Samband ríkis og kirkju — Tengsl eða aðskilnaður?

Grunnur að trúmálarétti okkar var lagður með stjórnarskrá um sérmál Íslendinga eða innanríkismál sem sett var 1874. Hann er því orðinn ríflega 140 ára gamall. Ef til vill þolir hann vissa andlitslyftingu fyrir 150 ára afmælið þótt meginatriði hans standist vel tímans tönn enda hefur ýmsu verið breytt og nú síðast 1995 þegar mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var færður til nútímahorfs.

Frumþættir íslenska trúmálaréttarins eru tveir: Trúfrelsi og þjóðkirkjuskipan.
Frumþættir íslenska trúmálaréttarins eru tveir: Trúfrelsi og þjóðkirkjuskipan. Að margra áliti orkar síðarnefndi þátturinn tvímælis og finnst sumum aðkallandi að binda enda á þjóðkirkjuskipanina og aðskilja „að fullu“ ríki og kirkju. Aðrir telja að slíkur aðskilnaður hafi þegar farið fram.

Auðvitað er eðlilegt að þjóðkirkjan hafi mótaða skoðun í þessu efni, kynni hana og beiti sér fyrir henni. Þá hljóta stjórnvöld að marka stefnu á þessu sviði með tilliti til aðstæðna við upphaf 21. aldar. Þegar upp er staðið er það þó þjóðin sjálf sem hér ræður för eins og skýrt kemur fram í 79. gr. stjórnarskrárinnar. Því er mikilvægt að sem flestir kynni sér málin og taki þátt í samræðum um þau.

En verður eitthvað sagt um þjóðarviljann í þessu efni? Vissulega hafa ýmsar kannanir verið gerðar. Lítið hefur hins vegar farið fyrir markvissri umræð um málefnið. Því er erfitt að meta hvað niðurstöður mælinganna segja um raunverulega afstöðu þjóðarinnar.

Kannanir og mælingar

Um nokkurt skeið hefur reglulega verið spurt um afstöðu fólks til aðskilnaðar ríkis og kirkju og þá einkum í könnunum Gallup. Samkvæmt Þjóðarpúlsi í desember 2015 voru 56% ýmist alfarið (30%) , mjög (12%) eða frekar (14%) hlynnt aðskilnaði en 23% ýmist alfarið (10%), mjög (4%) eða frekar (9%) andsnúin. Fimmtungur var þó hlutlaus. Til samanburðar má geta að 37% báru þá fullkomið, mjög eða frekar mikið traust til þjóðkirkjunnar.

Þegar litið er til hlutfalls þeirra sem á annað borð hafa tekið afstöðu og voru hlynnt aðskilnaði kemur í ljós að á tímabilinu 1998–2005 var hlutfallið ríflega 60% (hæst 67% árin 2002 og 3), hrapaði niður í um helming á því Mammons ári 2007 en fór upp í 70% frá Hruni og til 2014. Þá féll það niður undir 60% en var 71% 2015. Það sem af er aldar sýna kannanir Gallup því gróið fylgi við aðskilnað.

Niðurstaða af ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarp stjórnlagaráðs í október 2012 gaf nokkuð aðra niðurstöðu en þá greiddu ríflega 50% þeirra sem þátt tóku því atvæði að ákvæði um þjóðkirkju skyldi vera að finna í nýrri stjórnarskrá. Þetta er ekki beint samanburðarhæf tala við niðurstöður Gallup. Þjóðaratkvæðagreiðslan var formlegri gjörningur en könnun og spurningin var önnur. Ekki er víst að allir kjósendur hafi lagt að jöfnu niðurfellingu stjórnarskrárákvæðisins og aðskilnað ríkis og kirkju.

Nú síðast hafa samtökin Siðmennt birt niðurstöður úr könnun sem unnin var fyrir þeirra hönd og tók m.a. til aðskilnaðar ríkis og kirkju.
Nú síðast hafa samtökin Siðmennt birt niðurstöður úr könnun sem unnin var fyrir þeirra hönd og tók m.a. til aðskilnaðar ríkis og kirkju. Í henni kváðust tæp 49% mjög eða frekar hlynnt aðskilnaði en naumlega 19% mjög eða frekar andvíg. Ríflega 32% svöruðu þó „hvorki né“.[1] Þess skal getið að þannig hefði pistilshöfundur svarað hefði hann tekið þátt í könnuninni. Þá er ástæða til að undirstrika að aðskilnað ríkis og kirkju er mögulegt að styðja margvíslegum trúarlegum og guðfræðilegum rökum. Stuðningur við aðskilnað þarf því alls ekki að fela í sér andstöðu við kirkjuna. Fylgi við aðskilnað mælist hér sýnu minna en hjá Gallup þótt hlutfall þeirra sem eru honum andvíg sé nokkru lægra. Þá er athyglisvert hve hátt hlutfall er beggja blands. Virðist mega túlka tölurnar svo að margir láti sig samband ríkis og kirkju litlu skipta þrátt fyrir að tæpur helmingur svarenda aðhyllist vissulega aðskilnað.

Aðskilnaður ríkis og kirkju er sérstakt baráttumál samtakanna Siðmenntar. Líklegt er að einmitt hafi verið ráðist í könnunina til að vinna að framgangi þess málefnis. Áhugavert er að þeim sem svöruðu spurningunni um aðskilnað neikvætt var gefinn kostur á að gera grein fyrir „atkvæði“ sínu. Í könnuninni er birt 41 svar. Þau má flokka með ýmsu móti. Gróft má segja að um helmingur svaranna byggist á félags- og menningarlegum rökum og vegi ýmis ummæli um gildi og gildismat þyngst, um fjórðungur felur í sér trúar- eða kirkjuleg rök og álíka hlutfall byggist á íhaldssemi eða ótta við breytingar.[2]

Spurningunni fylgt eftir

Beinu spurningunni um aðskilnað var fylgt eftir með áhugaverðum fylgispurningum sem varpa ljósi á nokkra mikilvæga fleti aðskilnaðar. 62. gr. stjórnarskrárinnar er oft nefnd „kirkjuskipan ríkisins“ og er það m.a. gert í 79. gr. hennar. Fyrir þessu heiti eru að vísu hæpnar forsendur en niðurfelling greinarinnar er þó eitt formlegasta og táknrænasta skrefið í aðskilnaði ríkis og þjóðkirkju. Ein og sér ylli slík breyting þó vissulega ekki aðskilnaði. Til að koma honum á þyrfti að breyta ýmsum sérlögum og gera fleiri ráðstafanir. Spurning um hvort fella beri ákvæði um þjóðkirkju úr stjórnarskrá er því röklegt framhald þegar spurt hefur verið um afstöðu til aðskilnaðar.

Ríflega 47% reyndust mjög eða frekar hlynnt því að ákvæðið væri fellt brott en tæp 30% því andvíg. Rúmlega 22% voru milli átta.[3] Svarendur voru hér sjálfum sér samkvæmir að því leyti að nokkurn veginn sama hlutfall aðhylltist aðskilnað og niðurfellingu þjóðkirkjugreinar úr stjórnarskránni. Hér kom aftur á móti fram mun minna fylgi við þjóðkirkjuákvæðið en í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Þegar hefur þó verið bent á að þessar tölur eru ekki fullkomlega sambærilegar. Lægra hlutfall var nú beggja blands en 10% færðust úr þessum hópi yfir í þann sem andvígur reyndist niðurfellingu. Þetta kann að sýna að þegar tekið er að útfæra aðskilnað nánar eykst andstaða við hann.

Önnur áhugaverð fylgispurning laut að því hvort ríkið eigi að skrá aðild einstaklinga að trú- og lífsskoðunarfélögum en slík skráning er bein og óbein afleiðing af þjóðkirkjuskipan.
Önnur áhugaverð fylgispurning laut að því hvort ríkið eigi að skrá aðild einstaklinga að trú- og lífsskoðunarfélögum en slík skráning er bein og óbein afleiðing af þjóðkirkjuskipan. Hún er einkum notuð til að deila sóknargjöldum til einstakra sókna þjóðkirkjunnar sem og skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga. Niðurstöðuna virðist einboðið að túlka svo að heil 70% séu því fylgjandi að ríkið haldi slíka skrá en það er mjög afgerandi meirihluti. Vissulega má leika sér með niðurstöður úr þessari spurningu. Fylgitexta með svörunum í kynningarhefti Siðmenntar virðist t.d. óneitanlega ætlað að halda á lofti þeirri túlkun að aðeins 40% séu fylgjandi opinberri skráningu.[4]

Svarmöguleikar voru sem sé þrír. Ríflega 40% töldu að hið opinbera ætti áfram að skrá ungbörn sjálfkrafa í trúfélag foreldra eins og gert er nú. Til viðbótar töldu tæp 30% að slík opinber skrá skuli haldin en breyta ætti framkvæmd þannig að foreldrar þyrftu að óska eftir skráningu. Þess má geta að slík skráning virðist eðlilegur fylgifiskur skírnar í öllum kristnum trúfélögum nema í undantekningartilvikum. Hér skiptir meginmáli að báðir hóparnir töldu að opinber skrá skuli haldin þótt skiptar skoðanir væru um framkvæmd. Aðeins tæp 30% töldu aftur á móti að hætta bæri opinberri skráningu en það væri skref í átt að aðskilnaði, að vísu ekki aðeins ríkis og þjóðkirkju heldur ríkis og allra trú- og lífsskoðunarfélaga.[5]

Hér virðist svipað gerast og sýnt var fram á varðandi spurninguna um þjóðkirkjuákvæði stjórnarskrárinnar, þ.e. að andstaða við aðskilnað eykst þegar spurt er um skýrt afmörkuð skref í aðskilnaðarátt. Hér má þó segja að fylgi færist ekki frá óákveðnum yfir til þeirra sem síður vilja aðskilnað heldur frá þeim sem fylgjandi eru aðskilnaði.

Þriðja fylgispurningin við aðskilnaðarspurninguna snérist um „tengsl“ ríkis við trú- og lífsskoðunarfélög en fjallaði nánar til tekið um hvort ríkið eigi að „styrkja“ slík félög.[6] Spurningin virðist því snúast um hvort fjárhagstengsl skuli vera milli trú- og lífsskoðunarfélaga og ríkisins. Hér skal áréttað að fjárhagstengsl ríkis og þjóðkirkju við núverandi aðstæður eru aðeins að litlu leyti háð þjóðkirkjuskipaninni. Fremur er um að ræða afleiðingar af stjórnarskrárvörðum eignarrétti (sbr. kirknajarðasamkomulagið) og heimild kirkjunnar til að innheimta sóknargjöld. Aðeins lítill hluti þess fjár sem til þjóðkirkjunnar rennur er því ríkisstyrkur og tæpast er um nokkra ríkisstyrki til skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga að ræða. Um þessi fjárhagstengsl verður þó ekki fjölyrt frekar hér.

46% völdu svarmöguleikann að ríkið ætti ekki að styrkja trú- og lífsskoðunarfélög. Hér hlýtur þjóðkirkjan auðvitað að vera innifalin þótt hún teljist að lögum ekki til þessa flokks enda nýtur hún sérstöðu. Afnám þessara fjárhagstengsla er auðvitað stórt skref í a.m.k. aðgreiningarátt. Þessi niðurstaða er líka í góðu samræmi við afstöðuna til aðskilnaðar og niðurfellingar þjóðkirkjuákvæðisins úr stjórnarskránni. Ekki verður betur séð en tæp 54% séu því aftur á móti fylgjandi að ríkið „styrki“ þjóðkirkjuna sem og skráð trú- og lífsskoðunarfélög. 29% telja þannig að ríkið eigi að „styrkja“ þjóðkirkjuna hlutfallslega meira en „önnur“ skráð trú- og lífsskoðunarfélög og tæp 25% að ríkið eigi að „styrkja“ þjóðkirkjuna og trú- og lífsskoðunarfélög hlutfallslega jafnt.[7] Hér virðist andstaða við aðgreiningu og/eða aðskilnað því aukast.

Líkt og við spurninguna um opinbera skráningu í trúfélög virðist fylgitexta frekar vera ætlað að leggja áherslu á fjölda þeirra sem vilja vinna að aðskilnaði nú með því að draga úr fjárhagstengslum ríkis og kirkju og/eða sérstöðu þjóðkirkjunnar í því efni.[8]

Hér virðist athyglisverð heildarmynd blasa við. Hlutfall þeirra sem vilja aðskilnað og taka einstök skref í aðskilnaðarátt helst tiltölulega jafnt. Milli 40% og 50% svarenda virðist sem sé sjálfum sér samkvæmur um að vera hlynntur aðskilnaði. Andstaða við aðskilnað virðist aftur á móti aukast þegar komið er að einstökum útfærsluatriðum. Af þessu má draga þá ályktun að nákvæm og öguð umræða um aðskilnað ríkis og kirkju muni fremur verða til að styrkja lítið breytt ástand í þessu efni en að veikja það. Því er skaði fyrir þjóðkirkjuna að hingað til hefur umræðan verið fremur yfirborðsleg á báða bóga.

Einfaldar fullyrðingar

Hingað til hefur oft gætt mikilla einfaldana í aðskilnaðarumræðunni. Innan þjóðkirkjunnar er ugglaust að finna fólk sem kýs aðskilnað ríkis og kirkju. Opinber stefna hennar er samt að hún skuli halda hefðbundnum tengslum við ríkisvaldið. Þrátt fyrir það heldur framáfólk í þjóðkirkjunni því oft fram að umræða um aðskilnað sé í raun úrelt þar sem aðskilnaður hafi þegar átt sér stað og að það hafi gerst á síðasta áratug liðinnar aldar. Þá heldur margt kirkjufólk því einnig fram að enginn viti hvað í aðskilnaði felist og því orki tvímælis að taka afstöðu til hans. Meðal þeirra sem eru baráttumenn um aðskilnað og standa utan kirkjunnar er því aftur á móti oft haldið á lofti að skilnaður muni spara ríkinu stórar fjárhæðir sem nú renni til kirkjunnar sem og að þjóðkirkjufyrirkomulag brjóti í bága við trúfrelsi og þar með nútíma mannréttindi. Allt eru þetta miklar einfaldanir.

Á síðasta áratugi liðinnar aldar fluttust að vísu fjölmörg stjórnsýsluerindi frá ráðuneyti kirkjumála til Biskupsstofu, fjárhagstengsl ríkis og kirkju komust í samningsbundinn farveg og loks gengu ný lög í gildi sem kváðu á um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar. Allt olli þetta því að þjóðkirkjan sem stofnun varð sjálfstæðari og aðgreindari frá ríkisvaldinu rétt eins og ýmsar aðrar opinberar stofnanir á sama tíma. Sumar voru seldar (bankarnir), sumar ohf-væddar (RÚV) og enn aðrar gerðar fjárhagslega sjálfstæðari en verið hafði (HÍ). Á þessum tíma þróaðist þjóðkirkjan og tengsl hennar við ríkisvaldið aðeins í takt við það sem uppi var á teningnum í opinberri stjórnsýslu.

Í ljósi þessa afvegaleiðir það aðeins umræðuna að halda því fram að hér hafi þegar orðið aðskilnaður. Hér hefur aðeins orðið holl og eðlileg stofnunarleg aðgreining. Það er beinlínis rangt að slá ryki í augu fólks með því að halda öðru fram.

Enginn meirihlutavilji var hins vegar á þessum tíma á pólitískum eða kirkjulegum vettvangi til að breyta stjórnarskrárbundnum tengslum ríkis og kirkju né gera aðskilnað að öðru leyti. En með aðskilnaði ríkis og kirkju felst í trúarréttarlegri merkingu annað tveggja að 1) engum lögformlegum tengslum sé haldið milli ríkisvaldsins og trú- og lífsskoðunarfélaga nema þeim sem eru milli ríkisins og annarra frjálsra félagasamtaka eða ríkisvaldið telur nauðsynleg til að tryggja sér innsýn í trúmálasvið þjóðlífsins eða 2) engum sérstökum tengslum sé haldið milli ríkisvaldsins og eins (eða mjög fárra) trúfélaga. Í ljósi þessa afvegaleiðir það aðeins umræðuna að halda því fram að hér hafi þegar orðið aðskilnaður. Hér hefur aðeins orðið holl og eðlileg stofnunarleg aðgreining. Það er beinlínis rangt að slá ryki í augu fólks með því að halda öðru fram.

Þá eru ummælin um að enginn viti hvað aðskilaður ríkis og kirkju sé eða í hverju hann felist mikið yfirdrifin. Þeir sem sömdu aðskilnaðarspurningarnar í könnun Siðmenntar virðast til dæmis bera gott skynbragð á það. Í þessum ummælum felst þó sá sannleikskjarni að aðskilnaður ríkis og kirkju felst ekki í einni einfaldri ákvörðun eða aðgerð heldur þarf að marka um hann stefnu. T.a.m. verður að ákveða hvort stefnt skuli að aðstæðum þar sem öll trú- og lífsskoðunarfélög hafi algerlega sambærileg tengsl við ríkisvaldið. Í stórum dráttum gætu þau líkst því sem nú er kveðið á um í lögum um skráð trú- og lífsskoðunarfélög. Slík breyting fæli vissulega í sér aðskilnað ríkis og þjóðkirkju (sbr. kost 2 hér framar). Áfram héldi þjóðkirkjan þó þeirri sérstöðu að vera tengd ríkinu vegna eignatilfærslu á 20. öld sem þyrfti að gera upp sérstaklega. Eins væri kostur að afnema einnig sérstöðu trú- og lífsskoðunarfélaga almennt og láta þau aðeins starfa á grundvelli stjórnarskrárbundins félagsfrelsis og þeirra laga sem um frjáls félagasamtök gilda hverju sinni (sbr. kost 1 hér framar).

Það má vel taka undir með þeim sem segja að umræða um aðskilnað ríkis og kirkju verði ekki markviss og ekki sé málefnalegt að gera upp hug sinn í því efni fyrr en tillaga liggur fyrir um hversu langt skuli gengið, hvaða lögum þurfi að breyta og þá hvernig, í hvaða röð það skuli gert og á hvaða hraða. Af þeim ályktunum sem dregnar voru af niðurstöðum úr könnun Siðmenntar hér framar virðist slík umræða fremur draga úr en auka þrýsting á aðskilnað. Þjóðkirkjan ætti því að sjá sér hag í að leiða og móta slíka samræðu.

Einfaldanir er einnig að finna utan kirkjunnar þegar aðskilnaðarmál eru til umræðu. Fjárhagstengsl ríkis og þjóðkirkju eru til að mynda ekki nema að litlu leyti afleiðing af þjóðkirkjuskipaninni, þ.e. núverandi tengslum ríkis og þjóðkirkju. Fjármagn streymir nú frá ríki til kirkju eftir tveimur meginfarvegum. Annar byggist á stjórnarskrárvörðum eignarrétti en hinn á rétti kirkjunnar sem félagasamtaka til að taka félagsgjöld af meðlimum sínum (sóknargjöld).

Ríkisvaldið tók yfir umráðarétt yfir fornum kirknaeigum, þ.e. jörðum, í upphafi liðinnar aldar og fékk til eignar í lok hennar þær jarðir sem það hafði ekki þegar selt eða afsalað sér á annan hátt til þriðja aðila. Í upphafi var tilgangurinn með þessari aðgerð ekki síst að efla landbúnað í landinu með fjölgun sjálfseignarbænda. Afleiðingin varð hins vegar sú að kirkjunni var gert ókleift að reka starf sitt af afrakstri eigin eigna eins og heppilegast væri. Róttæk breyting á núverandi tengslum ríkis og þjóðkirkju mundi í sjálfu sér í litlu breyta þessum flókna fjármálahnút. Það þarf að gera eftir lögformlegum leiðum þar sem í hlut eiga tveir jafnréttháir eignarréttarlegir aðilar. Þess má geta að samræða þeirra stendur nú yfir um þetta mál þótt ekki tengist hún aðskilnaði.

Þá eru sóknargjöldin sem slík óháð tengslum ríkis og kirkju. Þrátt fyrir aðskilnað gæti ríkisvaldið jafnvel haldið áfram að innheimta sóknargjöld í umboði kirkjunnar og skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga en þá á grundvelli samnings og ugglaust gegn innheimtugjaldi. Ágalla á núgildandi lögum um sóknargjöld þarf þó að lagfæra þótt ekki komi til aðskilnaðar.

Mikilvægi mannréttindasjónarmiðsins hér felst því einmitt í að farið sé gagnrýnið niður í saumana á einstökum atriðum þjóðkirkjuskipanar okkar og kannað hvort þar kunni að leynast ágallar sem sníða þurfi af. Þar geta samtök á borð við Siðmennt gegnt mikilvægu aðhaldshlutverki.
Loks má benda á að þeir ýkja sem halda því fram að „fullan“ aðskilnað þurfi milli ríkis og þjóðkirkju af trúfrelsis- og mannréttindaástæðum. Í alþjóðlegri mannréttindaumræðu og dómaframkvæmd á því sviði hefur ekkert komið fram sem leiðir til þess að þjóðkirkjuskipan sem slík orki tvímælis sé trúfrelsi þeirra sem standa utan þjóðkirkjunnar á annað borð tryggt og að ljóst sé að þeim sé ekki af trúarástæðum mismunað að skilningi laga. (t.d. 65. gr. stjskr.). Hitt getur svo gerst að framkvæmd eða útfærsla þjóðkirkjuskipanar leiði til óréttmætar mismununar. Þá ágalla þarf þá auðvitað að leiðrétta. Mikilvægi mannréttindasjónarmiðsins hér felst því einmitt í að farið sé gagnrýnið í saumana á einstökum atriðum þjóðkirkjuskipanar okkar og kannað hvort þar kunni að leynast ágallar sem sníða þurfi af. Þar geta samtök á borð við Siðmennt gegnt mikilvægu aðhaldshlutverki.

[line]

[1] Svarendur voru alls 821 á aldrinum 18–75 ára. Þess skal getið að tæp 5% svöruðu ekki þessari spurningu. Lífsskoðanir og trú Íslendinga, Siðmennt, nóvember 2015, bls. 32.

[2] Lífsskoðanir og trú Íslendinga, bls. 36.

[3] Rúm 6% svöruðu ekki spurningunni. Lífsskoðanir og trú Íslendinga, bls. 43.

[4] Lífsskoðanir og trú Íslendinga, bls. 40.

[5] Rúm 8% svöruðu ekki. Lífsskoðanir og trú Íslendinga, bls. 40.

[6] Yfirskrift kaflans sem um þetta fjallar er „Tengsl ríkisins við trú- og lífsskoðunarfélög“ en í svarmöguleikum er rætt um hvort ríkið eigi „að styrkja“ slík félög.

[7] Heil 9% svöruðu ekki sem bendir til að svarendum hafi fundist þröngt um kosti. Lífsskoðanir og trú Íslendinga, bls. 37.

[8] Lífsskoðanir og trú Íslendinga, bls. 37.

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

[fblike]

Deila