Safna smásögum úr öllum heimsálfum

Menningarpólitískar áherslur samtímans elta ritstjóra safnrita uppi með góðu eða illu, segir Rúnar Helgi Vignisson, einn af ritstjórum nýs safnrits um norður-amerískar smásögur. Enda geti vald ritstjóra verið mikið og val þeirra kunni að hafa áhrif á bókmenntalega skynjun heillar kynslóðar.

Hugras_smasogur_coverNýja safnritið  er fyrsta bindið í ritröð sem kallast Smásögur heimsins og verður skipt upp eftir heimsálfum. Í þessu riti eru 13 smásögur, skrifaðar á tæplega 100 ára tímabili, en elsta sagan er frá árinu 1919 og sú yngsta frá 2006. Meðal höfunda sem eiga sögur í bókinni má nefna Alice Munro, Joyce Carol Oates, Sherman Alexie og Raymond Carver.

Rúnar Helgi ritstýrir bókinni ásamt Kristínu Guðrúnu Jónsdóttur og Jóni Karli Helgasyni en öll eru þau kennarar á Hugvísindasviði HÍ. „Þetta hefur verið 20 ára ferli. Hugmyndin kviknaði þegar ég var fenginn til að kenna námskeið um smásagnafræði við Háskóla Íslands á tíunda áratugnum. Þá kenndi ég sögur hvaðanæva úr heiminum og fékk smátt og smátt tilfinningu fyrir sögu og þróun formsins. Nemendur hrifust mjög af þessu efni og þá áttaði ég mig á því að margar af helstu perlum smásagnabókmenntanna höfðu aldrei verið þýddar á íslensku.

Þýðendur: Ágúst Borgþór Sverrisson, Árni Óskarsson, Ástráður Eysteinsson, Guðrún Inga Ragnarsdóttir, Jón Karl Helgason, Rúnar Helgi Vignisson og Silja Aðalsteinsdóttir.
Höfundar sagna: Sherwood Anderson, Ernest Hemingway, William Faulkner, Ralph Ellison, Philip Roth, Flannery O’Connor, Raymond Carver, Susan Sontag, Amy Tan, Joyce Carol Oates, Sherman Alexie, Jhumpa Lahiri, Alice Munro

Upp úr því fór ég markvisst að heyja mér sögur í slíkt rit, kenndi námskeið þar sem nemendur leituðu með mér og þýddu sögur sem þóttu koma til greina, réð líka sumarstarfsmenn sem sátu við og lásu. Fjölmargir álitsgjafar hafa komið við sögu og ég hef farið á ráðstefnur í fjarlægum löndum beinlínis til þess að leita að sögum. En það var þó ekki fyrr en Kristín Guðrún og Jón Karl komu til liðs við mig fyrir tveimur árum eða svo sem verkefnið tók lokastefnu. Þau komu af miklum krafti inn í starfið og vörpuðu fljótlega fram þeirri hugmynd að skipta safninu í bindi til þess að verkefnið yrði viðráðanlegra fyrir okkur og lesendavænna fyrir almenning. Við sömdum svo við Bjart um að bindin yrðu fimm og samtals yfir 1.100 síður.“

Rúnar Helgi segir að safnrit af þessu tagi séu ekki ýkja algeng hér á landi og þörfin þeim mun meiri. „Auðvitað eru safnrit misgóð og misáhugaverð en sumar af mínum eftirlætisbókum hafa verið safnrit. Í gegnum þau hef ég uppgötvað marga af þeim höfundum sem hafa skipt mig hvað mestu máli. Þeir hafa fylgt mér áratugum saman, suma hef ég þýtt eitthvað eftir, aðra kennt og allir hafa þeir sjálfsagt haft áhrif á mig sem höfund.“

Að mati Rúnars Helga er eitt meginhlutverk slíkra safnrita að auðvelda fólki aðgengi að því besta sem skrifað er í heiminum. „Gefa fólki kost á að smakka og ef því hugnast bragðið getur það fengið sér meira. Þetta er samt ekki saklaust ferli, því ef safnritið nær útbreiðslu getur það falið í sér langvarandi innlimun tiltekinna höfunda í hefðarveldið. Maður sér að sumir höfundar lenda á safnritahringekjunni, eins og ritstjórar velji helst það sem aðrir ritstjórar hafa valið, og á meðan komast fáir nýir höfundar að. Stundum gerist það líka að ritstjórar safnrita eru svo á skjön við menningarpólitískar áherslur að ritum þeirra er hafnað með látum.

En það er vitað mál að þýðingar á bókmenntaverkum geta haft umtalsverð áhrif á bókmenntasköpun í landinu þó að enn sem komið er hafi ekki verið gerðar miklar rannsóknir á því.
En það er vitað mál að þýðingar á bókmenntaverkum geta haft umtalsverð áhrif á bókmenntasköpun í landinu þó að enn sem komið er hafi ekki verið gerðar miklar rannsóknir á því. Við vorum mjög meðvituð um það að í litlu landi eins og Íslandi, þar sem safnrit með heimsbókmenntum eru frekar sjaldgæf, getur val ritstjóranna haft áhrif á bókmenntalega skynjun heillar kynslóðar. Safn sagna úr öllum heimshornum kallast vitanlega á við hið fræga heimsbókmenntahugtak Goethes. Það hugtak er á engan hátt einfalt eða saklaust því að það felur í sér gildismat þess sem úrskurðar hvað telst gjaldgengt sem heimsbókmenntir. Reyndar var það lengi svo, allt fram yfir miðja síðustu öld, að ritstjórar safnrita á Vesturlöndum skilgreindu heimsbókmenntir fyrst og fremst sem bókmenntir frá Evrópu og síðar Norður-Ameríku.
Á næsta þróunarstigi fóru ritstjórar að taka með verk úr öðrum álfum en þá því aðeins að þau hefðu haft mótandi áhrif á vestræna hefð. Valið fór því alfarið fram á vestrænum forsendum, fagurfræðin miðaðist við það sem Vesturlandabúum var þóknanlegt. Enn er það svo að maður tekur upp nýjar heimsbókmenntaantólógíur sem eru því marki brenndar að yfirgnæfandi meirihluti efnisins er frá Vesturlöndum. Safnritin eru líka yfirleitt ætluð vestrænum lesendum og það þýddi og þýðir enn að oft er sneitt hjá textum sem þykja of framandlegir. Við gættum þess því vandlega að kynjahlutfallið væri eðlilegt, að helstu þjóðfélagshópar ættu sína fulltrúa og að þarna mætti sjá margvíslega nálgun á formið.“

Hættan er alltaf sú að við gerumst sek um íslenska heimsvaldastefnu í vali okkar, að við veljum það sem við kunnum að meta eða teljum að lesendur muni kunna að meta á sínum norrænu forsendum, en ekki það sem haft er í hávegum í löndunum sem um ræðir.
Helstu skorðurnar sem ritstjórninni voru settar tengjast hins vegar tungumálum. „Við höfum einungis vestræn tungumál á valdi okkar, Norðurlandamálin, ensku, þýsku, spænsku og einn aðstoðarmaðurinn leitaði líka á frönsku. Við þurfum þar að auki að velja sögurnar í gegnum tillært tungumál því að á íslensku hefur ekki verið þýtt mikið af smásögum frá Austur-Evrópu, Asíu, arabaheiminum, Afríku og Ástralíu. Hverju tungumáli fylgja ákveðin viðmið, ákveðin fagurfræði, ákveðin heimssýn. Hættan er alltaf sú að við gerumst sek um íslenska heimsvaldastefnu í vali okkar, að við veljum það sem við kunnum að meta eða teljum að lesendur muni kunna að meta á sínum norrænu forsendum, en ekki það sem haft er í hávegum í löndunum sem um ræðir. Sumpart er það óumflýjanlegt en til þess að sporna gegn menningarlegri rörsýn höfum við leitað álits víða, t.d. hjá sérfræðingum um asískar og arabískar bókmenntir. Að lokum hlýtur samt valið að bera kem af smekk ritstjórnarinnar og því samhengi sem sögurnar mynda. Engin saga fékk inni nema allir í ritstjórninni væru sáttir við hana á þessum stað. Stundum er tekist á í ritstjórninni og fyrir kemur að margar sögur frá sama landi og jafnvel eftir sama höfund eru ræddar áður en sú rétta finnst.“

[Ljósmynd ofan við grein: © Kristinn Ingvarsson]

[fblike]

Deila