[container]
Eftir því sem ég kemst næst hófst kennsla í listrænum skrifum fyrst við Iowaháskóla í Bandaríkjunum á fjórða áratug síðustu aldar. Þeirri kennslu hefur verið haldið áfram allar götur síðan og nemar þeirra Iowamanna hafa nú unnið til fjölda verðlauna í Bandaríkjunum og víðar. Nú er svo komið að kennsla af þessu tagi er stunduð víða um heim. Um 2.400 háskólar í Norður-Ameríku bjóða upp á nám í ritlist, auk fjölda skóla í Bretlandi og Ástralíu. Á Norðurlöndum eru líka allmargir skólar, Danir hafa t.d. komið sér upp virtum skóla, Forfatterskolen, og eru útskriftarnemar hans fyrir nokkru farnir að setja svip á bókmenntalífið þar í landi. Einnig má finna skóla í Frakklandi, Þýskalandi, Spáni, Póllandi, Suður-Afríku, Singapore og Hong Kong.
Á ensku er vanalega talað um creative writing í þessu sambandi. Danir og Norðmenn tala um kreativ skrivning, Svíar um kreativ skriving, Þjóðverjar um kreatives Schreiben, Spánverjar um escritura creativa, Pólverjar tala um twórcze pisanie eða kreatywne pisanie, Frakkar tala hins vegar um métiers d’écriture eða sletta enska hugtakinu.
Í öllum þessum löndum er hugtakið étið meira og minna beint upp eftir Bandaríkjamönnum. Og viti menn, hugtakið skapandi skrif virðist hafa komist á flot í íslensku ritmáli upp úr 1980 ef marka má timarit.is. Árið 1984 er t.d. auglýst námskeið með þessum titli í Tómstundaskólanum.
Þegar fyrst var farið að leiðbeina fólki um listræn skrif við Háskóla Íslands, það var árið 1987, var hins vegar ekki talað um námskeið í „skapandi skrifum“ heldur í ritlist. Það var Njörður P. Njarðvík, prófessor í íslensku, sem lagði til að orðið ritlist yrði notað um þessa námsgrein. Hann afskrifaði hitt hugtakið, sem er augljóslega bein þýðing á „creative writing“, með þeim rökum að skrif væru ekki skapandi heldur sá eða sú sem skrifaði, enda er stundum talað um skapandi listamenn.
Enn tölum við um ritlist í þessu sambandi við Háskóla Íslands. Við bjóðum upp á námskeið í ritlist bæði í grunnnámi og meistaranámi. Orðið finnst okkur sjálfsagt og eðlilegt í fylkingu sambærilegra orða: tónlist, myndlist, leiklist. Skapandi skrif hafa vissulega náð fótfestu í málinu, en hjá okkur eru það hins vegar nemendurnir sem eru skapandi í skrifum sínum.
Saga alþýðukonu og ögrandi kvenskörungs
7. June, 2024Það er ekkert lengur til!
3. May, 2024Nú er frost á Fróni
6. March, 2024Deila
[/container]
Leave a Reply