[container]
Hin heimskunna bandaríska skáldkona Amy Tan er væntanleg til landsins í september í tengslum við ráðstefnuna Art in Translation. Mun hún halda fyrirlestur um verk sín í Norræna húsinu föstudaginn 19. september. Amy er íslenskum lesendum að góðu kunn því fjórar af skáldsögum hennar hafa verið þýddar á íslensku, Leikur hlæjandi láns, sem verður endurútgefin í tengslum við komu Amyar, Kona eldhúsguðsins, Dóttir himnanna og Dóttir beinagræðarans. Í fyrra kom út ný skáldsaga eftir hana, The Valley of Amazement og verður hér fjallað stuttlega um hana sem og um kunnustu bók Amyar, Leik hlæjandi láns.Öguð og listræn
Amy Tan er rithöfundur sem sýnir okkur í tvo heima, þann kínverska og þann ameríska, enda fædd kínverskum innflytjendum í Kaliforníu. Þótt hún telji sig ósköp venjulegan bandarískan ríkisborgara er hún gjarnan spyrt sérstaklega við hið kínverska þjóðarbrot og sögð kínversk-amerískur rithöfundur. Það er henni hins vegar mjög á móti skapi, hún vill vera virt sem rithöfundur án slíkra takmarkana, enda sé hún ekki að skrifa sérstaka bókmenntagrein. Hún frábiður sér líka þá ábyrgð að vera gerð að talsmanni heils þjóðarbrots, óttast að slík einskorðun leiði til þess að bækur hennar verði fremur lesnar sem sögulegar heimildir en sem listaverk.
Fyrsta bók Amyar, Leikur hlæjandi láns, kom út árið 1989 og var tilnefnd til nokkurra virtra verðlauna, þar á meðal The National Book Award og National Book Critics Circle Award, þó að ekki hreppti hún þau, heldur nokkur minni verðlaun. Bókin er óvenjuleg að byggingu, því hún hverfist um átta jafnréttháar persónur, fernar mæðgur. Hver móðir og hver dóttir fær tvo kafla til umráða, þannig að farnar eru tvær umferðir. Dæturnar eru allar fæddar í Bandaríkjunum, en mæðurnar í Kína þar sem ein þeirra stofnaði Klúbb hlæjandi láns á tímum byltingarinnar. Klúbburinn var henni og vinkonum hennar afdrep í óhugnaðinum miðjum, þær komu saman til að spila mah-jong, borða og síðast en ekki síst til að hlæja yfir láni sínu og því var félagsskapurinn kallaður Hlæjandi lán. Hann verður þeim einnig afdrep í Bandaríkjunum, afdrep innflytjenda sem aldrei samlagast nýju þjóðfélagi að fullu.
Leikur hlæjandi láns er öguð bók. Hún er þaulskipulögð í kringum fjórar tvenndir og því einkennist hún af mikilli tvíhyggju. Átakalínurnar eru eftir því vel skilgreindar: í gegnum Klúbb hlæjandi láns takast á Bandaríkin og Kína, mæður og dætur, nútíð og fortíð, jafnt í formi bókarinnar sem inntaki. Hver kafli eða saga er lítill smíðisgripur sem auðsýnilega hefur verið nostrað við og felur í sér sértæka sögu sem um leið talar til okkar allra.
Stór og flæðandi
Sömu átakalínur er að finna í The Valley of Amazement sem er aftur á móti stór og flæðandi skáldsaga, óöguð í forminu í samanburði við Leik hlæjandi láns. Eftir að hafa róið á önnur mið í bókinni á undan, Saving Fish from Drowning (2005), hverfur Amy aftur að eftirlætisviðfangsefni sínu, samskiptum mæðgna. Í Dal undranna, eins og kalla mætti bókina á íslensku, fellur hvít bandarísk kona fyrir kínverskum listmálara og fylgir honum til Shanghai. Þar eignast hún tvö börn með þeim kínverska sem kvænist aftur á móti kínverskri konu sem foreldrar hans höfðu valið handa honum; ást og bandarísk útsjónarsemi mega sín lítils gegn aldagömlum kínverskum siðum. Í kjölfarið gerir fjölskyldan sveinbarnið upptækt en söguna segir hins vegar dóttirin Violet að mestu leyti. Violet lýsir lífinu í gleðihúsi sem móðir hennar hefur sett á laggirnar til að framfleyta sér í Shanghai. Hún leikur sér við köttinn sinn og gægist á pörin sem gamna sér í herbergjum gleðihússins. Nei, nei, Amy Tan er ekki lent í gráum skuggum; það er lítil sem engin munúð í Dal undranna þótt holdsins fýsnir leiki þar stórt hlutverk.
„Þegar ég var sjö ára, vissi ég nákvæmlega hver ég var: al-amerísk stúlka hvað kynþátt, siði og tungumál snerti, dóttir Lulu Minturn sem var eina hvíta konan sem átti fyrsta flokks gleðihús í Shangai,“ segir Violet í upphafi bókarinnar. Sjö árum síðar, nánar tiltekið árið 1912, kemur viðmótsþýður maður, Lu Shing að nafni, í heimsókn og þá kemst Violet að því að hann er faðir hennar. Hún þarf þess vegna að endurskoða skilgreininguna á sjálfri sér: hún er sem sagt kínversk að hálfu. Það er henni nokkurt áfall því hún hafði verið allupptekin af bandarískum uppruna sínum.
Þannig virðist bókinni vera ætlað að snúast um uppruna og þjóðerni en meginþungi hennar liggur þó miklu frekar í samskiptum kynjanna, einkum á kínverskri grundu. Amy segir á heimasíðu sinni að bókin sé ekki um sig, er í mun að árétta það út af umfjöllunarefninu, hún hafi þvert á móti lagst í miklar rannsóknir. Það að að bókin skuli byggja á rannsóknum gerir hana að athyglisverðri úttekt á sambúð kynjanna og þá ekki síst með tilliti til kynlífs. Þarna eru sýndir ýmsir fletir á kynferðislegu sambandi, allt frá íhaldssömum hjónaböndum í Bandaríkjunum til fjölkvænis Kínverja og viðskipta þeirra við vændiskonur. Í bókinni er dregin upp mynd af kúguðum eiginkonum og hjákonum, svo kúguðum að þær geta varla talist sjálfstæðar manneskjur, heldur eru þær í fjötrum miskunnarlausra hefða.
Allt er þetta gert í gegnum sögu sem spannar áratugi. Sögusviðið teygir sig milli Kaliforníu og Kína og sviptingarnar í framvindunni eru margar. Á köflum fer sagan nánast inn í heim goðsögunnar, ekki síst þegar Violet ákveður að giftast einum kúnnanum og ferðast langt inn í land til heimaþorps hans. Þar fer hún aftur í fortíðina sem sást í hillingum á landslagsmyndinni sem bókin heitir eftir. Myndina málaði faðir Violet og hafði hún talsverð áhrif á þá ákvörðun móður hennar að elta hann til Kína. Lu Shing hafði hins vegar aldrei komið í dalinn á myndinni heldur málað hann myndina eftir öðru málverki, bætti reyndar inn gylltum dal. Myndin er því tálsýn sem konurnar í bókinni þurfa að laga sig að og sætta sig við enda er fátt eins og sýnist í þessum sagnaheimi. Móðir Violet, sem við höldum lengi vel að hafi svikið hana með því að skilja hana eftir í Kína þegar hún fer að leita sonar síns í Kaliforníu, reyndist þvert á móti vera fórnarlamb svikahrappa sem selja Violet í vændi. Höfundur sér ástæðu til þess að ítreka þetta með því að skrifa nokkra tugi síðna þar sem móðirin gerist óvænt sögumaður. Þá kemur í ljós að móðirin hafði gert uppreisn gegn foreldrum sínum og þurft að súpa seyðið af því.
Dalur undranna geymir aðskilnaðarminnið sem er svo áhrifamikið í mörgum bóka Amyar. Harmleikur af einhverju tagi verður til þess að mæður og dætur skiljast að. Ein móðirin í Leik hlæjandi láns neyðist til að skilja tvær dætur eftir við vegarkant í Kína vegna stríðsátaka, flytur síðar til Bandaríkjanna án þeirra. Drifkraftur sagnanna miðar síðan að því að þær nái saman á ný. Þetta tengist líka innflytjendaþemanu sem er gegnumgangandi í verkum Amyar. Í The Valley of Amazement má segja að hún snúi því við – í stað þess að fjalla um kínverska innflytjendur í Bandaríkjunum fer hún með Bandaríkjamenn til Kína. Í báðum tilfellum skapast mikil menningarleg togstreita sem segir til sín í örlögum sögupersónanna.
Hversdagsleikinn undirstrikaður
21. November, 2024Nýpússaður Spegill íslenskrar fyndni
18. November, 2024Kvikmyndagerð og Molotov-kokteilar: Ferilsaga Dunu
30. October, 2024Deila
[/container]
Leave a Reply