Jóhannes úr Kötlum

Eigum við að vaka og veita guði lið?

[container]

Um höfundinn

Magnús Örn Sigurðsson

Magnús Örn Sigurðsson er með MA-próf í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands.

Ég er ekki trúaður. Ekki þannig. Ég leita ekki að merkingu tilverunnar eða mögulegu handanlífi í heilagri ritningu. Margur skáldskapur skipar þó heilagan sess í lífi mínu. Raunar treysti ég mér til að fullyrða að merkingarleysi tilverunnar í heildrænu samhengi sé mér bærileg fyrir tilstuðlan skáldskapar og annarra lista.

Ég er jafnvel tilbúinn til þess að smætta þessi trúarbrögð mín niður í eitt erindi í einu ljóði sem hefur sérstaka þýðingu fyrir mig. Þetta er síðasta erindið í ljóðinu Bí bí og blaka eftir Jóhannes úr Kötlum. Það má segja að það sé einskonar bæn, en ekki til Guðs, heldur bæn til lesanda ljóðsins, annarra mannvera og, í víðasta skilningi sínum, mannkynsins.

„Bí, bí og blaka/ Börn erum við/ Eigum við að vaka/ og veita guði lið?/ Eigum við að kvaka/ um kærleika og frið?“

Byrjum á guði. Þetta er ekki guð með stóru G-i. Það er mér mikilvægt. Fyrir mér er guð tákn fyrir það sem við skiljum ekki og ráðum ekki við. Guð (með litlu g-i) er náttúran, við sjálf, vistkerfi jarðar og alheimurinn. Frammi fyrir þessu öllu fyllist ég lotningu.

„Bí, bí og blaka“ – einhver er að byrja á vögguvísu – en hver á sofna? „Börn erum við“, sjálfmiðuð börn með rauða skóflu í sandkassa móður jarðar. Setja sand í fötu, þjappa, hvolfa, laga, brjóta, kalla á mömmu, ekkert svar, borða sand, spýta, gretta, standa upp, í pollagalla og fara – hvert? „Eigum við að vaka“ – þangað til að – hvað? Allt er búið? Eigum við ekki að reyna vaka eins lengi og við getum, „veita guði lið?“ Horfa heildstætt á heiminn. Finna að við erum hluti af heild, margslunginni heild með engum einum miðpunkti. „Eigum við að kvaka?“ – akkúrat! Kvaka eins og endur? Eins og náttúran sem við erum. Þannig stuðlum við að sönnum „kærleika og frið“.

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *