Knud WentzelEf maður spyr fólk í dag hvort það þekki danska dulspekinginn og rithöfundinn Johannes Anker Larsen munu langflestir hrista höfuðið. Það er synd. Anker Larsen, sem var uppi á árunum 1874 til 1957, er einstakur í danskri menningarsögu. Hann var guðfræðilega óháður dulspekingur sem gerðist rithöfundur og notaði bókmenntir til að miðla yfirskilvitlegri reynslu sinni. Krafturinn og einlægnin í lýsingum hans á upplifunum sínum lagði grunninn að velgengni verka hans, sérstaklega á þriðja áratug 20. aldar. Eftir það skipuðu bækur hans fastan sess sem lesefni í þeim kreðsum sem höfðu áhuga á andlegum málefnum. Eitt af því forvitnilega við viðtökusögu Anker Larsens er að í Danmörku, Þýskalandi og Hollandi eru enn forlög sem gefa út bækur hans. Í tveimur síðastnefndu löndunum er hann reyndar lykilhöfundur í útgáfu smáforlaga.
Mystiker og digter. Anker Larsens liv og forfatterskab
Syddansk Universitetsforlag, 2011
Ástæða Danmerkur- og heimsfrægðar Anker Larsens var veiting hinna virtu Gyldendals bókmenntaverðlauna upp á 70.000 DKR árið 1923 fyrir skáldsöguna De vises sten. Sú viðurkenning tryggði höfundinum mikla dreifingu og einnig að bækurnar voru gefnar út í stóru upplagi og þýddar á fjölmörg tungumál (þýska forlagið hans segir að þau séu 15 talsins). Um leið varð hann afar umdeild persóna í opinberri umræðu samtíma síns þar sem menn skiptust í tvær fylkingar í afstöðu til hins andlega prósa hans. Nokkrir gagnrýnendur hömpuðu bókinni sem stórkostlegu heimsbókmenntaverki en aðrir – t.d. Otto Gelsted – lýstu því yfirlætislega yfir að De vises sten væri „ljót og plebeísk framleiðsla með ekkert mannlegt eða listrænt gildi“. Afstaða austurríska skáldsins Rainer Maria Rilke var tvíbent, því annars vegar viðurkenndi hann einlægnina í lýsingum á hinni andlegu reynslu (Rilke og Anker Larsen töluðu báðir um þessa upplifun sem „hið opna“) en hins vegar stuðuðu hann ákveðnir veikleikar í fagurfræðilegri útfærslunni.
Ytri aðstæður Anker Larsens þróuðust á mun litríkari hátt en vænta mætti af dulspekingi.Það er þó ekki einungis vegna þess að í bókum Anker Larsens felst frumlegt framlag til dulspekilegra heimsbókmennta 20. aldarinnar að það er þess virði að líta nánar á líf hans og verk. Ytri aðstæður Anker Larsens þróuðust á mun litríkari hátt en vænta mætti af dulspekingi. Hann á sér hógværan uppruna á Langeland, verður nemandi í Rudkøbing og fer eftir það til Kaupmannahafnar, þar sem hann stundar um hríð nám í lögfræði, guðfræði og heimspeki trúarbragða. Þetta tímabil einkennist af áherslu á guðspeki (sem hann varð þó seinna gagnrýninn á). Það sem skiptir máli er hins vegar að hann hætti í námi til að helga sig annars konar störfum, sem leikari og rithöfundur. Hann sló aldrei í gegn sem leikari en náði vissum árangri sem sviðsleikstjóri, þýðandi og höfundur gamanleikja. Seinna varð hann ritskoðandi við Konunglega leikhúsið. Fjölhæfni hans kemur skýrt fram í þeirri staðreynd að stóran hluta lífs síns var hann ákafur hnefaleikamaður.
Bækur dulspekihöfundar krefjast tvenns konar næmni: bæði gagnvart bókmenntagildi verkanna (og skorti á því) og andlegri hlið reynslunnar sem verið er að lýsa.Það krefst hugrekkis að skrifa bók um Johannes Anker Larsen í dag. Sem bókmenntafræðingur getur maður tryggt sér meira umtal með því að fjalla um einn af viðurkenndum höfundum kanónunnar. Að auki hæfa bækur Anker Larsens betur þeim sem eru andlega þenkjandi en þeim sem hafa fyrst og fremst bókmenntalegan áhuga. Loks krefjast bækur dulspekihöfundar tvenns konar næmni: bæði gagnvart bókmenntagildi verkanna (og skorti á því) og andlegri hlið reynslunnar sem verið er að lýsa. Þetta hugrekki hefur Knud Wentzel, sem er þekktur fyrir bækur sínar um þjóðsögur (m.a. Den globale fortælling, 2001) og er einn af útgefendum bókmenntasögulega verksins Hovedsporet (2005). Wentzel segir hæversklega í inngangi að hann sé hvorki dulspekingur né guðspekingur en hafi í grunninn opinn huga fyrir hinu andlega sviði. En þetta er einmitt styrkurinn við framsetningu Wentzels. Stærsta hættan í umfjöllun um andlegar bókmenntir felst í að túlkandinn verði annað hvort ógagnrýnin málpípa ákveðins andlegs boðskapar eða – sem mun vera algengast meðal háskólafólks – einblíni á að gera lítið úr andlegri reynslunni og lýsa henni sem vitleysu. Wentzel gerir hvorugt. Í Mystiker og digter. Anker Larsens liv og forfatterskab fjallar hann um hina bókmenntalegu hlið á höfundarferli Anker Larsens og leggur á hana traust faglegt mat (hér gengur hann stundum hart að Anker Larsen!), auk þess að setja hinar dulrænu upplifanir fram af samkennd og tilfinningu fyrir þróunarferlum vitundarinnar. Wentzel rannsakar gaumgæfilega danskar viðtökur Anker Larsens og verka hans en kemur ekki inn á viðtökur verka hans innan alþjóðlegra (sér í lagi þýsk-svissnesk-hollenskra) menningarkima. Hann hefði sérstaklega mátt fjalla um hina þýsku Anker Larsen-bylgju á tíunda áratug síðustu aldar, þar sem endurútgáfa á bókum hans gat af sér fjölmargar umfjallanir í ýmsum andlegum tímaritum. Þetta ætti þó á engan hátt að skyggja á gleðina yfir því að í fyrsta sinn liggur fyrir vel skrifuð, skörp, fræðilega grundvölluð og skemmtileg lýsing á litríkum og frumlegum dönskum dulspekihöfundi. Kannski er kominn tími á enduruppgötvun á Anker Larsen?
[fblike]
Deila