Hin eilífa hringrás viðbitsins

[container] Þegar ég var barn fannst mér poppkorn afar gott. Poppað í potti (áður en örbylgjuofnar urðu almenningseign) upp úr alvöru smjöri. Það var fátt betra, borið fram í eldföstu móti og borðað yfir Fyrirmyndarföður á laugardögum. Ég man ekki hversu gömul ég var þegar það kom í fréttunum að smjör væri afskaplega óhollt fyrir kólesterólið og línurnar. Smjörlíki væri miklu hollara. Fjölskylda mín ætlaði sko ekki að skipa sér í flokk með hjartasjúklingunum sem þá tröllriðu auglýsingum frá Heilsuverndarráði og skipti umsvifalaust úr íslensku smjöri yfir í smjörlíki, úr Smjörva yfir í Létt og laggott.

Ég bjó á stóru heimili. Þar bjuggu oft á milli tíu til fimmtán manneskjur og iðulega voru mikið fleiri í mat, þannig að það voru ekkert smáræðis margar kalóríur og ekkert lítið kólesteról sem sparaðist við þessi umskipti. Þetta var gullöld Ljómasmjörlíkisins og Ríó Tríó söng öll kvöld um hvað Ljóminn væri ljómandi góður, fjörefnafóður, hollur og fullkomin næring.

Það er ef til vill auðvelt að ímynda sér hvað gerðist næst. Eftir að við höfðum poppað upp úr smjörlíki, bakað með smjörlíki, steikt fisk upp úr smjörlíki og gleypt sönginn um Ljómann með húð og hári fóru einhverjir vísindamenn úti í heimi að rannsaka málið. Og auðvitað komust þeir að þeirri niðurstöðu að smjörlíki væri með því versta sem fyrirfyndist í heiminum. Í því væru kalóríur og vont kólesteról og hver veit hvað. Það kom í fréttunum.

Það varð uppi fótur og fit á heimilinu. Hver hrópaði upp í annan og menn veltu því fyrir sér lengi og hástöfum hvernig í ósköpunum þetta mætti vera. En það var aldrei neinum blöðum um það að fletta, auðvitað hættum við að kaupa fjörefnabætta Ljómann. Og Ríó Tríó hætti að koma í sjónvarpinu, vestin sáust aldrei aftur og yfirvaraskeggin hurfu þar til í mars löngu síðar.

Orð dagsins varð ólífuolía. Filippo Berio, Filippo Berio, Filippo Berio,  Filippo Berio, söng óperusöngvarinn í auglýsingunum, yfir myndum af því sem ég ímynda mér að hafi verið ólífulundur við Miðjarðarhaf. Ólífuolían varð allra meina bót. Hana átti að nota í baksturinn (90 ml á móti 100 gr af smjörlíki), út á salöt og það átti að steikja upp úr henni. Og fjölskylda mín, alltaf með heilsuna í forgrunni, tók ólífuolíuna samstundis í sátt og hámaði hana í sig jafn ákaft og smjörlíkið hér um árið. Við keyptum Filippo Berio virgin og extra virgin og Olivo á brauðið. Enga óhollustu hér, takk.

En hér lauk þátttöku minni í þessum  endalausa heilsueltingaleik. Þarna var komið alveg nóg. Það er nefnilega sterkt aukabragð af ólívuolíu og það fannst mér (og finnst enn) ekki koma sérlega vel út með poppi, eða ofan á brauð. Svo ég mótmælti og bað um venjulegt smjör(líkis)poppað popp yfir sjónvarpsefni laugardaganna, sem ég man ekki nákvæmlega hvert var, en hef sterkan grun um að hafi verið Blaðadrottningin, sjónvarpsaðlögun reyfara Judith Kranz, I´ll take Manhattan.

Móðir mín þverneitaði þessum kenjum í krakkanum. Hún hélt nú ekki. Vissi ég ekki hversu óhollt það væri að poppa upp úr smjör(lík)i? Ég var nokkuð sannfærð um að það gæti ekki skipt öllu máli eftir að við hefðum árum saman poppað upp úr smjör(lík)i á laugardögum. Allt kom fyrir ekki og ég borðaði popp með óbragði á laugardögum í mörg ár. Ég vann hins vegar baráttuna um smjörið ofan á brauð, því afa mínum fannst Olivo bölvaður óþverri og því var keyptur Smjörvi handa okkur.

Mörgum árum seinna, þegar öllum var farið að þykja hið eðlilegasta mál að borða steiktan fisk og popp með ólífuolíuaukabragði, fóru þessir dularfullu vísindamenn úti í heimi aftur af stað. Og þá kom í ljós að þegar ólífuolía er hituð upp í eitthvað ákveðið hitastig (sem hún nær löngu áður en farið er að steikja upp úr  henni) verður hún óhollari en bæði smjör og smjörlíki. Fólki var því eindregið ráðlagt að nota smjör við steikingar, svo náttúrulegt, sjáið þið til.

Ég er nú orðin þrjátíu og fjögurra ára gömul, þriggja barna móðir og ég er löngu hætt að eltast við duttlunga vísindamannanna utan úr heimi. Ég nota bara heilbrigða skynsemi og kjörorðin: Allt er best í hófi.

Hildur Ýr Ísberg
meistaranemi í íslenskum bókmenntum

[/container]


Comments

2 responses to “Hin eilífa hringrás viðbitsins”

  1. Svanborg Ísberg Avatar
    Svanborg Ísberg

    Skemmtileg grein og fróðleg.

  2. Vilborg Bremnes Îsberg Avatar
    Vilborg Bremnes Îsberg

    Takk Hildur, þetta er mjög skemmtileg og raunsönn lýsing á skammsýni og óðagoti nútíma samfélags. Hugsaðu þér allt sem hefur runnið skeiðið á þessum 30 árum, og sýnir hvað ófullkomnar rannsóknar aðferðir okkar eru og rökhyggjan brengluð, krafan að fá allt hér og nú yfirskyggir reynslu samanburð kynslóðanna. Amma Villa.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *