Innipúki og antisportisti

[container] Ég lærði að lesa þegar ég var fjögurra ára gömul og varð samstundis heilluð. Næstu árin las ég og las og fékk mjög misvísandi skilaboð frá umhverfinu varðandi þennan mikla lestur. Það þótti afskaplega jákvætt að lesa og læra en um leið var ég ekki nægilega mikið úti að leika mér. Ég hafði gaman af útileikjum, gaman af því að hlaupa, fara í feluleiki, renna mér á snjóþotu og svo framvegis, en lesturinn hafði samt alltaf vinninginn, að hluta til vegna þess að það var ekki mikið af öðrum börnum í mínu nágrenni. Ég var elsta barnabarnið í báðar áttir og bjó í götu þar sem var lítið um börn á mínum aldri.

Ég var smávaxið barn, fött og fæddist með snúna ökkla. Íþróttir lágu því aldrei sérstaklega vel fyrir mér, þrátt fyrir að mér hafi framan af fundist þær skemmtilegar. Þegar ég byrjaði í skóla var ég sett í bekk með krökkum sem voru ári eldri en ég. Þá jókst munurinn á minni getu og annarra til muna. Leikfimikennarinn minn í grunnskóla lagði afar mikið upp úr árangri og getu, og horfði minna til ástundunar og áhuga. Af þessu leiddi að mér gekk afar illa í íþróttum og hafði alltaf minna og minna gaman af þeim. Ég var yfirleitt sú síðasta sem var valin í liðið og á margar minningar frá endemis köðlunum sem ég gat aldrei klifið.

Ég var sett í ballett, til að freista þess að laga snúnu ökklana og fatta bakið og var þar í sjö ár, án þess að vera nokkurn tíma betri en í meðallagi. Ég hætti þegar ég var unglingur og á sama tíma myndaðist einhver blakstemning í bekknum mínum og flestar stelpurnar byrjuðu að æfa blak. Ég fylgdi með og í fyrsta skipti í mörg ár hafði ég gaman af einhverri íþrótt. Ég var hundléleg í blaki, en fannst það skemmtilegt. Þjálfararnir voru stelpur um tvítugt sem lögðu sig fram um að gefa öllum tækifæri. Andinn í liðinu var góður.

Hlutirnir breyttust þegar við urðum eldri og eldri maður tók við þjálfun liðsins okkar. Hann, eins og gamli leikfimikennarinn minn, lagði mikið upp úr getu og árangri. Við, sem vorum ekkert sérstaklega góðar, hættum því að fá tækifæri og vorum settar skör lægra en þær sem gátu meira. Þetta náði hámarki þegar hann tók okkur tvær vinkonurnar fyrir á æfingu, fyrir framan alla, úthúðaði okkur fyrir hversu lélegar við værum og ráðlagði okkur að finna aðra íþrótt til að æfa, já eða fara bara heim að lesa. Vinkona mín mætti aldrei aftur, ég hékk þarna í einhvern smá tíma eftir þetta í þeirri von að geta aftur þótt þetta skemmtilegt. Það tókst aldrei og ég hætti.

Mér hefur alltaf þótt þetta undarlegt, svo ekki sé meira sagt. Enn undarlegra þykir mér þetta nú, þegar ég er orðin fullorðin kona með börn í íþróttum. Íþróttir eru bestu forvarnirnar, segja menn, koma í veg fyrir alls kyns óskunda. Eiturlyf, unglingadrykkju, unglingaóléttur og hver veit hvað. Ef þetta er rétt, af hverju miðast þá íþróttaiðkun unglinga svo til eingöngu við afreksfólk?

Þegar börn verða unglingar, eða þar um bil, breytist eðli æfinganna í flestum íþróttum. Þær verða margar og tímafrekar, fjórar til fimm langar æfingar á viku. Ofan á þetta bætast keppnisferðir, fjáraflanir og mót. Stálpaðir krakkar sem eru lengi í skólanum og þurfa að læra heima, hafa þess vegna varla tíma fyrir neitt nema þessa einu íþrótt í lífi sínu. Krakkar sem eru í tónlist eða myndlist að auki verða afskaplega uppteknir, geysast frá einum stað til annars og reyna af öllum mætti að halda í við kröfurnar. Þeir sem ekki eru þeim mun betri í íþróttinni hrökklast í burtu einhvers staðar á leiðinni. Kerfið miðar að því að búa til afreksfólk, ekki að því að vera heilbrigð forvörn, nema hugsanlega þá fyrir téð afreksfólk.

Þetta ætti ekki að koma á óvart þegar horft er til þess hverjir eru í stjórn íþróttafélaga. Það eru yfirleitt þeir sem eru góðir í íþróttum. Þeir þjálfa, sitja í stjórnum félaganna og taka ákvarðanir um reglur og viðmið fyrir börn í íþróttum. Af þessu leiðir að sjaldnast er tekið mið af áhuga og ástundun, heldur er miðað við afköst, árangur og getu.

Íþróttir eru besta forvörnin. Íþróttir fyrir alla! Í raun og veru eru þessar staðhæfingar markleysa. Það er lítið sem ekkert gert í því að koma til móts við þá sem eru innipúkar og bókaormar. Þá sem hafa annað að gera í lífinu en að æfa einhverja íþrótt og vilja koma sjaldnar. Þá sem hafa lítinn áhuga á því að keppa en vilja æfa sér til skemmtunar. Ef íþróttir eru besta forvörnin, fyrir alla, af hverju er þá ekki reynt að koma til móts við alla, gera þær aðgengilegar fyrir alla?

Mig hefur lengi dreymt um að íþróttahreyfingin bjóði upp á tvenns konar íþróttaiðkun. Þá sem hún býður upp á núna, og svona eins konar „skemmtideild” með færri æfingum og þar sem aðaláherslan væri á áhuga og ástundun en ekki árangur og getu. Allir væru velkomir og allir fengju að vera með. Svona eins konar „old boys” fótbolta fyrir börn.

Eins og málin standa í dag er peningum ausið í kerfi sem hentar bara brotabroti af þeim sem hafa áhuga á að stunda það. Þetta er gert á þeim forsendum að íþróttir hafi svo mikið forvarnagildi, séu svo heilbrigðar og ýti undir hreysti og vellíðan. Er réttlætanlegt, á þessum forsendum, að þetta henti bara litlum hluta barna og unglinga? Og hvað með andlega heilbrigðið? Hversu andlega heilbrigt er það fyrir barn að heyra í sífellu að það sé ekki nógu gott, að það þurfi að reyna betur, mæta oftar, nú eða fara bara og æfa eitthvað annað? Hefur þetta forvarnagildi? Gegn hverju þá?

Þessi bókaormur hér ætlar að leyfa sér að vera Glanni glæpur í Latabæ og segja bara: Nóg komið. Nóg komið af því að gera lítið úr fólki fyrir misjafna getu. Nóg komið af foreldradólgum sem standa og öskra á börnin sín að vera betri! harðari! tækla! lemja!

Það er nefnilega sorgleg staðreynd að sumir foreldrar kunna ekki að hvetja börn. Þeir kunna að hafa hátt, garga, góla og öskra. Elsta dóttir mín, sem nú er unglingur (afar góð í íþróttum, meira að segja) byrjaði þegar hún var fimm ára að æfa fótbolta. Æfingarnar voru þannig samsettar að börnin æfðu alls kyns tækni á stöðvum og á einni stöðinni var spilað. Foreldrarnir voru með börnunum á æfingum og sumir umbreyttust þegar þeir stóðu á hliðarlínunni og horfðu á börnin sín spila. Góluðu og öskruðu, sögðu drengjunum sínum að sparka í þennan og tækla hinn, ná boltanum – ná árangri, sama hvað það kostaði.

Ég fór að hugsa um þetta núna á dögunum þegar mér bárust fréttir af ungri, duglegri handboltastúlku. Henni gekk vel á móti, hún skoraði mörk og gerði alls kyns góða hluti. Foreldrunum í hinu liðinu mislíkaði gott gengi ungu stúlkunnar (sem er einhvers staðar í kring um 10 ára gömul) og góluðu á börnin sín. Börnunum var uppálagt að taka af henni gleraugun, væntanlega til þess að hún sæi ekki og gengi þar með verr í leiknum. Er þetta íþróttaandinn?

Hvar er íþróttamennskan í því að gera ómanneskjulegar kröfur til  barna og unglinga, þannig að þau hafi ekki tíma til að slappa af og gera ekkert af og til? Hvar er íþróttaandinn þegar börnum er sagt að fara bara heim (að lesa)? Flestum þykir mikilvægt að börn venjist hreyfingu, fari og stundi hinar hollu og mikilvægu íþróttir og þar er ég engin undantekning. Fimm ára dóttir mín byrjaði nýverið að æfa fótbolta. Hún hefur mjög gaman af því og þetta er sem betur fer enn á leikjastiginu hjá þeim. Ég ákvað samt að borga bara fyrir vorönnina, því ég vil að hún sé í fríi í sumar. Ég vil ekki að sumrin hjá okkur fjölskyldunni fari að meira eða minna leyti í að stunda æfingar, sækja mót, gera þetta, gera hitt. Ég vil að við séum í fríi þegar við erum í fríi. Þetta viðhorf mitt hefur mætt andstöðu og fólk spyr: Því gerirðu barninu þetta?

Hildur Ýr Ísberg
meistaranemi í íslenskum bókmenntum

[/container]


Comments

4 responses to “Innipúki og antisportisti”

 1. Sigríður Birna Thorarensen Avatar
  Sigríður Birna Thorarensen

  Heyr, heyr!!

  Það er langt síðan ég hef verið svona sammála greinarstúf.

  Við þessi góðu orð þín bætist að ég tel að við munum horfa aftur til þessa íþróttadýrkunartímabils sem þess tímabils þar sem æska og félagsfærni íslenskra barna var eyðilögð. Því börn sem eru sífellt á íþrótta- eða tómstundaæfingum geta ekki stofnað til heilbrigðrar vináttu við jafnaldra sína. Þau hafa einfaldlega ekki tíma til þess.

  Íþróttir eru ekki hollar því þær eru orðnar að keppnisíþróttum. Heilsurækt í formi hreyfingar er hinsvegar holl. Íþróttaiðkun barna er komin í andhverfu sína. Það þarf ekki annað en að skoða fjölda æfinga, orðræðu íþrótta í fjölmiðlum og inni á völlum, rasskellingar og niðurlægingar sem viðgangast og þykjast sjálfsagt mál innan keppnisíþrótta til að sjá merki um að hér er ekki á ferðinni hreyfing sem er vænleg til að hafa góð áhrif á andlegan og líkamlegan þroska barna. Íþróttafélögum er einfaldlega ekki treystandi fyrir börnunum okkar miðað við þá hugmyndafræði sem þar ríkir.

  Nú er lag að breyta íþróttamenningu íslendinga. Hvað um að hætta þessari aldurs og kynskiptingu í íþróttum þar sem því verður komð við? Hvers vegna geta foreldrar ekki stundað líkamsrækt með börnunum sínum? Farið með þeim í Tai Chi eða tennis eða Karate eða fótbolta. Af hverju eru ekki svona ,,old boy” hópa eins og þú bendir á þar sem lagt er upp með hreyfingu sér til líkamlegrar uppbyggingar og ánægju en ekki til að ,,niðurlægja andstæðinga” eða ,,knosa keppinautana” ? Líkamsrækt sem hefur það sem markmið að auka samstöðu og ánægjustundum fjölskyldunnar?

  Þetta er þarft umræðuefni.

  Takk!

 2. Vilborg Avatar
  Vilborg

  Umhugsunarefni

 3. Sigurveig Arnardóttir Avatar
  Sigurveig Arnardóttir

  Sæl Hildur Ýr.

  Frábær grein hjá þér, ég fór næstum því að gráta.

  Minn sonur lennti nefnilega einmitt í þvi að hann var ekki súper góður, en hafði rosalega gaman af fótbolta. Og því miður var það aðeins eitt ár sem hann hafði þjálfara sem skildi að það er mikilvægt að allir fái að vera með og að allir fái hrós. Önnur ár sat hann meira og minna á bekknum.

  Bestu kveðjur frá Húsavík.

  Sigurveig.

 4. Helga Ágústsdóttir Avatar
  Helga Ágústsdóttir

  Gæti ekki verið meira sammála þér. Hef haldið “predikanir” um þetta lengi. – Var sjálf fædd (já!) með snúna ökkla (fékk skó til að lagfæra), var of feitt barn. Viðmót íþróttakennara var í samræmi við það. Og að vera kosin í lið? Neeeei! Vera bekk á undan – og vera í þessari stöðu? Jamm, það var nú það.
  Forvarnir íþrótta? Set líka spurningamerki við það, hvað varðar meðalbarnið og það sem verst gengur en vill vera með.
  Lesa – ´lesa – lesa. jamm líka ég. – OG af hverju ertu ekki úti að leika þér?
  Við erum greinilega á sömu skoðun og eins og unglingur sem ég kenndi sagði: “það er ekkert hérna fyrir mann, ef maður hefur ekki gaman af að hlaupa endalaust á eftir bolta og keppa. Ég hef ekkert gaman af því”.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *