Trúarbrögð fyrir þá sem hafa gefið upp alla von

Michel Houellebecq
Undirgefni
Þýðandi Friðrik Rafnsson
Mál og menning, 2016
Michel Houellebecq vakti reiði og hneykslan margra upp úr síðustu aldamótunum þegar hann sagði í viðtali að engin trúarbrögð væru bjánalegri en íslam. Þetta var þegar þriðja skáldsagan hans, Áform, kom út. Hún endar á því að herská samtök íslamista ráðast á strandbæ í Taílandi og stráfella Vesturlandabúa sem þangað eru komnir til að stunda óheft kynlíf gegn gjaldi. Í sjöttu skáldsögunni Undirgefni, sem kom út fyrr á árinu í góðri þýðingu Friðriks Rafnssonar, ímyndar hann sér að franskir kjósendur hafi kosið yfir sig forseta úr röðum hófstilltra íslamista og að margir virðist sætta sig býsna vel við þær breytingar sem verða á samfélaginu í kjölfar þess. Til dæmis tekur aðalpersónan, háskólakennari, múslímatrú til að tryggja sér stöðu við Sorbonne, sem orðinn er íslamskur skóli í eigu olíufursta, því að nýkjörinn forseti Frakklands, hófsamur múslími sem heitir Ben Abbes, hefur selt þeim hið fornfræga menntasetur. Í sögulok er aðalpersónan jafnvel farin að hugleiða fjölkvæni. Það sem sagan gefur hugboð um er að það séu að eiga sér stað djúpstæðar breytingar á siðmenningu okkar, breytingar sem voru ófyrirsjáanlegar fyrir nokkrum árum en gætu gerst tiltölulega hratt.

Undirgefni er margslungin skáldsaga sem fjalla má um frá mörgum hliðum. Hér verður fyrst og fremst litið á þá mynd sem Houellebecq dregur upp af íslam. Hún er töluvert frábrugðin þeirri sem kom fram í glannalegum ummælum hans fyrir fimmtán árum. Nýr skilningur sem hann hefur öðlast á múslímatrú verður nú settur í samhengi við aðra þætti í höfundarverki hans.

Eins og fyrr var sagt, mætir kapítalisminn hér þó öðru afli sem gæti hugsanlega borið það ofurliði, þ.e. heit trúarsannfæring íslamista, sem raunar þrífst á fátækt, misrétti og merkingarleysi.
Allt frá því í Öreindunum (1998) hefur hann haft áhuga á stórum byltingum sem verða á heimsmynd og hegðun mannanna. Sú saga er sögð frá sjónarhorni eins konar „eftir-mannkyns“ sem hefur verið frelsað undan oki dauðans og kynhvatarinnar. Í augum þess er saga þeirra sem komast til vits og ára á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar bæði sorgleg og hlægileg. Þeir héldu að þeir myndu finna hamingjuna í neyslu og kynferðislegu frjálsræði í einstaklingshyggju síðkapítalismann en uppskera í staðinn taugaveiklun og einmanaleika. Í Möguleikanum á eyju (2005) hefur mannkynið sigrast á dauðanum með því að „afrita“ sálina í nýtt klónað eintak þegar það eldri er orðið slitið og úr sér gengið. Einmanaleikinn er þó jafn mikill eftir sem áður. Það er aðeins á færi örfárra að kaupa sér eilífðartilvist og þeir verða að búa einangraðir í hálfgerðum virkjum til að verjast ofbeldi og örvæntingu sem ríkir allt í kring. Í Áformum (2001) leiðir innri rökhyggja markaðsþjóðfélagsins til þess að kynlífsþjónusta þykir ekki bara eðlileg heldur bókstaflega góð fyrir hagvöxtinn. Eins og fyrr var sagt, mætir kapítalisminn hér þó öðru afli sem gæti hugsanlega borið það ofurliði, þ.e. heit trúarsannfæring íslamista, sem raunar þrífst á fátækt, misrétti og merkingarleysi.

En eru íslam og kapítalisminn svo miklar andstæður? Ekki endilega ef marka má Houellebecq, eða öllu heldur þá persónu sem er helsti málsvari þeirra trúarbragða í sögu hans. Hann heitir Robert Rediger, er líka háskólakennari og kemur sterkt inn sem persóna í fimmta hluta bókarinnar. Hann er upprunalega hefðbundinn kaþólskur hægri maður undir áhrifum frá Nietzsche, en tekur svo múslímatrú. Í því nýja þjóðfélagi sem er að skapast kemst hann til áhrifa, fyrst sem rektor Sorbonne og síðan sem menntamálaráðherra. Flestir kennararnir hafa ákveðið að þiggja eftirlaun fremur en að þjóna nýjum eigendum hinnar fornu menntastofnunar. Rediger rektor hefur sérstakan áhuga á því að fá aðalpersónuna aftur til starfa, lofar honum háum tekjum og ýmiss konar bitlingum. Fyrst og fremst leggur hann sig fram um að sannfæra hann um að múslímatrú sé leiðin framundan fyrir Evrópu samtímans. Að sögn hans þýðir orðið „íslam“ undirgefni. Þeir sem játa trúna beygja sig undir lögmálið en, þótt það kunni að koma á óvart um trúarbrögð sem urðu til á sjöundu öld e. Kr., passar þessi afstaða ágætlega við þá heimsmynd sem nútímavísindin hafa búið til. Almættið er fjarlægt og kalt. Það setur okkur mörk lífs og dauða, gefur mönnunum mismikla hæfni til að lifa af og deilir gæðunum misjafnlega. Það krefst fullkominnar undirgefni ásamt því að fylgja nokkrum einföldum reglum sem ganga aðallega út á að minna hina trúuðu á að þeir eigi ávallt að vera undirgefnir. Þetta fellur ágætlega að heimsmynd kapítalismans þar sem hinir „hæfu“ lifa af, sölsa undir sig gæðin og drottna yfir öðrum í krafti auðs síns. Velferðarkerfið — sem löngum hefur verið þyrnir í augum auðmanna, enda reist á þeirri meginhugmynd að allir eigi jafnan rétt til heilsu, menntunar og lífs með reisn — víkur fyrir ölmusugjöfum hinna forríku til þeirra sem beygja sig í duftið fyrir lögmálinu.

Það má því segja að það felist í þessari framtiðarsýn nokkur líkn fyrir kvíðafulla Evrópubúa. En hvaða verði er hún keypt?
Það verður að segjast að í þeirri ímynduðu nánu framtíð sem Houellebecq lýsir, virðist Ben Abbes Frakklandsforseta ganga býsna vel að leysa vandamál sem mörgum löndum hans — og raunar allmörgum Evrópubúum — finnast nánast óyfirstíganleg. Skuldaklafi ríkisins léttist óðum, atvinnuleysið hverfur eins og dögg fyrir sólu, hryðjuverkaógnin heyrir sögunni til og Evrópusambandið er aftur að ná vopnum sínum með aðildarviðræðum við Tyrkland og Marókkó. Ben Abbes er greinilega mikilhæfur leiðtogi, en markmið hans er að endurreisa hið forna rómverska keisaraveldi með Miðjarðarhafið sem innhaf en ekki lengur markalínu milli andstæðra og fjandsamlegra menningarheima. Það má því segja að það felist í þessari framtiðarsýn nokkur líkn fyrir kvíðafulla Evrópubúa. En hvaða verði er hún keypt?

