[container]

Um höfundinn

Margrét Guðmundsdóttir

Margrét Guðmundsdóttir er verkefnisstjóri á Hugvísindasviði HÍ. Sjá nánar

Það styttist í jólin. Ég er svo heppin að hafa mikið að gera á aðventunni við undirbúning. Ég er nefnilega svo heppin að bæði í minni eigin stórfjölskyldu og tengdafjölskyldunni er skipst á gjöfum. Háir sem lágir. Mér finnst gaman að gefa og mér finnst gaman að fá gjafir. Svo á ég vini sem ég sendi jólakort og fæ kort frá þeim í staðinn. Mér finnst tilheyra að opna jólakortin á aðfangadagskvöld meðan maðurinn minn vaskar upp sparistellið sem má ekki fara í uppþvottavél. Þá gefst tækifæri til að láta hugann hvarfla til gamalla vina og frændfólks sem ég hitti of sjaldan, eins og þeir nefna einmitt oft í þessum kortum. Ég er líka svo heppin að eiga fjölskyldu sem ég eyði jólunum með. Þá tilheyrir meðal annars að hafa meira við en venjulega í mat. Við erum svo heppin að geta það. Svo vil ég hafa sæmilega hreint heima hjá mér um jólin. Ég er ekki mjög kröfuhörð í þeim efnum svona almennt en hækka standardinn aðeins á þessari hátíð. Mismikið, en alltaf eitthvað. Mér finnst það tilheyra. Að auki vil ég að við séum öll í skárri görmum en venjulega um jólin. Ég er íhaldssöm og nýt þess að sjá fjölskylduna í sparifötum. Allir eiga að vera fínir og hreinir – „Ég fer alltaf í bað fyrir jólin, hvort sem ég þarf þess eða ekki,“ eins og kellingin sagði.

Allt þetta krefst undirbúnings. Það er að minnsta kosti reynslan á mínu heimili. Það opnar enginn jólagjafir nema einhver hafi keypt eða búið til jólagjafir, borðar enginn hátíðamat sem ekki var hugsað fyrir, gleðst enginn sparibúinn við jólatré á hreinu og skreyttu heimili nema einhver hafi tekið til hendinni. Það þarf að gera margt á stuttum tíma. Ég er nú samt frekar praktísk kona, svona á sumum sviðum, þannig að ég á það til að kaupa fyrstu jólagjafirnar í janúar. Það hefur þann ókost, þrátt fyrir jólagjafabókhald í excel-skjali – já, ég er í alvöru með svoleiðis – að stundum kaupi ég fleiri en eina handa þeim sama. Til lengri tíma litið jafnast það út. Við eigum samt alltaf eftir að kaupa einhverjar í desember. Mér finnst það eiginlega nauðsynlegt, svona upp á stemninguna. Jólagjafastússið þykir mér skemmtilegast fyrir jólin. Hitt er satt að segja ekki eins skemmtilegt. Mér finnst til dæmis ekkert sérstaklega gaman að baka. Mér fannst það einu sinni, en svo varð ég leið á því. Samt baka ég svona tvær til þrjár sortir af smákökum, brúna lagköku með kremi og rabarbarsultu og ljósa lagköku sem á æskuheimili mínu var nefnd eftir sumarhátíð sveitarinnar og kölluð Álfaskeiðsterta. Mamma bakar hana líka alltaf fyrir jólin. Ég nota samt ekki sömu uppskrift og hún. Mín er betri. Mér finnst rétt að nefna það því að þetta er eina uppskriftin sem ég á og er betri en hennar. En þó að mér finnist frekar leiðinlegt að baka þá er eitthvað skemmtilegt við þetta, því að afraksturinn er hluti af því að gera jólin að því sem þau eru. Gera þau öðruvísi en hversdaginn, halda í hefðirnar í bland við nýjungar. Eins er með þrifin. Almáttugur hvað mér finnst leiðinlegt að þrífa. Samt hef ég bónað á Þorláksmessu. Ekki af því að mér fyndist að ég ætti að gera það heldur af því að mig langaði til að hafa bónað stofugólf um jólin. Mig langaði til að bóna. Stundum nenni ég ekki að bóna og þá geri ég það ekki. En ég þríf alltaf meira en venjulega.

Og svo eru það fötin. Meðan börnin eru að stækka er ekki sjálfgefið að allir eigi alltaf nothæf spariföt. Buxurnar eru áður en við er litið komnar upp á kálfa. Hér á árum áður var nóvember gjarna saumamánuður. Þetta var óttalegt puð. Ég er enginn saumasnillingur og átti það til að setja ermina í á röngunni. Það er engin lífsnautn að rekja upp og sauma aftur, sikksakka og festa tölur, en þrátt fyrir það var eitthvað svo gaman að búa til falleg föt á þau. Það veitti mér gleði. Mér fannst gaman að sjá börnin mín prúðbúin í einhverju sem ég hafði búið til. Nú eru eldri börnin farin að sjá um þetta sjálf og gjarna hægt að finna eitthvað á gömlum lager á þann yngsta. Samt þarf að huga að því, stundum að síkka eða stytta, stundum að kaupa eða fá hjá stærri frændum eitthvað sem á vantar. Og koma því sem er orðið of lítið til yngri frænda.

Á aðventunni sé ég stundum viðtöl og greinar sem segja mér að ég sé alveg ómöguleg. Ég hafi misst sjónar á hinni sönnu jólagleði, sjái ekki lengur kjarna hátíðarinnar. Það er talað um að fólk tapi sér í húsverkum og alls konar ímynduðum skyldum, sem þegar allt komi til alls séu alls ekki nauðsynlegur hluti jólahaldsins. Þau komi þótt ekki hafi verið tekið til eða bakaðar smákökur. Það er eins og tíma sem varið er í undirbúning hátíðarinnar sé illa varið. Jólagjafirnar eru svo sérstakur kapítuli í þessari umræðu, þær eru víst bæði of margar og of dýrar og hending ef þær eru þiggjandanum þóknanlegar.

Ég er orðin dálítið leið á þessari neikvæðni út í jólastressið. Auðvitað á fólk að takmarka jólastressið eða reyna að sleppa því alveg ef það vill. En það eru ekki allir eins. Suma bara langar til að skúra, skrúbba og bóna og baka kökur og hafa ánægju af þessum undirbúningi þótt hann sé í aðra röndina leiðinlegur og tímafrekur. Svona alveg eins og það er ekkert sérlega gaman að smyrja nesti fyrir ferðalag og hlaða dótinu í bílinn, en þess virði af því að það er gaman að fara í útilegu og draga fram nesti einhvers staðar í trjálundi. Það einfaldlega gerist ekki ef maður setti ekkert í bílinn. Ég veit alveg að jólin koma þótt maður hafi ekki tekið til, en þau koma líka þótt maður hafi tekið til.

Og svo eru það gjafirnar. Ein af ástæðunum fyrir því að við þessi fullorðnu í stórfjölskyldunni höfum ekki talið okkur þurfa að hætta að gefa hvert öðru jólagjafir er að við höfum leyft okkur að hugsa smátt þegar fjárhagurinn krefst þess. Á árum áður settum við systur okkur verðmörk. Þau voru svo lág að það var vandi að finna eitthvað almennilegt, en þeim mun skemmtilegra. Ég man enn þegar við hringdumst á á aðfangadagskvöld og hún gleymdi að óska mér gleðilegra jóla en sagði: „Þú lýgur því að þetta hafi kostað tvö hundruð.“ Þá varð ég glöð. Svo höfum við gjarna verið dálítið praktísk, gefið það sem kannski aðrir kaupa sér – og þá um leið fengið eitthvað sem við annars hefðum þurft að kaupa. Svokölluð kaup kaups. Ég hef fengið föndraðan jólapoka í jólagjöf, sultukrukku, glös og viskustykki, stunguskóflu og klaufhamar. Og mér finnst skemmtilegra að fá svoleiðis í pakka frá fólki sem mér þykir vænt um heldur en að kaupa það sjálf.

Það er ekki sjálfgefið að jólastússið sé eitthvað sem manni finnst að maður neyðist til að gera. Ekki sjálfgefið að jólastressið sé áþján sem samfélagið þröngvar upp á mann. Ekki sjálfgefið að maður fari fram úr sér í jólagjöfunum. Ekki sjálfgefið að það að „gera allt“ – hvað sem það nú er, en mér skilst að það megi helst ekki – varpi skugga á jólin. Mér finnst jólastressið einfaldlega skemmtilegt þótt einstök verk geti verið frekar leiðinleg. Eins og ég get verið löt þá finnst mér gaman að bretta upp ermar og undirbúa þessa hátíð. Ég er dálítið að spá í að taka loftin, eins og það hét í gamla daga. Eiginlega bara upp á sportið.

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *