Leiðtogahæfileikar og fyrirmyndir

[x_text]
Edda Jónsdóttir
og Sigrún Stefánsdóttir.
Frú ráðherra. Frásagnir kvenna á ráðherrastóli. Háskólaútgáfan og Háskólinn á Akureyri, 2015.
Fyrr á þessu ári kom út bók með frásögnum 20 kvenna sem höfðu gegnt ráðherraembætti á Íslandi. Nánar tiltekið eru þetta allar þær konur sem settust í ráðherrastól fyrir árið 2013 nema ein, Auður Auðuns, en hún lést árið 1999. Það gefur auga leið að það er fengur að slíku riti. Höfundarnir, sem eru Edda Jónsdóttir mannréttindafræðingur og leiðtogamarkþjálfi og Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlafræðingur, nýta sér einstakt tækifæri til að safna saman á einn stað viðhorfum og sjónarmiðum stjórnmálakvenna sem fæddar eru á árabilinu 1930-1976 en eiga það sameiginlegt að hafa stigið inn í hlutverk sem framan af var ekki ætlað konum.

Frásagnirnar snúast að miklum hluta til um kynhlutverk og reynsluheim kvenkyns stjórnmálamanna. Við fáum til dæmis að vita að sú elsta, Ragnhildur Helgadóttir, og sú yngsta, Katrín Jakobsdóttir, eiga það sameiginlegt að hafa glímt við morgunógleði samfara krefjandi opinberu starfi. Sem forseti neðri deildar Alþingis árið 1960 þurfti Ragnhildur einu sinni að slíta þingfundi fyrirvaralaust; og án skýringa, því þingheimur vissi ekki að hún var ófrísk (bls. 180). Hálfri öld síðar var Katrín Jakobsdóttir svo fyrst til að sitja ólétt og með morgunógleði í ríkisstjórn. Katrín þurfti að stelast út af ríkisstjórnarfundum en telur að enginn hafi tekið eftir neinu því „það dettur náttúrlega ekki nokkrum manni í hug að [ráðherra] sé ófrískur“ (bls. 108). Þetta var árið 2011 en tæpu ári síðar eignaðist iðnaðarráðherrann Katrín Júlíusdóttir tvíbura og hún er „mjög stolt af því að hafa sýnt fram á að kona geti gegnt ráðherraembætti á barneignaraldri“ (bls. 127).

Önnur aðferð sem lýst er í bókinni var sú að draga upp mynd af veikburða konum eða vafasömum kynferðisverum.
Í bókinni hafa jafnframt safnast saman sögur af kynbundnum hindrunum sem gerðu konum erfitt fyrir. Jóhanna Sigurðardóttir segir að til skamms tíma hafi hagsmunabandalög karla verið konum fjötur um fót. Þær fáu konur sem reyndu að komast áfram í stjórnmálum hafi átt á hættu að vera ýtt til hliðar. Reynt hafi verið að einangra þær þar sem þær reyndu að olnboga sig áfram í karlaveldi stjórnmálanna. Jóhanna segist hafa reynt sem félagsmálaráðherra að karlarnir tóku ákvarðanir í hennar málaflokkum á lokuðum fundum og þegar hún maldaði í móinn var hún sökuð um „yfirgang og frekju“ (bls. 81). Önnur aðferð sem lýst er í bókinni var sú að draga upp mynd af veikburða konum eða vafasömum kynferðisverum. Ingibjörg Pálmadóttir segist t.d. hafa verið kölluð „stelpukjáni“ með „heimastílinn frá húsbóndanum“ (bls. 65 og 68). Siv Friðleifsdóttir var hins vegar sögð hafa „lyft pilsinu á ríkisstjórnarfundi“ til að fá málum sínum framgengt og þegar hún stakk upp á að Framsóknarflokkurinn íhugaði ríkisstjórnarsamstarf með vinstri flokkunum birtist í Morgunblaðinu skopmynd af henni sem vændiskonu (bls. 223).

Frásagnirnar byggja á viðtölum og um aðferðina segir meðal annars í inngangi: „Opin viðtöl voru lögð til grundvallar við gagnasöfnun eins og venjan er þegar um eigindlegar rannsóknir er að ræða, enda tilgangurinn sá að öðlast dýpri skilning á aðstæðum þessara brautryðjenda“ (bls. 11). En þótt viðtölin hafi verið „opin“ voru tilteknar spurningar lagðar til grundvallar. Viðmælendurnir voru spurðir um æsku, uppruna, menntun, fjölskyldu og bakland, stjórnmálaferillinn, lífsskoðun og gildismat, viðhorf til valds, Alþingis og ráðherraembættisins, en auk þess leiðtogahlutverkið og fyrirmyndir. Að lokum voru þær svo hvattar til að líta til baka, gera upp ferilinn og horfa til framtíðar (bls. 13).

Og þótt um það megi sannarlega deila fannst mér bestu viðtölin vera við þær konur sem kusu að ráða ferðinni sjálfar og halda sig ekki um of við að svara atriðum af spurningalistanum.
Sum viðtölin bera með sér að viðmælendurnir hafi lagt áherslu á að svara nákvæmlega því sem spurt var um og þá jafnvel þótt það sem þær eru að tjá sig um hafi ef til vill ekki verið þeim hugleikið á stjórnmálaferlinum. Þannig virðist mér sem umræðan um fyrirmyndir og viðhorf til leiðtogahlutverksins verði stundum þvinguð og leiði jafnvel út í vandræðalegt sjálfshól eða sjálfsgagnrýni sem endurspeglar kannski ekki nægilega vel karaktereinkenni þess sem rætt er við. Með öðrum orðum þá læddist oftar en einu sinni að mér sá grunur að viðmælendurnir hefðu bitastæðari sögu að segja. Og þótt um það megi sannarlega deila fannst mér bestu viðtölin vera við þær konur sem kusu að ráða ferðinni sjálfar og halda sig ekki um of við að svara atriðum af spurningalistanum. Vissulega getur verið æskilegt að leggja af stað með tilteknar spurningar. Það er til að mynda kostur þegar upp er staðið að það er hægt að draga út úr viðtölunum og bera saman afstöðu til ákveðinna atriða. En þá má velta fyrir sér um hvað sé best að spyrja (og hugleiðingar um það er ekki að finna í innganginum). Það vekur til dæmis athygli að ráðherrarnir fyrrverandi eru ekki beðnir um að hugleiða jafnrétti, kvenréttindi eða stöðu kvenna innan samfélagsins. Eins og áður hefur komið fram gera allar þær konur sem rætt er við í bókinni kyn að lykilatriði í frásögninni. Samt hefði mátt kafa dýpra í umræðuna um stöðu kynjanna. Ég er til dæmis enn að velta vöngum yfir því sem er stillt upp sem upphafsorðum viðtalsins við Rögnu Árnadóttur: „Á meðan ég var ráðherra fór sú hugsun að læðast að mér að ef til vill væri eitthvað sem héti ójafnrétti. Ég fór á ríkisstjórnarfundi og við mér blasti veggur með myndum af eintómum körlum. Svo var ein og ein kona sem fór að slæðast þarna inn“ (bls. 161).[/x_text]
Um höfundinn
Ragnheiður Kristjánsdóttir

Ragnheiður Kristjánsdóttir

Ragnheiður Kristjánsdóttir er dósent í sagnfræði og forstöðumaður Sagnfræðistofnunar við Háskóla Íslands. Sjá nánar

[x_text][fblike][/x_text]

Deila