En hvar má ég þá vinna ástin mín?

[container] Ég kvaddi unnusta minn. Hann fór að vinna í  útlöndum. Rómantíski sjómaðurinn bað mín daginn áður en hann fór. Hann hafði misst vinnuna í hruninu, fengið aðra sem honum líkaði ekki, pilluvélasmurningar í sótthreinsuðum búningi. Hann sagði upp og varð spenntur. Mér var því næstum sama. Hann var jú með menntun og leyfi til siglinga. Ég vissi alltaf að þessi dagur myndi koma, hann hafði líka áhuga á þessu. Á þessum tíma, í byrjun árs 2009 var erfitt að fá pláss á frystitogara og öll umræðan snérist um hversu ömurlegt land Ísland væri orðið. Best væri að flytja, eða vinna erlendis.

Unnusti minn fór á framandi slóðir, með loforð lúxussnekkjuskipstjórans í farteskinu; hann fengi að vera heima í einn mánuð á ári, og ég gæti farið og hitt hann á grískri eyju, í ítölskum strandbæ eða í karabískri paradís. Eftir þrjá mánuði hittumst við á Ítalíu. Ferðuðumst um strandbæi og borgir. Ég man að það voru freskur í loftinu á hótelinu okkar í Flórens og ég grét þegar ég gekk um salina í Uffici. Vinna hans um borð í lúxussnekkjunni gaf ágætlega af sér, við réðumst á stóru japönsku og frönsku mörurnar. Borguðum fimmþúsundkall af hverri miljón. En þær héldu áfram að fjölga sér og urðu næstum fjörtíu en íbúðin var alltaf jafn pínulítil og eldgömul.

Erfiðast var að sætta sig við að laun hans kæmu frá Cayman eyjum, honum leið eins og svikara. Helvítis bankaCaymaneyjar sem geymdu feng siðlausu landræningjanna sem höfðu stjórnað bönkunum okkar. Við ætluðum ekki að lifa svona, hann ætlaði bara að vinna þarna í eitt ár til að borga niður eitthvað af erlenda skrímslinu sem bjó í steypunni okkar. En hann fékk nóg þegar gamli Herra Cayman, auðjöfurinn kom um borð í snekkjuna sína með þrjár kornungar „frænkur“ sínar. Karlinn svaf í sinni svítu fjórðu hverja nótt. Caymaneyjakarlinum fannst í lagi að sofa hjá ungum stúlkum, hann bar enga virðingu fyrir öðrum og tók út úr sér fölsku tennurnar  við matarborðið og skolaði þær í vatnsglasi einnar frænkunnar. Unnustinn kom heim, oj barasta helvítis Cayman.

Eiginmaður minn fór að vinna að uppbyggingu lands og þjóðar – við fiskveiðar. Maturinn um borð var vondur, aldrei grænmeti, heldur margnota grænmetisolía, alltaf franskar kartöflur og þýskar endingargóðar kökur á borðum, sem urðu til þess að margir skipverjanna uxu upp úr björgunargöllunum. Hann var tekjulaus mánuðinn sem hann var heima. Hann var ekkert gráðugur, en vildi bara fá sanngjörn laun fyrir þá mánuði sem hann var í burtu. Rómantíska þjóðerniskenndin gaf ekkert af sér.

Ég kvaddi eiginmann minn. Honum bauðst góð vinna erlendis, sagði upp og varð spenntur, ný tækni og glæný skip. Mér var því næstum sama. Hann var jú með menntun og leyfi til siglinga. Ég vissi því að þessi dagur myndi koma, hann hafði líka áhuga á þessu. Á þessum tíma, í byrjun árs 2011, var orðið erfitt að lifa af því að vinna á frystitogara, sjómannaafslátturinn nánast enginn og öll umræða snérist um hversu ömurlegt land Ísland væri orðið. Best væri að flytja, eða vinna erlendis.

Eiginmaðurinn fór á frændslóðir með loforð um að fyrir hvern unninn dag á sjó fengi hann annan í leyfi á fullum launum. Vinnan um borð gefur ágætlega af sér, við  bættum við okkur barni og fluttum erlendu skrímslin með okkur í nýtt húsnæði. Á frændslóðum fær hann sjómannaafslátt og útgerðin borgar allan ferðakostnað og meira að segja bensínið út á flugvöll. Maturinn um borð í skipinu er meira að segja góður, mikið grænmeti og hrökkbrauð. Matseðillinn er settur saman af kokkum og næringarfræðingum, allt gert til þess að menn passi í gallana.

Erfiðast var að sætta sig við að laun hans kæmu frá olíuiðnaði, honum leið eins og svikara. Helvítis skítugu olíuskip, helvítis borpallar sem skemma heiminn okkar, og helvítis flugferðirnar. Eiginmaðurinn varð heimsins mesti losari. Við ætluðum ekki að lifa svona, heldur bara borga niður eitthvað af erlenda skrímslinu sem býr í steypunni okkar. Hann vinnur þarna enn, því frændur okkar Norðmenn hugsa vel um sjómennina sína.

 

                                                                                              Sigríður Nanna Gunnarsdóttir
meistaranemi í almennri bókmenntafræði


[/container]


Comments

One response to “En hvar má ég þá vinna ástin mín?”

  1. Erla Þorvaldsdóttir Avatar
    Erla Þorvaldsdóttir

    Flott og sönn saga hjá þér Sigga Nanna mín snillingur.Já norðmenn borga góðu fólki betur.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *