Hverra manna ert þú?

[container] Afi minn fæddist á Suður-Jótlandi, í Danmörku. Fjölskyldan flutti og móðir mín fæddist í Slésvík-Holtsetalandi, í Þýskalandi. Í barnaskóla lærði móðir mín um Ísland og dreymdi um að komast til eyjunnar bláu. Hún lét drauminn rætast, kom hingað siglandi um borð í Gullfossi, og ég fæddist í Reykjavík, á Íslandi.

Einn íslensku ættingjanna hringdi um daga og nætur, oft vel við skál, og lét svívirðingarnar ganga yfir okkur. Við vorum nasistar, móðir mín nasistahóra og við nasistabörn, og við áttum að koma okkur burt. Um leið og einhver komst að því í barnaskólanum að við værum af þýskum ættum var gargað á okkur að við værum nasistar. Faðir leikfélaga okkar systkinanna kom að máli við móður mína og sagði son sinn ekki geta komið og leikið við okkur. Þetta var á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.

Ég gerði þau mistök að taka þýsku sem valfag í níunda bekk. Sat þann veturinn undir háðsglósum bekkjarfélaga og lét gott heita. Snaraði mér í frönsku í menntaskóla. Ég fór samt einn vetur í nám til Hamborgar. Þar var öskrað á mig á lögreglustöðinni rétt eins og alla hina útlendingana sem voru að ná sér í stimpla í vegabréfið. Seinna fór ég í nám til Ítalíu. Þar þurfti að vakna um miðjar nætur og standa í óendanlega langri röð fyrir utan lögreglustöðina. Samt var engin vissa fyrir því að maður fengi afgreiddan stimpil í vegabréfið þann daginn. Smám saman lærði ég útlendingurinn þó á kerfið, skellti mér í minipils og flegna blússu og skaust fram fyrir allar raðir. Mér gekk ótrúlega vel að svæfa samviskuna enda hvorki gefin fyrir að vakna snemma né að húka lengi í biðröð. Löngu seinna var ég í prófi við Háskóla Íslands og þurfti að velja á milli að skrifa um vorið eða kynþáttafordóma. Ég valdi vorið.

Okkur hættir líklega öllum til að vera sjálfselsk. Stundum erum við svo sjálfselsk og eigingjörn að virðingin fyrir náunganum hverfur. Kærleikurinn hverfur og umburðarlyndið hverfur. Fordómar ná yfirhöndinni og við kjósum að lifa í myrkri fávísinnar. Húkum hrokafull í ljósleysinu, hrædd af því að við sjáum illa hvað gerist í kringum okkur. Margt býr í þessu rökkri og við fáum knýjandi þörf fyrir að koma reglu á hlutina. Óreiðan er ógnandi og við ímyndum okkur að hið framandi sé hættulegt. Stundum höldum við að útlendingar séu óvinir okkar. Við flokkum þá eftir því hvorum megin við ímynduð strik, svokölluð landamæri, þeir fæddust. Búum meira að segja til eitthvað sem heitir kynþáttur. Þannig geta orðið til misgóðir menn þar sem sumir eru auðvitað æðri öðrum. Á þennan hátt leiðumst við á braut mismununar.

Stundum hefur þessi mismunun einungis tilviljanakennd áhrif á hegðun sjúkra einstaklinga. Stundum leggur hún grunn að hugmyndakerfi heillar þjóðar sem notfærir sér hana til að verja forréttindi ákveðinna hópa samfélagsins. Svona flokkun og fordómarnir sem af henni spretta taka á sig ótal myndir líkt og kameljón skiptir um lit. Við þurfum því alltaf að vera okkur meðvituð um tilvist hennar, vera á verði. Hún getur falið sig hvar sem er og besti vinur hennar er þöggunin. Hún er mesta bölið, versta pestin sem leggur leið sína um heimsbyggðina.

Við heyrum af bátum ofhlöðnum fólki í leit að betra lífi. Bátarnir eru margir hverjir lélegir og sökkva, og fólkið um borð drukknar, ásamt draumunum. Kannski er kominn tími á að vekja samviskuna og vera meðvitaður um hvers megnug mannskepnan er. Við getum öll verið meðvituð, staðið upp og talað, sýnt náungakærleik og umburðarlyndi. Við erum öll með hjarta. Hjartslátturinn er eins. Hlustum.

Guðrún Erna Högnadóttir,
meistaranemi í ritlist.

[/container]


Comments

3 responses to “Hverra manna ert þú?”

  1. Sigurður Þórarinsson skrifaði á svipuðum nótum um grátur, þ.e. eins og þú vísar í hjartsláttinn:

    Náttmyrkrið hlýtt við Himalaya ei lét
    mig heimþrá gleyma.
    Úti í því var eitthvert barn sem grét
    eins og heima.

    Misjöfn er tungan mörg í byggðum heims,
    mörg er þjóðin.
    Alls staðar er þó sorgin sama hreims,
    sömu hljóðin.

  2. Guðrún Erna Avatar
    Guðrún Erna

    Kærar þakkir ghg fyrir að deila þessum orðum Sigurðar. Það fer vel að fylla hjartað af samhygð.

  3. Fín grein, mér finnst alltof lítið talað um sjálfselsku, eigingirni og rætur þesara vandamála. Jafnvel þó þetta sé það helsta sem sé, og hafi verið, að plaga mannkynið síðustu aldir.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *