Er hrakspá Rasks að rætast?

[x_text]
Tvær nýjar samfélagsbyltingar hafa gerbreytt lífsskilyrðum íslenskunnar á örfáum árum – alþjóðavæðingin og snjalltækjavæðingin. Til að bregðast við þeim þarf að tryggja að íslenska verði áfram nothæf á öllum sviðum.

„Sótt og dauði íslenskunnar“

Í vor varð – einu sinni sem oftar – nokkur umræða um það í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum að íslenskukunnátta ungmenna væri á undanhaldi og íslenskan deyjandi tungumál. Umræðan hófst með grein sem Gunnar Smári Egilsson blaðamaður skrifaði í Fréttatímann undir fyrirsögninni „Íslenskan er að deyja og samfélagið með“ og hefst á þessum orðum:

Þegar maður pælir í því er augljóst að íslenskan mun deyja út á næstu 50 til 70 árum. Alla vega sem fullburða tungumál í fjölþættum samskip[t]um fólks.

Skömmu síðar skrifaði Linda Björk Markúsardóttir íslensku- og talmeinafræðingur grein í Frétta­blaðið undir fyrirsögninni „Ég kann þetta ekkert á íslensku“ og í framhaldi af henni skrifaði Bergur Þór Ingólfsson leikstjóri grein í sama blað þar sem hann velti fyrir sér lýsingu Lindu Bjarkar á málkunnáttu barna í ljósi 5 þrepa skala UNESCO um lífvænleik tungumála og benti á að íslenska væri e.t.v. að færast úr efsta styrkleikaflokki, „öruggt“, niður í þann næsta, „viðkvæmt“. Sá flokkur er skilgreindur svo:

Sum börn nota tungumálið á öllum sviðum; öll börn nota málið á takmörkuðum sviðum. („The language is used by some children in all domains; it is used by all children in limited domains.“)

Úr skala UNESCO um „endangered languages“
Úr skala UNESCO um „endangered languages“

Rasmus Kristján Rask
Rasmus Kristján Rask
Það má vitanlega deila um hvort íslenska sé að komast á þetta stig; en það er svo sem ekki nýtt að menn hafi hafi áhyggjur af „sótt og dauða íslenskunnar“. Oft er vitnað í Rasmus Kristján Rask sem spáði því í bréfi 1813, „að íslenskan bráðum muni útaf deyja; reikna jeg, að varla muni nokkur skilja hana í Reykjavík að 100 árum liðnum, en varla nokkur í landinu að öðrum 200 árum þar upp frá, ef allt fer eins og hingað til og ekki verða rammar skorður við reistar“. Síðan eru liðin 200 ár og íslenskan er töluð enn, jafnvel í Reykjavík – er nokkur ástæða til að ætla annað en svo verði áfram?

Alþjóðavæðingin

Ég held reyndar að tvær samfélagsbreytingar hafi gerbreytt lífsskilyrðum íslenskunnar á örfáum árum og framtíðarhorfur málsins séu nú óræðari en nokkru sinni fyrr, ef „ekki verða rammar skorður við reistar“. Önnur þessara breytinga er alþjóðavæðingin sem hefur leitt til þess að ungt fólk sér ekki framtíð sína endilega á Íslandi. Í nýlegri könnun kom fram að helmingur íslenskra unglinga vill helst búa erlendis í framtíðinni, og 37% telja líklegast að sú verði raunin. Árið 2003 vildi um þriðjungur búa erlendis en aðeins 18% töldu líklegast að svo yrði.

Það segir sig sjálft að líklegt er að þetta hafi áhrif á viðhorf unglinga til íslenskunnar. Þeir vita sem er að hún kemur þeim að litlu gagni erlendis – hún er einangrun, eins og Gunnar Smári Egilsson sagði í áðurnefndri grein í Fréttatímanum. Hvers vegna skyldu unglingarnir hafa jákvætt viðhorf gagnvart tungumáli sem einangrar þá og gerir þeim erfiðara um vik að búa og starfa þar sem þeir kjósa helst? Í grein í Skímu 2009 skrifaði ég:

Hvað gerist ef móðurmálið er ekki lengur nothæft í nýrri tækni og öðru sem er nýtt og spennandi; á sviðum þar sem nýsköpun af ýmsu tagi á sér stað; og á sviðum þar sem ný atvinnutækifæri bjóðast? Menn þurfa varla að velta þessu lengi fyrir sér til að sjá hættumerkin.

Egill Helgason fjallaði um þetta í bloggpistli í haust og spurði: „Hvernig segjum við börnum að læra íslensku?“

Ljóð með línum eins og „land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein“ sannfæra engan. Rökin að með því að kunna íslensku geti þau lesið Kiljan og Íslendingasögurnar duga heldur ekki langt og ekki að með því að halda í íslenskuna varðveitum við sérstakan menningarheim […]. Þjóðerniskenndin ristir heldur ekki djúpt. Hvernig má það líka vera þegar möguleikarnir til að komast áfram í lífinu eru fyrst og fremst í alþjóðlegum greinum sem þekkja engin landamæri, viðskiptum, hugbúnaði, ferðaþjónustu?

Snjalltækjavæðingin

Hin breytingin sem hefur orðið á örfáum árum er snjalltækjavæðingin. Unglingar eru núna sítengdir við netið gegnum síma og spjaldtölvur, frá morgni til kvölds. Sá menningarheimur sem þeir lifa og hrærast í þar er að verulegu leyti á ensku. „Æ minni hluti þess sem Íslend­ingar heyra og lesa er á íslensku og Íslendingar eru of fáir til að geta dregið sístækkandi og æ margbreytilegri veröld inn í íslenska tungu“ sagði Gunnar Smári Egilsson í áðurnefndri grein. Jafnframt sýna kannanir að bóklestur unglinga hefur minnkað verulega á undanförnum árum.

smartphone-982561_smallÞað er augljóst hvernig þetta dregur úr íslenskri málörvun og því þarf það ástand sem Linda Björk Markúsardóttir lýsti í grein sinni í vor ekkert að koma á óvart:

Undanfarið hefur það hefur færst í aukana að ég fái til mín alíslensk börn sem kunna ekki íslensku nema að litlu og yfirborðskenndu leyti. Þeim sýni ég myndir af al­gengum hlutum og bið þau að segja mér hvað þeir heita. Oft fæ ég svör á borð við: „Ég veit alveg hvað þetta er sko, ég bara kann þetta ekkert á íslensku.“

Nú er auðvitað ekki hægt að alhæfa út frá einstökum dæmum á borð við þau sem Linda Björk nefnir, og vel getur verið að enskukunnátta þeirra barna sem hún vísar til sé yfirborðskennd og taki fyrst og fremst til einstakra orða en ekki málkerfisins sjálfs. Þó hef ég undanfarið heyrt og séð ýmsar sögur af íslenskum börnum sem leiki sér meira og minna á ensku. Þar er þá um að ræða málkunnáttu sem ristir miklu dýpra en að kunna einstök ensk orð.

Vitanlega er ekki nema gott um það að segja að börn læri ensku og kunni hana vel. Það er hins vegar umhugsunarefni ef þau velja enskuna fram yfir íslensku í íslensku málumhverfi. Í því samhengi má minna á orð Bergs Þórs Ingólfssonar í áðurnefndri grein þar sem hann fjallar um mikilvægi íslenskrar talsetningar teiknimynda:

Af því að enskan er aðgengileg og auðveld íslenskum börnum þarf samanburðurinn á talsetningunni að vera íslenskunni í hag til að einhver nenni að horfa á þær. Þær verða að vera sjálfsagðari, skemmtilegri og jafnvel vandaðri en upprunalega útgáfan.

Íslenska á öllum sviðum

Ég veit ekki hvort allir átta sig á því að fyrir utan Færeyjar er Ísland langsamlega fámennasta málsamfélag sem heldur uppi fullburða nútímaþjóðfélagi. Vissulega er mikill meirihluti tungumála heimsins með færri málhafa en íslenska – rúm 80% tungumála hafa færri en 100 þúsund móðurmálshafa samkvæmt Ethnologue. En þau tungumál eru ekki ríkismál í nútímalegum samfélögum – eru flest aðeins notuð á afmörkuðum sviðum og eiga sér iðulega ekki ritmál.

Íslenska er hins vegar notuð á öllum sviðum – í stjórnkerfinu, í verslun og viðskiptum, í menntakerfinu, í vísindum og fræðum, í listum og menningu, í daglegum samskiptum og öllu hversdagslífi. Hún á sér þróað ritmál með langa hefð og er að öllu leyti samfélagsbært tungu­mál. Að því leyti stendur hún mjög sterkt. Færeyska er vissulega einnig notuð á flestum eða öllum sviðum færeysks samfélags en staða hennar á þeim sumum er þó talsvert veikari en staða íslensku á Íslandi.

Þótt íslenskan standi sterkt má færa rök að því að framtíð hennar fari eftir því hvort hún verður nothæf í samskiptum okkar við tölvur í framtíðinni. Það er hreint ekki sjálfgefið í svo litlu málsamfélagi.
Þótt íslenskan standi sterkt má færa rök að því að framtíð hennar fari eftir því hvort hún verður nothæf í samskiptum okkar við tölvur í framtíðinni. Það er hreint ekki sjálfgefið í svo litlu málsamfélagi. Það málsamfélag sem er næst okkur að stærð og notar tungumálið á öllum sviðum er senni­lega það eistneska. Íbúar Eistlands eru rúm 1300 þúsund en þar af hafa rúm 900 þúsund eist­nesku að móðurmáli, auk hátt í 100 þúsund sem búa utan Eistlands. Eistneska málsamfélagið er því u.þ.b. þrisvar sinnum fjölmennara en það íslenska. Þar leggja stjórnvöld mikið upp úr því að eistneska sé nothæf í tölvuheiminum.

Í því skyni var sett á fót sérstök máltækniáætlun kostuð af ríkinu árið 2006, og gildir til ársins 2017. Á þessum 12 árum er gert ráð fyrir að eistneska ríkið verji til áætlunarinnar 8.755 þúsund evrum, tæplega 1,24 milljörðum króna á núverandi gengi, eða um 100 milljónum króna að meðaltali á ári. Hér er rétt að hafa í huga að Eistland er fjarri því að vera eins ríkt land og Ísland – verg landsframleiðsla Íslands er 65% meiri á mann en Eistlands.

En það kostar jafn­mikið að tæknivæða tungumál sem 330 þúsund manns tala og mál sem ein milljón talar – eða 330 milljónir, ef út í það er farið. Í 10 ára áætlun um uppbyggingu íslenskrar máltækni sem gerð var í fyrra var einmitt gert ráð fyrir um 100 milljón króna kostnaði á ári. Það er lágmarkskostnaður okkar við að halda íslensku sem fullgildu tungumáli sem nýtist á öllum sviðum samfélagsins. Mér finnst það hræódýrt.

Hugras_hrakspa2
Tillögur í 10 ára áætlun um uppbyggingu íslenskrar máltækni
[/x_text]
Um höfundinn
Eiríkur Rögnvaldsson

Eiríkur Rögnvaldsson

Eiríkur Rögnvaldsson er prófessor emeritus í íslenskri málfræði. Undanfarin ár hefur hann einkum fengist við máltækni en hefur einnig stundað rannsóknir í samtímalegri og sögulegri setningafræði, svo og orðhlutafræði og hljóðkerfisfræði. Sjá nánar

[x_text][fblike][/x_text]

Deila