Samstarfskona mín spurði mig, af hverju þykir það í lagi að börn klæði sig á öskudag sem sjóræningjar en það kemur hins vegar ekki til greina að þau líki eftir liðsmanni Boko Haram af sama tilefni? Mér varð fátt um svör.
Þegar Íslendingar gera það gott í útlöndum er afrekunum jú gjarnan líkt við strandhögg víkinga sem vitað er að voru ofbeldisseggir sem drápu fólk með köldu blóði. Börn leika sér líka með sverð til þess að líkja eftir ímynduðum bardögum þeirra. Á Fjörukránni í Hafnarfirði er einnig hægt að panta víkingarán (Viking Kidnapping) á milli kl. 18 og 20:30 alla daga. Ránið gengur út á það að ræna konum að hætti víkinga og draga þær um krána á hárinu. Þá býður ljósmyndastofa í borginni upp á myndatökur af konum, körlum og börnum í víkingaklæðum með vopn, eins og til dæmis sverð og spjót, undir yfirskriftinni: Unleash Your Inner Viking.

En hvað var það að vera víkingur? Margt bendir til þess að heitið vísi til bræðralags á borð við, Vítisengla (e. Hells Angels), Útlaga (e. Outlaws), Ku Klux Klan, Boko Haram eða Ríki íslams sem vel eru þekkt nú á dögum. Sum þeirra reyna að ná fram markmiðum sínum með hryðjuverkum, á meðan önnur eru skilgreind sem glæpasamtök.[1] Bræðralög þurfa þó vissulega ekki að vera bundin við voðaverk eða glæpi.

Bræðralag – hvað er það?

Bræðralög hafa að líkindum alltaf verið til í einhverri mynd, allt frá litlum klíkum í stærri samtök. Þau eru mynduð um hóp einstaklinga sem sameinast um að berjast – jafnvel upp á líf og dauða – ýmist gegn eða með tilteknum gildum. Meðlimirnir tilheyra samt sem áður ákveðinni samfélagslegri heild og deila með henni mörgu er viðkemur hversdagslegu lífi, siðum og trú. Þeir lifa sumsé oftast hefðbundnu lífi líkt og aðrir þegnar samfélaga sinna en taka eigi að síður þátt í verkefnum þeirra samtaka sem þeir tilheyra utan þess, oft án þess að mikið á því beri.

Bræðralög mótorhjólaeigenda, eins og Vítisenglar og Útlagar, miða að dýrkun á bifhjólum svo dæmi sé tekið. Ku Klux Klan halda hins vegar fram yfirburðum hvíta kynstofnsins og berjast fyrir hann.
Markmið stærri bræðralaga tengjast oftar en ekki trúarbrögðum eða kynþætti, enda þó markmiðin geti vissulega verið önnur. Bræðralög mótorhjólaeigenda, eins og Vítisenglar og Útlagar, miða að dýrkun á bifhjólum svo dæmi sé tekið. Ku Klux Klan halda hins vegar fram yfirburðum hvíta kynstofnsins og berjast fyrir hann. Vélhjólasamtökin og Ku Klux Klan nota eigi að síður glæpi – mismunandi alvarlega þó – til að hræða fólk til hlýðni. Innan íslam eru nokkur bræðralög, eins og til dæmis Boko Haram og Ríki Íslams. Bæði hafa þau það að markmiði að útrýma öðrum trúarskoðunum en múhameðstrú og koma á íslömsku ríki, enda vinna þau núorðið saman. Þau eru andsnúin því sem meðlimir þeirra kalla vestræna þekkingu og vísar nafnið Boko Haram beinlínis í það. Þau beita einkum hryðjuverkum til þess að ná fram markmiðum sínum en drepa einnig og ræna fólki í sama skyni.[2]

Áberandi er að liðsmenn bræðralaga eru yfirleitt öfgafullir, ungir karlmenn sem fórna sér fyrir málstað sinn.[3] Sem dæmi má nefna fær kven­fólk ekki inn­göngu í vél­hjóla­sam­tök á borð við Vít­isengla og Útlag­a. Börn í samtökum sem þessum eru einnig afar fá, nema þau sem meðlimir hafa rænt. En enda þótt konum sé meinuð innganga í þau, hafa þær hlut­verk inn­an þeirra sem fylgi­hlut­ir eða eign meðlima. Þær ganga þannig óbeint til liðs við þau á þessum forsendum.[4] Þá hefur það einmitt verið áberandi að ungar stúlkur gangi til liðs við bræðralög íslams og taki virkan þátt í störfum þeirra. Árið 2014 höfðu, svo dæmi sé tekið, sex­tíu bresk­ar kon­ur farið til Sýr­lands í þeim til­gangi að ganga til liðs við hryðju­verka­sam­tök­in Ríki íslams. Í þeim hópi eru átján ung­lings­stúlk­ur.[5]

Boko Haram. NDTV. Sótt 15. apríl 2016 af slóðinni http://www.ndtv.com/world-news/boko-haram-kidnaps-16-women-in-north-east-nigeria-police-1290471
Boko Haram. NDTV. Sótt 21. apríl 2016 héðan.

Það er á hinn bóginn alls ekki alltaf svo að ungar stúlkur og konur, eða jafnvel karlmenn, gangi af fúsum og frjálsum vilja til liðs við bræðralög sem stunda hryðjuverk og glæpi. Í apríl árið 2014 vakti það heimsathygli þegar vígamenn Boko Haram réðust á grunnskóla fyrir stúlkur í Borno ríki í Nígeríu og rændu 276 þeirra og fluttu í höfuðstöðvar samtakanna. Abubakar Shekau, leiðtogi samtakanna, gat þess í heimspressunni að búið væri að þvinga stúlkurnar í hjónaband og neyða þær til þess að gerast múslimar. Samtökin hafa auk þess rænt fjölda manns af báðum kynjum, á öllum aldri, og selt í þrældóm eða notað í sprengjuárásir. Þá höfðu þau á tímabilinu frá júlí 2009 til júní 2014 drepið meira en 5000 óbreytta borgara – karla, konur og börn – í Chad, Níger og Kamerún auk heimalandsins, Nígeríu. Ótaldir eru þeir sem hafa flúið frá Afríku vegna grimmilegra árása þeirra en talið er að það sé í það minnsta 1,5 milljón manns.[6] Sjálf eru bræðralögin yfirleitt tiltölulega fámenn, miðað við fólksfjölda í þeim löndum þar sem þau eru virk.

Loks hafa bræðralög sín einkennismerki. Eru það einkum hermannaklæðnaður, fánar með táknmynd og einkunnarorðum samtakanna og vopn ef því er að skipta, rétt eins og segja má að vígalegir búningar og sverð hafi verið helstu einkenni víkinga – ætluð til þess að ógna, rétt eins og hjá víkingum nútímans.

Víkingar

Hegðun víkinga minnir í mörgu á hegðun meðlima bræðralaga nútímans, einkum þó þeirra er stunda rán og dráp á fólki. Erfitt er eigi að síður að fullyrða nokkuð um það hvort svo hafi verið, enda skilja meira en þúsund ár hér í milli. Eitt er þó víst að víkingar rændu konum, drápu óbreytta borgara, stunduðu þrælasölu og eyðilögðu kristnar byggingar. Talið er að markmið þeirra– í það minnsta til að byrja með – hafi verið að hefta útbreiðslu kristni í Norður Evrópu, enda kom bakslag í útbreiðslu hennar á 9. og 10. öld í kjölfar ráns- og drápsferða víkinga.[7]

úr sjónvarsþáttaröðinni Vikings eftir Michael Hirst .
Úr sjónvarsþáttaröðinni Vikings eftir Michael Hirst . Ljósmynd tekin héðan.

Spor eftir voðaverk þeirra má finna allt frá Rússlandi í austri og vestur til Ameríku. Oft er það einmitt svo að hryðjuverkasamtök eru virk innan mjög stórra landsvæða, sem jafnvel ná til nokkurra álfa, án þess að meðlimir þeirra hafi nokkurn tíma hist. Bræðralög starfa líka gjarnan í mörgum löndum, eins og til dæmis Boko Haram sem eru virk samtök í mörgum löndum Afríku auk heimalandsins Nígeríu. Þrátt fyrir það bera meðlimirnir samskonar einkennismerki og vinna að sömu markmiðum, sem berast manna í milli um ótrúlega langan veg.

Árásir af þessu tagi stóðu allt fram á tíundu öld. Fjöldi fólks flúði til nærliggjandi landsvæða og eyja við Norður-Atlantshaf, rétt eins þegar almenningur flýr hryðjuverk Boko Haram og Ríkis íslams nú á dögum.
Vitneskja og þekking á víkingum, lifnaðarháttum þeirra og hegðun, fæst einkum úr fornleifum en einnig úr rituðum frásögnum og sögum, jafnt innlendum sem erlendum. Sem dæmi má nefna frásögn í breskum skjölum af upphafi voðaverka víkinga í Lindesfarne klaustri á Norður-Englandi hinn 8. júní árið 793. Í annálum klaustursins segir: „Never before has such terror appeared in Britain as we have now suffered from a pagan race [. . .]  The heathens poured out the blood of saints around the altar, and trampled on the bodies of saints in the temple of God, like dung in the streets“.[8] Árásir af þessu tagi stóðu allt fram á tíundu öld. Fjöldi fólks flúði til nærliggjandi landsvæða og eyja við Norður-Atlantshaf, rétt eins þegar almenningur flýr hryðjuverk Boko Haram og Ríkis íslams nú á dögum.

Styðjast má við frásagnir og sögur af víkingum til að greina hugsunarhátt þeirra og hátterni. Í Landnámabók segir sem dæmi má nefna frá Ölvi barnakarli. Hann lét að sögn „[…] eigi henda börn á spjótaoddum, sem þá var víkingum títt; því var hann barnakarl kallaður“.[9] Svo virðist sem að það hafi verið almennur siður meðal víkinga að leika sér með þessum hætti með lík barna. Raunar minnir þessi frásögn óneitanlega á nýlega frétt af meðlimum Ríkis íslams þar sem þeir munu hafa látið börn nota höfuð fanga samtakanna fyrir fótbolta.[10] Fleiri sögur eru í Landnámu, eins og til dæmis af þrælum Ingólfs sem tókst að flýja. Það bendir til þess að Ingólfur hafi átt þræla sem voru alsendis ekki sáttir við hlutskipti sitt. Melkorku Íraprinsessu tókst hins vegar aldrei að flýja þrælahaldara sinn en Höskuldur Dalakollur keypti hana fimmtán vetra á þrælamörkuðum á Brenneyju við strendur Vestur-Svíþjóðar. Hann tók hana með sér heim í Dalina þar sem hún var lengst af ambátt hans og frilla.[11] Saga Melkorku vekur vissulega upp spurningar um það hversu margar konur hafi verið hnepptar í kynlífsþrælkun víkinga á Íslandi, rétt eins og meðlimir Boko Haram rændu, líkt og áður getur, 267 stúlkum úr skóla í Nígeríu og hnepptu í þrældóm í sama skyni fyrir tveimur árum.

Konur, börn og gamalmenni – hvar eru þau?

En hvað segja fornleifarnar um víkingana? Fullyrða má að afskaplega fá kuml víkinga hafi fundist í Norður-Evrópu með tilliti til mannfjölda á víkingaöld en fjöldi meðlima í bræðralögum er einmitt – eins og áður getur – lítið brot af því samfélagi sem þeir tilheyra. Á Íslandi hafa um 330 kuml fundist í samfélagi sem taldi í það minnsta 30.000 manns. Ekki er ljóst hvað veldur en grafir með haugfé – gripum – eru alla jafna skilgreind sem kuml. Haugféð samanstendur oft af ránsfeng eða söluvarningi sem á uppruna sinn að rekja víða að. Vopn eru áberandi, einkum spjót og sverð, raunar auk persónulegra eigna.[12] Athuga ber jafnframt að í kumlunum hvíla oftast ungir karlmenn. Konur eru í minnihluta og hefur þessi skortur á kvenkumlum í Norður-Evrópu löngum vakið mikla furðu fræðimanna, víðar en á Íslandi. Þá heyrir það til algjörra tíðinda að kuml barna finnist, þó þess séu samt dæmi. Barnakuml sem hafa fundist á Íslandi eru innan við fimm. Hér á landi, í Danmörku, Norður-Þýskalandi og Skotlandi er hlutfallið 60–65% karlkuml á móti 35–40% kvenkumlum. Í Noregi er hlutfallið enn meira sláandi. Þar er eru 80% karlkuml fundin á móti 20% kvenkumla.[13]

Thorisa3_kuml
Hér má sjá kuml sem fannst fyrir rúmum 20 árum við Þórisá. Þetta er gröf víkings og sverð, skjöldur, spjót, öxi og ýmis varningur fannst þar, t.d. pyngja með pening í og skart af klæðnaði. Þá lá ungur hestur (eða raunar bara tryppi) í gröf til fóta. Mynd: Steinunn J. Kristjánsdóttir.

Skortur á kumlum kvenna og barna, en líka eldra fólks, hefur satt best að segja lengi verið óleyst ráðgáta sem að vísu hefur alloft verið rakin til þess að stúlkubörn hafi verið borin út en drengir látnir lifa. Það er þó tæplega skýringin. Vaxandi áhugi er meðal fræðimanna á að skoða fjölda beinafunda án nokkurs haugfjár hér á landi frá heiðnum tíma. Þær skipta hundruðum.[14]  Þetta geta vel verið grafir almennings sem tilheyrði ekki bræðralagi víkinga en bjó hér og lifði engu að síður.

Bræðralag frá víkingaöld

Ítrekað hefur verið bent á að hvers kyns bræðralög endurspegli engan veginn almenn viðhorf þeirra eigin samfélags. Múslimar eru þannig ekki allir hryðjuverkamenn, ekki frekar en Vesturlandabúar almennt meðlimir í glæpasamtökum. Víkingarnir deildu væntanlega sömu trú og siðum og aðrir íbúar germanskra samfélaga í Norður Evrópu á víkingaöld, enda þótt almenningur hafi ekki tekið þátt í dráps- og ránsferðum þeirra. Tæplega er þess vegna hægt að halda því fram að allir íbúar landsins á víkingaöld hafi verið eiginlegir víkingar, ekki frekar en að hægt sé að kalla alla íbúa Nígeríu, Níger, Chad og Kamerún hryðjuverkamenn. Þegar vísað er til víkinga, eða líkt eftir leik þeirra og starfi, er því miður gjarnan vísað til þess hóps fólks sem á víkingaöld rændi, ruplaði og drap samborgara sína með köldu blóði. Á öskudag er nefnilega ekki eins gaman að líkja eftir lífi og starfi friðsamra landnema, bændafólks og þræla þessa tíma, eins og víkingi eða sjóræningja.

[Mynd ofan við grein er sótt af Vísindavefnum 21. 4 ’16][line][1] Orri Páll Ormarsson. Meira í orði en á borði (14. október 2012). Sunnudagsblað Morgunblaðsins.
[2] Hvað er Boko Haram? (22. mars 2016). RÚV.
[3] Hedenstierna-Johnsson, C. (2009). A Brotherhood of Feasting and Campaigning. The Success of The Northern Worriors. Í Regner, E., von Heijne, C., Kitzler Åhfeldt, L. & Kjellström, A. (ritstj.). From Ephesos to Dalecarlia.
Reflections on Body, Space and Time in Medieval and Early Modern Europe. Bls. 43–56. Stockholm Studies in Archaeology 48. Stokkhólmur:  The Museum of National Antiquities.
[4] Kvenfyrirlitningin áberandi (28. mars 2012). Morgunblaðið.
[5] Fjöldi unglingsstúlkna til liðs við Ríki íslams (1. mars 2015). Morgunblaðið. Sótt 9. apríl 2016 af slóðinni
[6] Stúlkurnar hafa verið giftar (31. október 2014). Morgunblaðið; Hvað er Boko Haram? (22. mars 2016). RÚV.
[7] Aston, M. (2001). The Expansion of the Monastic and Religious Orders in Europe from the Eleventh Century. Í Graham Keewill o.fl. (ritstj.), Monastic Archaeology, bls. 11; Lawrence, C.H. (2001). Medieval Monasticism. 3. útgáfa. London: Longman, bls. 79.
[8] Logan, F. Donald (1983). The Vikings in History. Camberley, Surrey: Hutchinson & co. Bls. 25.
[9] Landnámabók (1968). Jakob Benediktsson gaf út. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag. Bls. 379.
[10] Illugi Jökulsson. „Íslamska ríkið“ lætur smádrengi nota höfuð hálshöggvinna fanga sem fótbolta (5. mars 2016). Stundin.
[11] Laxdæla saga (1934). Einar Ól. Sveinsson gaf út. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag. Bls. 27–28, 49–59.
[12] Sjá t.d. Kristján Eldjárn (2000). Kuml og haugfé.
[13] Kristján Eldjárn (2000). Kuml og haugfé í heiðnum sið á Íslandi. Adolf Friðriksson sá um útgáfuna og skrifaði viðbætur. Reykjavík: Mál og menning. Bls. 303; Wallaker-Nordeide,  S. (2011). The Viking Age as a Period of Religious Transformation. The Christianization of Norway from AD 560–1200. Turnhout: Brepols. Bls. 52.
[14] Fyrirlestur Orra Vésteinssonar,  Kortlagning dauðans, í Þjóðminjasafni Íslands 20. apríl 2016.

Um höfundinn
Steinunn J. Kristjánsdóttir

Steinunn J. Kristjánsdóttir

Steinunn J Kristjánsdóttir er prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild. Kennslusvið hennar liggur innan miðaldafræða og kynjafornleifafræði, Helstu rannsóknasvið hennar eru félagsleg fornleifafræði, miðaldafornleifafræði, trúarbragðarsaga, klaustur og klausturstarfsemi. Sjá nánar

[fblike]

Deila