Rýni: Hvítar nætur bréfberans

[container]
Kvikmyndin Hvítar nætur bréfberans
eftir Andrei Konchalovsky

 

Skáldið og leikritahöfundurinn Anton Chekhov skrifaði af djúpstæðri depurð og kostulegum húmor um hnignun rússneska aðalsins sem sat eftir í ört breytilegum heimi á síðari hluta 19. aldar. Það er ákveðin speglun milli verka Chekhovs og þess hvernig rússneski leikstjórinn Andrei Konchalovsky lýsir í kvikmynd sinni Belye nochi pochtalona Alekseya Tryapitsyna (Hvítar nætur bréfberans) tilveru bréfbera sem býr á mörkum hins byggilega heims í Norður Rússlandi í byrjun 21. aldarinnar. Myndin, sem vann Silfurljónið á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum á þessu ári, var sýnd á rússneskum kvikmyndadögum í Bíó Paradís nú um mánaðarmótin.

Sögusvið myndarinnar er lítið þorp á bökkum Kenozero fljótsins. Hér er sögð einföld saga um líf  Lyokha (sem er leikin af raunverulegum bréfbera, Aleksey Tryapitsyn) og samfélaginu sem hann þjónar. Í upphafsatriði myndarinnar sést Lyokha fletta í gegnum nokkrar gamlar myndir sem sýna hann áberandi ölvaðan. Hann siglir á bátnum sínum yfir víðáttumikið vatnið og kemur við hjá nágrönnum og vinum með póstinn og lífeyrisgreiðslurnar,  en einnig nauðsynjar eins og brauð og ljósaperur.

Þar sem hann er hættur að drekka er rútínan mikilvægur þáttur í lífi hans. Myndatakan er alltaf eins þegar Lyokha fer á fætur á morgnana og er þannig notuð til að sýna hversu fastmótuðu lífi hann lifir. Stundum þegar Lyokha nemur staðar til þess að hlusta á síbreytileg hljóðin í náttúrunni breytast þau í tónlist, t.d. yfir í „Requiem“ eftir Verdi. Allt verður yfirnáttúrulegt. Þessi augnablik við voga vatnsins og rísandi skóginn eru áhrifamikil.

Skemmtilegar persónur eru meðal sérviturra þorpsbúa, þar á meðal gamli drykkjumaðurinn, sem kallaður er kanínan (Victor Kolobov) og nöldurseggurinn Yura (Yury Panfilov), sem segir við Lyokha: „Ef til vill ekki í dag heldur á morgun mun ég reka einhvern í gegn.“  En auðvitað meinar hann ekkert með því.

Lyokha daðrar við fallegar konur, spjallar við þær skrafhreifnu, hlustar á karlskröggana bölsótast, og er gamansamur við fyllirafta og vitleysingja.

Þetta fólk lifir í hógværð af jarðyrkju og fiskveiðum en deyfir einsemd sína með vodkanu.

Lyokha afhendir bréf til Irinu (Irina Ermolova, sem er ein af fáum faglærðum í hópnum, er í hlutverki hennar). Hann mistúlkar vingjarnlega hegðun hennar sem boð um ástarævintýri.

Hann er föðurlegur við ungan son hennar Timur (Timur Bondarenko) og kennir honum að veiða og plægja kartöflugarðinn. Lyokha fer með Timur í skemmtiferð inn eftir reyrivaxinni vík þar sem hann segir drengnum söguna af mýrarnorninni  Kikimora. Drengurinn verður viti sínu fjær af hræðslu. Þetta hjálpar þó ekki Lyokha að komast nær Irinu, sem hefur ákveðið að yfirgefa þorpið og byrja nýtt líf í borginni.

Andrei Konchalovsky hefur að mínu mati tekist mjög vel upp í þessari mynd, enda var hann lærlingur hjá sjálfum Andrei Tarkovskí. Með því að nota að mestu innfædda í stað lærðra leikara nær Konchalovsky afar sérstökum og seiðandi áhrifum.

Screen Shot 2014-11-20 at 22.06.47Vert er að geta þess að Konchalovsky dró þessa mynd út úr forvali vegna næstu Óskarsverðlauna. Hann er ekki skaplaus og vill ekkert hafa með Hollywood að gera. Í bréfi sem hann sendi rússnesku Óskarsnefndinni segist hann undanfarin ár hafa gagnrýnt mjög Hollywoodvæðingu rússneska markaðarins og að slæm áhrif komi frá amerískum kvikmyndum, sem framleiddar eru fyrst og fremst sem verslunarvara. Fáránlegt sé fyrir sig að taka þátt í keppninni um Óskarsverðlaunin. Þau séu ofmetin og ekki góður mælikvarði á gæði kvikmyndar.

Kvikmyndataka Aleksander Simonov’s á líka stóran þátt í gæðum myndarinnar. Takan í upphafi myndarinnar beint fyrir aftan höfuð Lyoka þegar hann brunar eftir spegilsléttu vatninu er til að mynda undurfalleg. Myndin var tekin með tveim stafrænum RED vélum. Simonov faldi þær í flestum tökum  til að stuðla að því að þáttakendur í atriðum tjáðu sig ómeðvituð.

Myndin flæðir áfram á ljóðrænan hátt, og er full af hlýju og andagift. Tónlist Eduard Artemyevs fléttast saman við náttúruhljóðin með köflum af kórsöng, hljómsveitartónlist- og stemningum (ambient). Tónlistin undirstrikar þannig andblæ þessarar mögnuðu myndar.

Konchalovsky er kominn aftur að rótum kvikmyndagerðarinnar, handverksins og uppskeran er kvikmynd sem hefur tvímælalausan þokka.

Sigrún Valdimarsdóttir, meistaranemi í ritlist.

[/container]

 


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *