergljótu kærlega fyrir að veita mér viðtal þrátt fyrir mikið annríki. Hugræn fræði eru eins og sjá má í blóma hér á landi og hugræna stofan leggur sitt til þess. Á vegum hennar vinna menn saman að þverfaglegum rannsóknum en það samstarf fæðir aftur af sér nýjar rannsóknir og niðurstöður sem munu gagnast mörgum.

Um höfundinn

Eyrún Lóa Eiríksdóttir

Meistaranemi í almennri bókmenntafræði og hagnýtri ritstjórn og útgáfu.

[fblike]

Deila