Forsaga málsins er sú að 19. desember 2013 birti DV frétt um grein sem ég hafði fáeinum dögum áður skrifað á Hugrás, vefrit Hugvísindasviðs, og ber heitið „Egill Helgason og akademísk fræðistörf“. Í þeirri grein bregst ég annars vegar við gagnrýni Egils á skrif Guðna Elíssonar prófessors við Íslensku- og menningardeild HÍ og hins vegar við framgöngu Egils í tengslum við umfangsmikla og áralanga kæruherferð vantarúarfélaga á hendur mér sem lauk með sigri mínum 4. október 2012 þegar Siðanefnd HÍ vísaði frá fimmtu og síðustu kæru Vantrúar á þeirri forsendu að hún væri tilefnislaus. Allmargir vantrúarfélagar beindu þó áfram spjótum sínum gegn mér og skrifuðu þeir fjölda harðorðra athugasemda undir frétt DVs. Þar á meðal birti Magnús S. Magnússon þrjár athugasemdir. Í kærunni orða ég þetta svona:
Eins og sjá má í meðfylgjandi afriti af athugasemdum Magnúsar S. Magnússonar undir frétt DVs kynnir hann sig þar sem „Research professor, director hjá University of Iceland“ og vísar á Facebook síðu háskólans og eigin Facebook síðu þar sem finna má nánari upplýsingar um starf hans við háskólann. Magnús, sem kemur fram sem rannsóknarprófessor í atferlisfræði við Háskóla Íslands, segist telja að ég geti vegna starfa minna hjá háskólanum orðið umhverfi mínu „mjög skaðlegur“ og vonar „að foreldrar haldi a.m.k. saklausum börnum langt frá slíkum manni“, það beri að „forða börnum frá skaðlegum félasgskap“. Þá vísar Magnús augljóslega til mín þegar hann segist „sjá ummerki starfsemi þessa fáránlega ‘kennara’ sem ruglar fólk hér í ríminu heldur rosalega“ og sömuleiðis þegar hann segir: „Það er átakanlegt að sjá hverning fámennið hér getur orðið til þess að einn og einn rugludallur getur hér náð tökum á nemendum og öðrum sem eru nánast í tómarúmi í skelfilega einagruðu og vanþróuðu samfélagi“.
Þá vitnaði ég þar í heild í athugasemdir Magnúsar og rökstyð hvernig kæruatriðin varði þær siðareglur háskólans sem ég tel að hafi verið brotnar. Jafnframt vísa ég rökstuðningi Magnúsar á bug:
Sú staðleysa Magnúsar S. Magnússonar að miðlun menningarlegrar trúarhefðar (sem hann kýs að uppnefna „hindurvitni“) hafi oft í för með sér „mjög alvarlegan og nær ólæknanlegan heilaskaða“ réttlætir á engan hátt ærumeiðandi dylgjur hans um mig enda er hún augljóslega í alla staði fræðilega fráleit og vart hægt að bendla við vísindi. Sömu sögu er að segja um fráleitar alhæfingar hans um ofstæki, ofbeldi, villimennsku og glæpastarfsemi sem sæma engum sem leggur stund á akademísk fræði í samræmi við siðareglur háskólans.
Skýrt kemur fram að það er aðeins eitt atriði sem ég kæri Magnús fyrir eða eins og ég orða það í lok kærunnar:
Sem nemandi og stundakennari við Háskóla Íslands á því haustmisseri sem Magnús S. Magnússon birti þessi skrif sín um mig fer ég fram á það að Siðanefnd HÍ úrskurði hvort hann hafi gerst brotlegur við siðareglur háskólans með því að hafa sem rannsóknarprófessor við stofnunina mælst til þess hjá fréttavef DVs í gegnum Facebook að foreldrar haldi börnum frá mér því að félagsskapur minn sé þeim skaðlegur. Jafnframt fer ég fram á að Siðanefnd HÍ meti hversu alvarleg brotin séu og upplýsi háskólayfirvöld um það.
Í ljósi þeirrar stöðu sem Magnús gegnir innan háskólans vildi ég ekki sitja undir svona löguðu og taldi eðlilegt að háskólayfirvöldum yrði gert það ljóst hvað maðurinn væri að segja. Ég leitaði upphaflega til sviðsstjóra starfsmannasviðs í apríl 2014 en þar var mér tilkynnt skriflega um mánuði síðar að málið ætti heima hjá Siðanefnd HÍ og því sendi ég kæruna að lokum þangað eftir dágóða umhugsun. Það gerði ég vegna þess að ég taldi niðurstöðu siðanefndar hugsanlega geta orðið prófstein þegar kæmi að sambærilegum málum, hver svo sem hún yrði.
Ljóst var að siðanefnd myndi annað hvort sakfella Magnús, sýkna hann eða vísa málinu frá. Ef Magnús yrði sakfelldur á grundvelli siðareglna háskólans gætu starfsmenn hans ekki komið fram opinberlega með ámælisverðar yfirlýsingar af því tagi sem hann gerði. Þó svo að slík niðurstaða kæmi mér vel í þessu máli yrði hættan þó alltaf sú að refsiglaðar siðanefndir misskyldu hlutverk sitt og sköðuðu háskólasamfélagið með aðgerðum sínum, fremur en bættu það. Ef Magnús yrði sýknaður yrði ekki lengur hægt með góðu móti að leggja fram kærur til siðanefndar vegna skrifa eða orða starfsmanna háskólans um menn og málefni. Sömu sögu væri að segja ef kærunni yrði vísað frá á þeirri forsendu að hún varði ekki siðareglur háskólans, sé tilefnislaus eða eigi heima hjá dómstólum því að með slíkri frávísun hefði siðanefnd markað þá stefnu að mál af þessu tagi eigi ekki heima hjá henni.
Ljóst var að áhættan fyrir mig að kæra málið var engin. Sjálfur hafði ég enga trú á því að Magnús yrði sýknaður en vonaðist til að hann yrði annað hvort sakfelldur eða að málinu yrði vísað frá á þeirri forsendu að það ætti heima hjá dómstólum. Síðast nefnda kostinn taldi ég vænlegastan fyrir háskólasamfélagið og vildi því með kæru minni láta reyna á það.
Þessi ákvörðun Siðanefndar HÍ er mikilvæg fyrir háskólasamfélagið því að nú vita háskólastarfsmenn hversu vítt tjáningarfrelsi þeirra er gagnvart henni. Sömuleiðis er ákvörðunin mikilvæg fyrir kærendur því að nú er ljóst að mál af þessu tagi eiga ekki heima hjá siðanefnd heldur fyrir dómstólum telji þeir að vegið hafi verið að mannorði sínu. Ákvörðun Siðanefndar HÍ veitir fordæmi sem líklega ber ekki að harma ef ákvörðunin verður gerð að almennri reglu.
Að hverfa inn í annan heim
26. september, 2023Ásta Kristín Benediktsdóttir, lektor í íslenskum samtímabókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands fjallar um sýninguna Með Guð í vasanum eftir Maríu Reyndal sem sýnd er í Borgarleikhúsinu.Ritið:2/2023. Kynjahugmyndir, menning og trúarbrögð
21. september, 2023Þrjú víðfeðm hugtök vörðuðu veginn að áhugaverðum þemagreinum sem birtast í öðru hefti Ritsins sem nú er komið út. Það eru hugtökin kynjahugmyndir, menning og trúarbrögð.„Ég hef ákveðið að hætta að skilgreina mig sem kven-eitthvað eða karl-eitthvað“
12. september, 2023Unnur Steina K. Karls, meistaranemi í almennri bókmenntafræði, skrifar um kynseginleika í íslenskum skáldsögum.Deila
Comments
Þeir sem vilja fræðast nánar um þau kærumál Vantrúar sem ég vísa í hér fyrir ofan ættu að kynna sér eftirtaldar greinar:
Börkur Gunnarsson: „Heilagt stríð Vantrúar.“ Morgunblaðið. 4. desember 2011. Vefur: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/12/04/heilagt_strid_vantruar/
Dögg Harðardóttir: „Ósigur Vantrúar. Kæruherferðin gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara í HÍ.“ Bjarmi. September 2013. Vefur: https://www.academia.edu/6020719/Ósigur_Vantrúar_Kæruherferðin_gegn_Bjarna_Randveri_Sigurvinssyni_stundakennara_í_HÍ
Guðni Elísson: „Í heimi getgátunnar. Kærur Vantrúar, glæra 33 og Egill Helgason.“ Tímarit Máls og menningar. Hefti 4. 2012. Vefur: https://www.academia.edu/4316001/Í_heimi_getgátunnar_Kærur_Vantrúar_glæra_33_og_Egill_Helgason_TMM_4_2012_
Bjarni Randver Sigurvinsson: „Brautryðjandinn Helgi Hóseasson. Áhrif mótmælanda Íslands á aðgerðarsinna í þágu guðleysis.“ Tímarit Máls og menningar. Hefti 4. 2012. Vefur: https://www.academia.edu/6017694/Brautryðjandinn_Helgi_Hóseasson_Áhrif_mótmælanda_Íslands_á_aðgerðarsinna_í_þágu_guðleysis
Þeir sem vilja fræðast nánar um kærumál Vantrúar sem vísað á er hér fyrir ofan ættu að kynna sér greinarnar hér: http://www.vantru.is/haskolinn/
Nú hefur Magnús verið kærður þrisvar af ykkur í guðfræðideildinni (og auk þess var einn meðlimur Vantrúar kærður áður en allt þetta hófst). Er þessari kæruherferð ykkar í guðfræðideildinni lokið?
Það er munur á tilefnislausum kærum eins og í tilfelli Vantrúar og kærum sem raunverulegt tilefni er fyrir. Siðanefnd HÍ úrskurðaði kæru Vantrúar tilefnislausa á sínum tíma. Hvað þetta nýja mál varðar þá leitaði ég fyrst til sviðsstjóra starfsmannasviðs en þar var mér tilkynnt að málið ætti heima hjá siðanefnd háskólans. Það er ekkert óeðlilegt við slíkt ferli. Kærumál mitt er Guðfræði- og trúarbragðafræðideild óviðkomandi og þar vissu fæstir einu sinni um það fyrr en eftir á. Kvörtun Péturs Péturssonar prófessors til rektors út af mikið til allt öðru er sömuleiðis Guðfræði- og trúarbragðafræðideild óviðkomandi og einnig mér.
>Kærumál mitt er Guðfræði- og trúarbragðafræðideild óviðkomandi ….
Kærumál þín (í fleirtölu). Fyrst kæra til sviðsstjórans, síðan kæra til siðanefndar. Svo kærði Pétur hann til rektors. Þrjár kærur allt í allt. (fyrir utan kærur fyrir mál Magnúsar).
Og það var fullt tilefni fyrir kærum Vantrúar.
Ég skil vel að þetta komi þér úr jafnvægi, Hjalti Rúnar. Þið vantrúarfélagar hafið nefnilega árum saman haldið því sama fram og Magnús S. Magnússon gerir. Þið hafið ótal sinnum kallað þá barnaníðinga sem miðla trú til barna og unglinga á þeirri forsendu að slíkt sé barnaníð. Jafnvel þeir sem verja rétt manna og trúfélaga til að gera slíkt hafa með þeim hætti verið sagðir skaðlegir börnum.
Hvað bendir til þess að Hjalti hafi ekki verið í jafnvægi?
> Þið hafið ótal sinnum kallað þá barnaníðinga sem miðla trú til barna og unglinga á þeirri forsendu að slíkt sé barnaníð.
Hversu oft er „ótal sinnum“?
Og hvað kemur þetta umræðunni hér við?
Ég hef svarað athugasemd vantrúarfélagans Matthíasar Ásgeirssonar hér:
http://www.hugras.is/2015/02/vantru-um-barnanid/
>Ég skil vel að þetta komi þér úr jafnvægi, Hjalti Rúnar. Þið vantrúarfélagar hafið nefnilega árum saman haldið því sama fram og Magnús S. Magnússon gerir. Þið hafið ótal sinnum kallað þá barnaníðinga sem miðla trú til barna og unglinga á þeirri forsendu að slíkt sé barnaníð.
Komi mér úr jafnvægi? Ekki vera að geta þér til um andlegt ástand mitt Bjarni.
Ég man nú ekki eftir því að ég hafi nokkurn tímann kallað „þá barnaníðinga sem miðla trú til barna og unglinga á þeirri forsendu að slíkt sé barnaníð“.
>Kvörtun Péturs Péturssonar prófessors til rektors út af mikið til allt öðru er sömuleiðis Guðfræði- og trúarbragðafræðideild óviðkomandi og einnig mér.
Bjarni, af hverju kallarðu þetta „kvörtun“ en ekki kæru?
Nei, ég fékk ekki svar við spurningunni:
> Hversu oft er ótal sinnum?
Ég er engu nær.
Ég fékk ekki heldur svar við spurningunni:
> Hvað bendir til þess að Hjalti hafi ekki verið í jafnvægi?
Ég er engu nær.
Og tal þitt um þá sem „miðla trú til barna“ sýnir öllum nema verstu ofstækismönnum á hverju málflutningur þinn byggir og að þú ert óhæfur til að fjalla um félagið Vantrú með heiðarlegum hætti. Vantrú hefur aldrei gagnrýnt að trú séð „miðlað“ í formi kennslu um trúarbrögð. Umræðan snýst um trúboð (kristniboð) í leik- og grunnskólum.
Þetta veistu vel Bjarni Randver en samt kýstu að afvegaleiða umræðuna með þessum hætti.
Eða kannski er það Guðni sem gerir það, ég veit það aldrei.
Matthías, trúboð felst í miðlun trúar. Þið vantrúarfélagar hafið ítrekað gagnrýnt slíka miðlun til barna og m.a. talað um barnaníð í því sambandi. Eins og sjá má af grein minni „Vantrú um barnaníð“ einskorðast þessi gagnrýni ykkar ekki við það sem þú kallar „trúboð (kristniboð) í leik- og grunnskólum“. Ég minnist þess samt ekki að hafa nokkurn tímann haldið því fram að Vantrú sé á móti því sem félagið kallar kennslu um trúarbrögð. Hér reynir þú sem fyrr að afvegaleiða umræðuna.
Annars er svar félaga þíns og ábyrgðarmanns vefs Vantrúar, Birgis Baldurssonar, við þessari grein minni upplýsandi. Hann skrifar í umræðuþráðinn fyrir neðan hana: „Þetta tal okkar um barnaníð er non-issue. Það er enginn að reyna að sverja það af sér að hafa notað það hugtak í greinaskrifum og umræðunni, jafnvel ítrekað. Það að þú skulir gera þetta að einhverju tilefni til greinaskrifa, einhverja litla athugasemd Matta um fyrirbærið “ótal sinnum” sýnir aðeins að þú reynir hvað þú getur að koma höggi á okkur. Vel má vera að einhverjir hneykslist á því hvað við höfum oft notað orðið barnaníð í ræðu og riti og þá er tilgangi þínum náð. En barnaníð er þetta nú samt (sbr. Galileo; “en hún snýst nú samt). Ég hef notað hugtakið og ætla að nota það áfram þegar tilefni er til. Það er því af og frá að ég sé eitthvað að reyna að beina athyglinni frá því og umræðunni annað, af því að ég sé eitthvað að skammast mín fyrir þetta. Öðru nær, mér finnst þetta svo mikill tittlingaskítur að ég nenni ekki einu sinni að ræða það.“
http://www.hugras.is/2015/02/vantru-um-barnanid/