[container]
Jón Steingrímsson eldklerkur (1728–1791) á Prestsbakka á Síðu hefur verið í sviðsljósinu að undanförnu og það jafnvel í bókstaflegri merkingu rúmum 220 árum eftir dauða sinn. Vissulega er hann persóna úr sögu þjóðarinnar sem verðskuldar að hans sé minnst. Hann stóð stranga vakt á einu mesta hörmungarskeiði sem yfir landið hefur gengið í Skaftáreldum og móðuharðindunum sem fylgdu í kjölfarið. Á þeim tíma tók hann sjálfstætt frumkvæði til að styrkja og styðja sóknarbörn sín auk þess að mæla yfir moldum allra þeirra sem létust og hugga hina sem eftir lifðu. Þannig mætti hann hinum fjölþættu kröfum sem gerðar voru til sálusorgara á neyðartímum. Líklega var Jón allt í senn Almannavarnirnar holdi klæddar, eins manns hjálparsveit og stuðningsfulltrúi sem veitti áfallahjálp. Auk þess að tengjast þannig beint einu dramatískasta tímabili þjóðarsögunnar sker Jón Steingrímsson sig úr fjöldanum með því að hafa látið eftir sig nærgöngul og opin sjálfsskrif, ævisögu sína, sem komið hefur út í þremu útgáfum (1913, 1945 og 1973). Getur verið að Hrunið hafi að einhverju leyti vakið athygli á eldklerkinum og samtíð hans?Skáldasagan um Jón
Haustið 2010 kom út Skáldsaga um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur og undirbjó komu hennar & nýrra tíma (Reykjavík: Mál og menning). Þar spinnur höfundurinn, Ófeigur Sigurðsson, á hugvitsamlegan hátt þráð sem hann sækir til ævisögunnar nánar til tekið kap. XXV–XXVII (13 bls. í ævisögunni móti 213 bls. í skáldsögunni!) og er sagan að því leyti heimildasaga. Ófeigur fylgir vel lýsingu Jóns á ferð hans ásamt Þorsteini (d. 1794) bróður sínum, síðar bónda í Kerlingardal í Mýrdal, og Jóni Þorgeirssyni vinnumanni úr Skagafirði og suður Kjöl um veturnætur 1755 uns þeir settust að Hellum í Mýrdal. Þar voru eignarjarðir sjúpbarna Jóns, þ.e. barna Þórunnar Hannesdóttur (Scheving) (d. 1784) og fyrri manns hennar, Jóns Vigfússonar (d. 1752) klausturhaldara á Reynistað í Skagafirði. Með flutningi suður hugðist Jón flýja harðindi norðanlands en auk þess þann þráláta orðróm að þau Þórunn hefðu orðið klausturhaldaranum að bana skömmu áður sökum óreglu hans og heimilisofbeldis en Jón Steingrímsson hafði verið djákni á staðnum. Hvað byggingu áhrærir skiptist skáldsagan eins og ráða má af titlinum í 27 bréf sem Jón ritar konu sinni. Þannig verður hún að stórum hluta hugflæði Jóns er hann tjáir konu sinni hug sinn en segir henni jafnframt hvað á daga hans drífur.
Hið frjálsa framlag Ófeigs Sigurðssonar hefst fyrir alvöru þegar Jón er sestur að í Hellum. Sjálfur segir hann svo frá í ævisögunni:
Þá ég nú eftir veturnætur 1755 settist að í Hellum, fékk Einar [Eiríksson, „umboðsmaður“ Jóns] mér til íveru skemmukofa fyrir vestan bæjardyr. Hún var höggvin inn í bergið, en ég bjó hana svo stóra inn lengra í bergið, að ég kom þar fyrir rúmi mínu, borðkorni og bekk og öllu því, er meðferðis hafði, og vorum við þar bræður báðir um veturinn og áttum þar bezta og rólegasta líf (Jón Steingrímsson, Ævisagan og önnur rit, Kristján Albertsson gaf út, Reykjavík: Helgafell, 1973, bls. 127).
Út af þessu stefi leggur Ófeigur er hann lætur Jón hola suðurodda landsins að innan og breyta honum ekki aðeins í híbýli fyrir sjálfan sig, heldur lærdómssetur, sjúkrahús og ljósvita fyrir sæfarendur, heilan heim sem horfir til framfara og upplýsingar. Þar ganga einnig helstu umbótamenn Íslands ljósum logum, Skúli fógeti Magnússon (1711–1794), Eggert Ólafsson (1726–1768) og Bjarni Pálsson (1719–1779) en úti fyrir geysa Kötlueldar líkt og fyrirboði þess sem koma skal tæpum 30 árum síðar. Skúli kom mjög við sögu Jóns til ills og góðs og þeir Jón og Bjarni voru persónulegir vinir. Eggert virðist Jón þó aðeins hafa þekkt sem rithöfund og skáld. Rannsókarleiðangur Eggerts og Bjarna stóð einmitt yfir 1752–1757 en ekkert bendir til að neinn þeirra hafi komið í skemmuna til Jóns í Mýrdalnum veturinn 1755. Með samskiptum við þá er Jóni aftur á móti skipað í hóp helstu athafnaskálda landsins þar sem hann á ýmsan hátt á heima.
Sá söguheimur sem Ófeigur byggir upp í bréfunum er heillandi og miðlar ævistarfi Jóns í hnotskurn eins vetrar. Þá hæfir málfar og hófstilltur lítið eitt fyrndur stíll bréfanna efninu. Úr verður hugljúfur lestur þar sem sögulegt efni er hagnýtt á skapandi hátt.
Eldklerkur Möguleikhússins
Eldklerkurinn í leikgerð Péturs Eggerz sem frumsýnt var á vegum Möguleikhússins í nóvember 2013 er að sínu leyti hreinræktaðra heimildaverk en saga Ófeigs Sigurðssonar að þar er ævisagan rakin í heild og auk þess stuðst við eldrit Jóns eða Fullkomið skrif um Síðueld frá 1788. Uppfærsla Péturs Eggerz (og Sigrúnar Valbergsdóttur leikstjóra) er þó alls ekki flöt endursögn heldur hefst verkið og lýkur með sömu senunni þar sem Jón Steingrímsson tekur út refsingu á alþingi 1786. En hann hafði hann verið dæmdur til að reiða af hendi 5 ríkisdala sekt og að biðjast opinberlega fyrirgefningar fyrir að hafa vikið frá fyrirmælum stiftamtmanns um meðferð „viðlagasjóðs“ er honum hafði verið falið að flytja frá Bessastöðum á hamfarasvæðið. (bls. 198–200, 205–218). Dómurinn var að frumkvæði H. C. D. V. von Levetzow sem hér var stiftamtmaður 1785–1789. Um hann segir Magnús Ketilsson (1732–1803) að hann hafi haft „góðar sinnisgáfur“ og verið „fljótskarpur“ en heldur áfram: „En hans stoltu hissugheit gjörðu það, að honum missýndist margt og stundum mistókst, ekki so af ásetningi, sem af fljótræði.“ (Stiftamtmenn og amtmenn á Íslandi 1750 til 1800, Þorkell Jóhannesson bjó til prentunar, Reykjavík: Sögufélag, 1948, bls. 35) Þannig varð Jón eins og fram kemur í verkinu eini einstaklingurinn sem tók út refsingu í kjölfar hörmunganna í Síðueldum en hélt þó mannorði sínu trausti Hannesar Finnssonar (1739–1796) biskups, sem þó fær ekki að öllu leyti góð ummæli í ævisögunni. Vera má að hér sé komin ein helsta ástæða þess að Jón tók að rita sögu sína auk orðrómsins um sviplegan dauðdaga klausturhaldarans. (Matthías Viðar Sæmundsson, „Upplýsingaröld 1750–1840“, Íslensk bókmenntasaga III, ritstj. Halldór Guðmundsson, Reykjavík: Mál og menning, 1996, bls. 125)
Með þessari áherslu er einstaklingi teflt fram gegn kerfinu, frumkvæði og persónulegum viðbrögðum gegn hlýðni, réttlæti gegn skriffinnsku. Ljær þetta verkinu boðskap. Þá má finna í því vísanir til samtímans í fleygum frösum eins og „Maybe I should have“ og „Guð blessi Ísland“! Hvort tveggja, endurtekin niðurlægingarsenan og frasarnir, gefur sýningunni brodd sem einnig mátti lesa út úr handarhreyfingu leikarans á réttum stöðum! — Eftir stendur umhugsunarverð útgáfa af sjálfsævisögu eldklerksins.
Pétur bregður sér í fjölmörg hlutverk í sýningunni auk þess sem hann er sögumaður sem tengir einstaka þætti verksins saman. Vissulega má segja að persónurnar séu staðlaðar eftir tveimur fyrirmyndum: mýrdælskum hjárænulegum kotbónda og dönskum, pepíulegum höfðingja. Stöðluninni hjálpar þó ef til vill til við að draga aðalpersónuna, eldklerkinn, betur fram og leggja meiri dýpt í persónu hans.
Sýningin er sniðinn að því að vera farandsýning, sviðbúnaður er því í lágmarki en nýtist vel (verk Rósu Sigrúnar Jónsdóttur). Það vakti þó athygli mína á sýningunni hve áberandi var að leikarinn sneri baki við flestum áhorfendum er hann var í gerfi Jóns sjálfs og talaði við ímyndaðan viðmælanda eða mótleikara úti í horni. Þetta kann að stafa af því að verkið hafi verið æft inn í öðru vísi rými en það sem notað var þegar ég sá sýninguna. Það var vel að merkja í menningarhúsinu Hlöðunni í Litla-Garði skammt framan Akureyrar. Rýmið er hrátt og frumstætt (í góðri merkingu) og gefur frumlegum listamönnum ýmsa möguleika til uppfærslna.
Menningarhúsin og menningin
Svo virðist sem tilkoma Hörpu fyrir sunnan og Hofs fyrir norðan ætli að skapa ýmis konar vanda í menningar- og listalífinu þegar um er að ræða viðburði sem ekki eru líklegir til að þjóna sem kassastykki eða draga af öðrum ástæðum fjölda fólks á staðinn. Getur hugsast að stóru menningarhúsin verði til að markaðsvæða sviðlistirnar? Nú lítur til dæmis svo út að Hof muni að minnsta kosti óbeint og hugsanlega tímabundið verða ein af ástæðum þess að sjálfstæðar uppfærslur leikverka með atvinnufólki leggist af og aftur verði horfið í það far er Þjóðleikhúsið eða LR ferðuðust um landið og buðu upp á sýnishorn að leikárinu. Það væri stórt skref afturábak eftir frjótt tímabil atvinnuleikhúss í höfuðstað Norðurlands.
Illt er að binda ást við þann…
2. January, 2025Hversdagsleikinn undirstrikaður
21. November, 2024Nýpússaður Spegill íslenskrar fyndni
18. November, 2024Deila
[/container]
Leave a Reply