Út fyrir kvikmyndarammann með William Castle

Alfred Hitchcock var mikill snillingur og meistari þess að fanga áhorfendur í spennu og hryllingi söguheimsins og hann skildi að söguheimurinn náði líka út fyrir hvíta tjaldið. Þegar hann markaðssetti Psycho árið 1960 gerði hann út á það að bannað væri að upplýsa um plott myndarinnar þar sem það væri svo hrikalegt að maður þyrfti að upplifa það til að skilja það. Einnig gerði hann stiklu fyrir myndina þar sem hann kynnir sögusviðið og býður áhorfendum í stutta kynnisferð um morðvettvanginn.

Það þarf þolinmæði og áhuga til að horfa á þessa auglýsingu til enda, sem reyndar borgar sig þar sem hún endar með hvelli. Hún dregur áhorfendur inn í söguheiminn og gefur til kynna að hér hafi raunverulegir glæpir átt sér stað. Til samanburðar við snilli Hitchcocks er gaman að skoða nýrri útgáfu af stiklu fyrir myndina, þar eru tónlist og taktur orðin að meginþema og stjórna áhorfendum á annan máta en Hitchcock hér að ofan.


Það voru þó ekki bara hreinræktuð sjentílmenni eins og Hitchcock sem reyndu að ræða málin við áhorfendur heldur voru einnig til miklir ævintýramenn sem fóru frumlegar leiðir til að koma kvikmyndaframleiðslu sinni á framfæri. Sá frægasti í þeim geira er án efa Bandaríkjamaðurinn William Castle. Castle var kvikmyndaframleiðandi og leikstjóri og frægðarsól hans reis hæst þegar hann leikstýrði House on Haunted Hill (1959) með Vincent Price í aðalhlutverki og síðar þegar hann framleiddi Rosemary´s Baby (Polanski, 1968).

House_on_Haunted_Hill

Um miðbik ferilsins fór Castle að braska með ódýrar hryllingsmyndir og reyndi að trekkja áhorfendur á þær með ýmsum bráðskemmtilegum aðferðum. Með miða á myndina Macabre sem kom út árið 1958 fylgdi þúsund dollara líftrygging frá Lloyd´s tryggingarfyrirtækinu í London sem tryggði fólk gegn dauða úr hræðslu á meðan á sýningu stóð. Þá hafði hann hjúkrunarkonur staðsettar víðsvegar um kvikmyndahúsið sem áttu að koma hræddum áhorfendum til aðstoðar. Fyrir sýningar á House on Haunted Hill hafði Castle komið fyrir beinagrind sem lýsti í myrkri og sveif yfir áhorfendaskarann á sérstaklega hræðilegu augnabliki í myndinni. Beinagrindin fékk þó í sannleika sagt meira poppkorn yfir sig en skelfingaróp. The Tingler kom út árið 1959 og fjallar um rosemarys_babylítil sníkjudýr sem éta sig inn í mænuna á fólki. Undir lok myndarinnar tala persónur um að einn „tinglerinn“, sem útleggst einna best á íslensku sem kitlari, hafi sloppið og fari nú um kvikmyndasalinn. Um helmingur sætanna var útbúinn tækjum sem hristust undir sitjanda áhorfenda og fóru af stað á sama tíma til að skapa skelfingu, en samkvæmt aðvörun Castles í upphafi myndarinnar var eina leiðin til að komast lífs af að öskra af öllum mætti. Árið 1960 lét Castle svo litgleraugu fylgja miðum á 13 Ghosts en með þeim gátu áhorfendur látið drauga myndarinnar bæði birtast og hverfa á skjánum sér til skemmtunar eða hugarhægðar. Undir lok Homicidal (1961) birtist the-tingler-william-castle-s-best-movie-gimmicksskeiðklukka á skjánum sem taldi niður 45 sekúndur. Áhorfendur sem ekki þoldu við gátu nýtt þær til að yfirgefa bíóið gegn endurgreiðslu, en þeir sem sátu eftir gerðu það á eigin ábyrgð. Til að gera skræfunum og nirflunum erfiðara um vik þurftu þeir sem vildu endurgreiðslu að skrifa undir yfirlýsingu um að þeir hefðu ekki þolað hrylling myndarinnar, setjast í afmarkað heiglahorn og hugsa málið um stund áður en þeir máttu fara. Áður en síðasta spólan af Mr. Sardonicus (1961) var sett af stað kom Castle fram á tjaldinu og bað áhorfendur um að velja, með sjálflýsandi þumli sem fylgdi miðanum, hvort að söguhetjan ætti að deyja eða lifa af.

Myndin fjallar um harðbrjósta mann sem grefur upp lík föður síns til að komast yfir lottómiða með vinningi en við þann verknað frýs andlit hans í ógnvænlegu glotti sem hann reynir allt til að losna við. Sagan, sem félagsfræðingar ættu að geta skemmt sér yfir, segir að áhorfendur hafi aldrei sýnt miskunn svo að spólan þar sem honum var þyrmt hafi aldrei farið í vélina – það er þó líklegt að sú spóla hafi aldrei verið til.

Fyrir myndina Strait-Jacket (1964) voru bakhjarlar Castles búnir að biðja hann vinsamlega um að hætta með látalætin. Í staðinn fékk hann aldna Joan Crawford til að leika aðalhlutverkið og ferðast með myndinni um landið. En þar sem gamlar venjur deyja seint ákvað hann á síðustu stundu að dreifa pappa-öxum á sýningum. Árið 1965 varð minnkandi áhugi allra annarra en Castles sjálfs til þess að síðasta myndin kom út þar sem slíkum brellum var beitt. Hún hét I Saw What You Did, og tók Castle öftustu sætaraðirnar sérstaklega frá fyrir þá sem vildu komast hjá því að kastast úr sæti sínu af einskærum ótta við atburði kvikmyndarinnar.

William Castle var óhræddur við að upphefja myndir sínar og lofa ótrúlegri og umfram allt hræðilegri upplifun. Það er skemmst frá því að segja að þær skiluðu henni sjaldan. Áhorfendur skemmtu sér þó konunglega, enda var kvikmyndaupplifunin færð út fyrir tjaldið, eða markaðssetningin inn í salinn – eftir því hvernig maður vill sjá það. Þrátt fyrir að vera frekar hjákátleg var aðferð Castles skemmtileg og virkjaði áhorfendur til þátttöku í kvikmyndasalnum sem skilaði sér í aukinni ánægju bíógesta og óvenjulegum viðbótum við upplifun áhorfenda. Nú væri gaman að sjá þá sem taka næstu hryllingsmynd til sýningar taka Castle á orðinu og gera eins og eitt „gimmikk“-kvöld fyrir blóðþyrsta og óttaslegna áhorfendur.

Um höfundinn
Gunnar Tómas Kristófersson

Gunnar Tómas Kristófersson

Gunnar Tómas Kristófersson er doktorsnemi og stundakennari í kvikmyndafræði við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila