[container]

Um höfundinn

Einar Sigurbjörnsson

Einar Sigurbjörnsson er prófessor emeritus við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Sjá nánar

Góðu vinir.

Hvar hefjast jólin? Og hvar eru jólin? Auglýsendurnir takast á um þetta. IKEA hefur leikinn í október, Jólin þín byrja í IKEA, segir þar og aðrir fylgja í kjölfarið og síðast fengum við að heyra það í útvarpinu um daginn að jólin væru á Akureyri. Hér í Háskólanum höfum við hins vegar um langt skeið vitað að jólin byrja þegar við komum saman í Kapellunni og syngjum jólasálminn „Adeste fideles“ á latínu. Og það fer vel á því að í Háskólanum sé jólunum fagnað á latínu því að latínan var öldum saman móðurmál vísinda í Vestur-Evrópu og sums staðar allt fram á 19. öld.

„Adeste fideles“ – Komið, þér sem trúið, komið til Betlehem að sjá konung englanna sem þar er fæddur, segir í upphafsversi sálmsins.

Um hvað snúast jólin annað en að fara í fótspor hirðanna og veita barninu í jötunni lotningu? Og barnið sem er vafið reifum í jötu er Guð eins og segir í þriðja erindinu.

Þetta er hinn mikli leyndardómur jólanna, Guð sjálfur gerist maður.

Og jólin byrja þegar sá leyndardómur snertir hjarta okkar. Sú Betlehem og það fjárhús sem við erum í sálminum kölluð til að fara til er ekki staðsett á ákveðnum stað heldur er það Betlehem hjartans. Þar vill Jesús fæðast. Í samræmi við það orti séra Einar í Eydölum: „Vil ég mitt hjarta vaggan sé.“ Þess vegna var það svo mikill sannleikur fólginn í því sem barnið sagði eitt sinn: „Betlehem er á himnum.“

Í fornum jólasálmi segir:

Þú komst með dögun, Drottinn hár.
Sem dimman flýr við morgunsár
eins breiddist ljós þitt bjart um heim,
brosir allt líf í geisla þeim.

Lífið brosir í geisla Jesúbarnsins af því að það er skaparinn sjálfur. Í barninu í jötunni fæddist skaparinn sem maður.

Skammdegið er tákn um myrkrið sem ógnar tilveru okkar og skyggir á gæsku gjafarans. Ljósin sem við tendrum í kringum okkur nú í skammdeginu tendrum við í trú á ljósið eilífa sem aldrei slokknar. Við teljum vikurnar og dagana fram til jóla m.a. með aðventukransinum sem geymir eitt kerti fyrir hverja viku jólaföstunnar.

Ég sá hér á dögunum ljóð um aðventuljósin. Ljóðið er eftir sænska skáldkonu Margareta Melin að nafni og Ingibjörg Elsa Björnsdóttir hefur þýtt það. Skáldið sér í kertum aðventukransins bæn og er ljóðið á þessa leið:

Aðventuljósin tendrum við eitt af öðru
í brennandi bæn fyrir sannleika og réttlæti.

Fyrsta ljósið skal lýsa með mér hið innra,
varðveita hjarta mitt og verma huga minn.

Annað ljósið skal lýsa öllum sem ég þekki,
til að allir fái sinn samastað og séu vinir.

Þriðja ljósið skal loga fyrir alla sem þjást,
sem berjast og dreymir um betri tíð.

Fjórða ljósið skal loga fyrir jörðina og fjöllin,
fyrir loftið og hafið og framtíð okkar á jörðinni.

Aðventuljósin tendrum við eitt af öðru
í brennandi bæn fyrir sannleika og réttlæti.

Þannig er jólahaldið bæn og þrá eftir sannleika og réttlæti og um leið skuldbinding til að vinna að sigri sannleika og réttlætis í heiminum. Jólin boða okkur og mannkyni öllu þá von að heimurinn lúti ekki valdi myrkranna, valdi tilviljana eða illra afla. Hinstu örlög veraldar ráðast ekki á skákborði valdsins eða í höllum peningaaflanna. Lífið er ekki tilgangslaus hringrás sífelldrar endurtekningar. Þvert á móti lýtur veröldin valdi Guðs sem birtist í barninu í jötunni og vald þess, vald kærleika og friðar, réttlætis og sannleika, mun sigra að lokum alla ógn og binda endi á allt böl og alla þjáningu.

Horfum því fram til barnsins í jötunni sem birtir Guð á jörð og sjáum í honum rísa nýja sól til nýrrar vonar um sigur sannleika og réttlætis í heiminum.

Þú ert það ljósið eina
sem allur myrkvi flýr,
í lind þíns helga hjarta
öll heilsa lífsins býr.

Þú vonarstjarna vísar
til vegar hverjum þeim
sem þreytir þunga göngu
og þráir ljóssins heim.
(Sigurbjörn Einarsson, Sálmar 2013 nr. 806)

 

Jólahugleiðing haldin í Háskólakapellunni 18.12.2013

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *