Safnar upplýsingum um íslensk ævintýri

Ævintýragrunnurinn er nýr gagnagrunnur yfir íslensk ævintýri. „Á þessum vef er hægt að skoða tiltekin ævintýri og samhengi þeirra við önnur sem ætti að nýtast vel við rannsóknir og kennslu. Auk þess má finna upplýsingar um fólkið sem sagði sögurnar, en með því að skoða hvaða ævintýri hver einstaklingur kaus að segja, má lesa í líf hans, aðstæður og lífsskoðun,” segir Aðalheiður Guðmundsdóttir, dósent í íslenskum bókmenntum fyrri alda. Hún á hugmyndina að verkefninu og hefur þróað það ásamt nemendum sínum um nokkurra ára skeið.

Aðalheiður kenndi um árabil námskeiðið Íslensk ævintýri og samfélag á BA-stigi í þjóðfæði. „Ég hélt námskeiðið fjórum sinnum og hafði á bilinu 40–50 nemendur í hverjum hóp. Undantekningalaust eru þeir nemendur sem sóttu námskeiðið afar áhugasamir, enda komust þeir að því að námsefnið var allt annað en léttmeti, heldur einkenndist það einmitt af miklum og skemmtilegum pælingum um samfélag fyrri alda, um lífsskilyrði fólks, um andlega heilsu og hugsanagang. Í fyrsta skipti sem ég kenndi ævintýranámskeiðið datt mér í hug hvort ekki væri upplagt að útbúa verkefni sem gæti komið að gagni síðar, og þar sem nemendur fengju tækifæri til leggja eitthvað af mörkum til fagsins. Úr varð að ég bað þau um að skrá nokkur ævintýri, hvert eftir ákveðinni forskrift sem ég útbjó, auk þess að gera efnislegan útdrátt úr hverju þeirra. Með þessum hætti safnaði ég ævintýrunum í gagnagrunn.”

Hans og Gréta. Mynd: Arthur Rackham.
Hans og Gréta. Mynd: Arthur Rackham.

Í ævintýragrunninum má finna nöfn ævintýra í stafrófsröð, upplýsingar um hvar ævintýrið er að finna á prenti og efnisútdrátt, sem getur verið gagnlegur þar sem mörg íslensk ævintýri eru tiltölulega löng. Sjá má þau tilbrigði ævintýrsins sem varðveitt eru á Íslandi, og stöðu ævintýrisins í samhengi við erlend ævintýri af sömu gerð, en Aðalheiður segir það geta skipt miklu máli fyrir rannsóknir. „Ævintýrum er skipt í gerðir og þau flokkuð eftir alþjóðlegu númerakerfi. Íslensk ævintýri eru að jafnaði einungis tilbrigði við alþjóðlegar gerðir ævintýra. Þar sem ævintýri gagnagrunnsins hafa mörg hver verið greind með tilliti til hins alþjóðlega flokkunarkerfis, má auðveldlega bera þau saman við erlend tilbrigði sömu gerða.

Með því að fletta númerinu upp í erlendum gerðaskrám sjáum við að þetta er í raun ævintýrið um Hans og Grétu, og að Sagan af Surtlu í Blálandseyjum er eitt af íslenskum tilbrigðum þess
Við gætum tekið sem dæmi ævintýrið Sagan af Surtlu í Blálandseyjum, sem er af gerðinni ATU 327A. Með því að fletta númerinu upp í erlendum gerðaskrám sjáum við að þetta er í raun ævintýrið um Hans og Grétu, og að Sagan af Surtlu í Blálandseyjum er eitt af íslenskum tilbrigðum þess. Í framhaldi af þessu getur verið mjög athyglisvert að athuga birtingarmynd gerðarinnar á Íslandi miðað við tilbrigði annarra þjóða. Það getur sagt okkur ýmislegt um íslenskt samfélag á fyrri öldum.“

Að lokum er hægt að fá upplýsingar um þann sem skráði ævintýrið, og heimildamanninn, þann sem sagði ævintýrið. „Þarna eru því upplýsingar um hvaða sögur eru hafðar eða skráðar eftir tilteknum einstaklingum.

Mynd: Aðalheiður Guðmundsdóttir
Mynd: Aðalheiður Guðmundsdóttir
Sem dæmi um afkastamikinn sagnaþul má nefna Guðríði Eyjólfsdóttur, niðursetning í Árkvörn í Fljótshlíð. Í ævintýragrunninum getum við fengið upplýsingar um öll þau ævintýri sem Guðríður sagði, en með því að greina þau getum við lesið í samfélagslega stöðu hennar, lífsbaráttu og drauma.
Varðandi hvern einstakling fáum við upplýsingar um heimili, fæðingarár og æviatriði. Við getum einnig séð á korti hvar þeir bjuggu, en ég hef einmitt verið að velta fyrir mér dreifingu heimildarmanna um landið og hvort ævintýri hafi verið sögð á tilteknum svæðum umfram önnur. Samfélagslegar rannsóknir ævintýra eru með ýmsu móti, og geta til dæmis tekið mið af umhverfi og ytri aðstæðum. Þá hefur fólk einnig verið að athuga einkenni staðbundinna ævintýra, þ.e. hvort og hvernig ævintýri frá tilteknum stað og tíma skera sig frá öðrum. Slík einkenni köllum við staðbrigði. Í slíkum rannsóknum skiptir búseta heimildarmanna miklu máli. Sem dæmi um afkastamikinn sagnaþul má nefna Guðríði Eyjólfsdóttur, niðursetning í Árkvörn í Fljótshlíð. Í ævintýragrunninum getum við fengið upplýsingar um öll þau ævintýri sem Guðríður sagði, en með því að greina þau getum við lesið í samfélagslega stöðu hennar, lífsbaráttu og drauma.“

Í dag felur ævintýragrunnurinn í sér upplýsingar um rúmlega 540 tilbrigði íslenskra ævintýra, og tekur þó einungis mið af útgefnu efni. Fyrir liggur að uppfæra hann reglulega og bæta í hann upplýsingum eftir því sem nýjar útgáfur bætast við. Enn sem komið er nær skráningin ekki til þýðinga íslenskra ævintýra yfir á erlend mál, nema í þeim tilvikum þar sem tiltekin ævintýri voru fyrst gefin út í erlendri þýðingu, svo sem í söfnum þeirra Konrads Maurer, Isländische Volkssagen der Gegenwart, frá 1860 og Adeline Rittershaus, Die neuisländischen Volksmärchen, frá 1902, sem og útgáfu Hallfreðar Arnar Eiríkssonar á ævintýrum Herdísar Jónasdóttur í samnorræna ritinu All the World’s Reward frá árinu 1999. Þá hafa hvorki verið skráð upplesin ævintýri á hljóðbókum, snældum, hljómplötum eða geisladiskum, né þau sem birst hafa á netinu, en í slíkum tilvikum er langoftast um að ræða birtingar eftir þegar útgefnum og prentuðum textum.

Verkefnið er dæmi um verðmæti sem háskólasamfélagið skapar, og skilar svo út til samfélagsins, hvort heldur sem er til fræðimanna eða áhugafólks.
Ævintýragrunnurinn hefur verið lengi að þróast og mikil vinna liggur að baki birtingu hans á netinu. „Fyrir nokkru síðan fékk ég nemanda minn, Pétur Húna Björnsson, til að færa grunninn yfir í nýtt viðmót, sem gerði mér kleift að vista hann á netinu. Síðastliðið sumar fékk ég svo annan nemanda minn, Áslaugu Heiði Cassata, til að vinna við grunninn í einn mánuð, fyrir styrk sem tengist Rannís-verkefni um Jón Árnason þjóðsagnasafnara og handrit hans, en um er að ræða samstarfsverkefni milli HÍ, Árnastofnunar og Landsbókasafns. Eftir þetta hef ég snurfusað grunninn til, og að lokum tók Trausti Dagsson, sem hannaði Sagnagrunninn fyrir Terry Gunnell, ævintýragrunninn inn, og sameinaði sagna-grunninum, þó þannig að ævintýragrunnurinn er og verður áfram sérstakur grunnur, þótt hann tengist nú víðara neti. Verkefnið er dæmi um verðmæti sem háskólasamfélagið skapar, og skilar svo út til samfélagsins, hvort heldur sem er til fræðimanna eða áhugafólks.“

[fblike]

Deila