Hér skal staldrað við og ítrekað að það er skáldsagnapersóna sem dregur upp þessa mynd af íslam. Sjálfur hef ég ekki nægilega þekkingu á trúnni til að dæma um það hversu vel myndin rímar við veruleikann. En í heimi þeim sem Houellebecq skapar í sögu sinni eru vandamál samfélagsins leyst þannig að eignir hins opinbera eru seldar auðmönnum, gjarnan frá Miðausturlöndum. Verulega er dregið úr félagslegri hjálp að undanskildum barnabótum, sem eru skilyrt því að móðirin hverfi af vinnumarkaði. Fjárveitingar til menntakerfisins eru skornar við nögl, enda er ungt fólk af lægri stigum hvatt til að hætta í skóla snemma. Allt þetta leysir fjárlagahallann. Hryðjuverka­ógnin hverfur af sjálfri sér, þar sem markmiði flestra öfgahópanna hefur verið náð. Ævintýralegur munur á tekjum manna eftir þjóðfélagsstöðu festist í sessi sem skapar grundvöll fyrir víðtækar ölmusur og neyðir fátæka til undirgefni. Konur eru sendar heim. Þær sem falla í kramið hjá karlkyninu verða menntunarsnauðar puntudúkkur fyrir eiginmenn sína meðan þær eru ungar en sinna öðrum þörfum þeirra þegar þær eldast, enda hefur eiginmaðurinn þá eignast aðra yngri sér til yndisauka. Aðrar konur verða að strita, alveg jafn sneyddar menntun og „fallegri“ kynsystur sínar.

Það íslam sem verið er að lýsa í sögu Houellebecq hentar því ágætlega kapítalismanum á þessu stigi í þróunarsögu hans.
Houellebecq segir í viðtölum að hann hafi ávallt skynjað sterklega það tóm sem hvarf trúarbragðanna hefur skilið eftir í sálum okkar Vesturlandabúa. Þetta tóm var kannski ekki mjög tilfinnanlegt meðan uppgangur og bjartsýni ríktu á áratugunum eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar og svo aftur eftir að Járntjaldið féll þegar halla tók á 20. öldina. Í upphafi þeirrar næstu ruddu trúarbrögðin sér aftur til rúms hvarvetna í heiminum. Nú virðist eins og átakalínurnar í heiminum snúist um trúmál, nánar tiltekið um átök milli kristinna og múslíma eða gyðinga og múslíma. Í fljótu bragði virðist þessi sýn vera rétt en hvort sem Houellebecq gerir sér grein fyrir því eða ekki þá afbyggir hann hana líka með því að draga fram undirliggjandi kraft sem virðast trúnni yfirsterkari: kraft auðmagnsins. Kapítalið hefur fundið sér nýja leið til drottnunar, nýtt ópíum handa fólkinu. Það íslam sem verið er að lýsa í sögu Houellebecq hentar því ágætlega kapítalismanum á þessu stigi í þróunarsögu hans.

Aðalpersónan í Undirgefni er bókmenntaprófessor, heimsátorítet í höfundarverki Joris-Karl Huysmans (1848-1907) sem lifði á tímum mikils uppgangs á Vesturlöndum, þegar lýðræðisskipulag og borgaralegt iðnaðarsamfélagið virtust vera búin að tryggja sig endanlega í sessi. Jafnframt átti trúin undir högg að sækja. Eins og Houellebecq var Huysmans uppsigað við samtíma sinn. Meðal annars tók hann kaþólska trú öðrum þræði til að mótmæla tíðarandanum. Aðalpersónan gerir tilraun til að feta í fótspor viðfangsefnis síns og heimsækir sama klaustur þar sem Huysmans tók trúna forðum. En andstætt Huysmans hefur aðalpersónan það ekki í sér að geta gefið sig trúnni á vald. Aftur á móti er hann mikill unnandi bókmennta og stenst því ekki freistinguna, þegar hún býðst, að ganga aftur inn í háskólasamfélagið, þiggja þar laun og vegtyllur, til að mega halda áfram að rannsaka og skapa á þeim vettvangi. Segja má að hann selji sál sína valdhöfum.

Án þess að verið sé að leika sér að orðum, þá er þetta í ágætu samræmi við sálarlíf hans. Eins og allflestar aðalpersónur Houellebecq, er þessi í mjög litlum tengslum við aðrar manneskjur. Hann er systkinalaus, í engu sambandi við foreldra sína og fullkomlega laus við þann hæfileika að geta myndað innihaldsríkt ástarsamband við aðra manneskju. Í byrjun sögunnar er hann í tygjum við unga stúlka af gyðingaættum en gerir enga tilraun til að halda í hana þegar hún flytur til Ísrael með foreldrum sínum. Þó var það umfram allt þetta samband sem gaf lífi hans innihald og smám saman missir hann löngunina til að lifa. Það má segja að öll von sé úti fyrir hann, en þá velur hann íslam og háskólakennslu til að fá að sinna bókmenntarannsóknum, s.s. því sem hann kann og hefur gaman af, þangað til hann deyr, auk þess sem hann sér ýmsa kosti við fjölkvæni eins og fyrr var sagt.

Í Öreindunum lýsir Houellebecq því hvernig kynlífsbylting sjöunda og áttunda áratuga 20. aldar var í raun herbragð markaðarins til að sundra fjölskyldum og hjónaböndum …
Í samræðum þeirra Rediger um trúarbrögð er gert lítið úr kristinni kenningu um holdgervingu guðdómsins í mannsmynd. Hún er sögð beinlínis hlægileg í ljósi stærðar og fjölbreytileika alheimsins. Hví skyldi Guð vera maður fremur en einhver vera á fimmtu reikistjörnu frá Alpha Centauri eða í fjarlægri stjörnuþoku? Það er freistandi að tengja þetta viðhorf við örðugleika aðalpersónu Houellebecq við að tengjast öðrum. Þetta á hún raunar sammerkt með flestum persónum í bókum hans frá upphafi. Samfélög nútímans, mótuð af taumlausri neysluhyggju síðkapítalismans, einangra fólk. Í Öreindunum lýsir Houellebecq því hvernig kynlífsbylting sjöunda og áttunda áratuga 20. aldar var í raun herbragð markaðarins til að sundra fjölskyldum og hjónaböndum í því skyni að skapa fleiri neyslueiningar, og þar með stækka markaðinn. Það er markaðnum í hag að einstaklingarnir séu einangraðir hverjir frá öðrum. Þannig svala þeir eðlislægri þörf þeirra fyrir ástúð og tengsl með neyslu. Sögumaðurinn í Undirgefni er afsprengi þessa samfélags og sömuleiðis Houellebecq.

Í báðum bókum er að finna örlitla von um að raunveruleg ást geti tekist milli tveggja einstaklinga en hún er orðin enn veikari í seinni bókinni. Mannhyggja Vesturlanda sem á að einhverju leyti rætur í kenningu kristninnar um guðdóminn í manninum er orðin gjaldþrota gagnvart ofurvaldi auðmagnsins. Baráttan er vonlaus. Hinum fjarlæga og stranga guðdómi íslam, eins og honum er lýst í bókinni, er þó að minnsta kosti treystandi til að halda sæmilegan frið. Því er þessi trú fyrir þá sem hafa gefið upp alla von um samfélag mennsku og réttlætis. Íslam í skilningi sögupersóna Houellebecq er því ekki lengur bjánalegustu trúarbrögðin heldur sú trú sem hentar best kapítalismanum eins og hann birtist okkur nú á fyrri hluta 21. aldar.

Houellebecq er snjall greinandi samtímans og það er umhugsunarvert að skoða uppgang íslamista með augum hans. En hann er líka fram úr hófi svartsýnn á mannleg samskipti og möguleika mannkyns til að skapa betri heim. Sjálfum finnst mér ástæða til að vona að unnt verði að byggja upp samfélag og menningu þar sem einstaklingarnir njóti sín, óháð kyni og uppruna, að frelsi þeirra sé tryggt ásamt réttinum til að lifa mannsæmandi og innihaldsríku lífi í góðu sambandi við meðbræður sína.

Um höfundinn
Torfi Tulinius

Torfi Tulinius

Torfi H. Tulinius er prófessor í íslenskum miðaldafræðum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á íslenskum miðaldabókmenntum og samfélagi, en einnig fengist við franskar bókmenntir og almenna bókmenntafræði. Sjá nánar

[fblike]

Deila