[container]
Nú þegar járnfrúin svokallað hefur verið borin til grafar er ekki úr vegi að velta fyrir sér stöðu kvenna í æðstu valdastöðum, því hún var meðal þeirra fyrstu að gegna slíkri stöðu og raunar sú fyrsta í Evrópu. Þann skugga bar á andlát hennar að það hlakkaði í sumum andstæðinga stefnu hennar sem vissulega var umdeild, svo umdeild til dæmis að henni og eftirmanni hennar tókst að gera Skotland að því sem menn kölluðu „Tory free zone“ á tíunda áratugnum og hefur Íhaldsflokkurinn breski ekki borið sitt barr þar síðan.En kannski er það ekki svo mikið einsdæmi þegar konur eiga í hlut, einhvern veginn virðist heiftin og rætnin í þeirra garð stundum, ef ekki oft, eiga rætur í kvenhatri, fyrirbrigði sem a.m.k. er þekkt aftur til Forn-Grikkja, enda á fræðiorðið „misogyny“ í ensku t.d. rætur að rekja til forn-gríska orðsins.
Kvenhatur virðst verða mjög stækt þegar um konur í valdastöðum er að ræða. Margaret Thatcher var vissulega óvinsæl meðal pólitískra andstæðinga, jafnvel hötuð, en reikna má með að stefna hennar og Íhaldsflokksins hafi átt stóran þátt í því. Hins vegar var hún ekki jafn vinsæl innan flokksins og sá sem hér ritar gleymir seint ræðu Geoffreys Howes í breska þinginu haustið 1990 þar sem hann pakkaði fögrum mælskulistarrýtingi í flauel vel valinna orða og rak hann bakið á járnfrúnni sem reyndist á endanum vera úr mýkra efni eins og við öll.
Fleiri dæmi koma upp í hugann, t.d. hér á Íslandi og í Þýskalandi. Jóhanna Sigurðardóttir hefur þurft að sitja undir meiri svívirðingum og hreinum ósannindum að mínum dómi en margur karlinn sem gert hefði hið sama og hún í embætti. Oftast heyrist að hún hafi valið leið illinda og átaka í stað samstöðu eins og það hafi verið reglan hér áður fyrr. Þetta er vitaskuld rangt, stjórnmál á Íslandi hafa ævinlega verið lituð af miklum átökum og við þekkjum vel stjórnmálaskörunga sem höfðu það prinsipp, líka gegn betri vitund, að mæla engu bót sem andstæðingarnir lögðu fram. Nú vil ég taka fram, til að fyrirbyggja allan misskilning, að ég þekki ekki Jóhönnu Sigurðardóttur persónulega á nokkurn hátt, en mér hefur virst hin opinbera umræða undanfarin ár vera lituð af einhverju hatri sem á sér dýpri rætur en einungis stjórnmálaátök.
Orðavalið og líkingarnar sem beitt er stundum þegar valdakonur eiga í hlut er oft fyrir neðan alla lágkúru; þannig fékk Ingibjörg Sólrún Gísladóttir oft stimpla í opinberri umræðu sem segja meira um andstæðingana en hana. Meira að segja Vigdís Finnbogadóttir, sem náði að sameina þjóðina á bak við sig, mátti heyra í kosningabaráttunni 1980 óheyrilegar spurningar sem henni tókst að gera út af við með hnyttilegu tilsvari. Nú síðast voru menn fljótir til að koma með myndhverfa lýsingu á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í valdabaráttunni innan Sjálfstæðisflokksins.
Kvenhatrið nær þó ekki alltaf yfirhöndinni. Önnur umdeild kona í valdamesta embætti lands síns er Angela Merkel. Hún er ekki hötuð í heimalandi sínu, langt í frá, hún er margfalt vinsælli en flokkur hennar, Kristilegir demókratar, og ríkisstjórnin sem hún leiðir. Hún er þó ekki elskuð af öllum, og hún hefur að sumu leyti beitt svipuðum aðferðum og Margaret Thatcher gerði í innanflokksmálum, að losa sig fljótt og vel við hættulega karlkyns keppinauta, sem stundum bera sig ekki vel á eftir. Til valda komst hún einmitt með því að vera fyrst að benda á að flokkurinn þyrfti að gera upp við Helmut Kohl sem þá stóð hnédjúpt í pólitísku foraði sem snerist um ólögleg fjárframlög til flokksins. Hún var hins vegar ekki hafin upp til skýjanna strax og lék þá snjallan millileik í valdabaráttunni. Af því að valdamennirnir í flokknum vildu hana ekki bauð hún Edmund Stoiber, formann systurflokks Kristilegra demókrata, að vera kanslaraefni og hann tapaði fyrir Gerhard Schröder sem þá varð kanslari annað kjörtímabil í röð. Eftir það var leiðin greið fyrir hana.
Angela Merkel hefur kannski pólitískara nef en flestir aðrir og það kann að skýra vinsældir hennar heima fyrir. Hún hefur undanfarin ár einfaldlega alltaf skipt um skoðun í stórum málum þegar hún hefur áttað sig á því hvernig vindurinn blæs. Dæmi um þetta eru kjarnorkumálin. Græningjar og Sósíaldemókratar í Þýskalandi höfðu ákveðið loka kjarnorkuverum í áföngum í Þýskalandi meðan þeir voru við völd og hafði hægri stjórn Merkel ákveðið að snúa því við. En eftir slysið í Fukushima kúventi hún, mörgum samflokksmönnum og ýmsum iðnjöfrum til mikillar mæðu. Sama gerðist eftir að Sósíaldemókratar tilkynntu með lúðraþyt að þeir vildu lágmarkslaun í landinu. Merkel svínbeygði sína eigin ríkisstjórn til að koma fram með ámóta loforð og var fyndið að heyra Peer Steinbrück, kanslaraefni Sósíaldemókrata segja á eftir „við erum origínallinn!“
En þótt Merkel sé vinsæl í heimalandinu er annað uppi á teningnum annars staðar í Evrópu, þar sem mótmælendur halda uppi myndum af henni með hakakrossum og yfirskeggi Hitlers, gamalkunnug leiðarstytting að gagnrýni á Þjóðverja tæpum sjötíu árum eftir lok seinni heimsstyrjaldar. Það er kannski ekki skrýtið að hún sé táknmynd sparnaðarpólitíkurinnar í Evrópu sem margir gagnrýna, en kannski dæmigert fyrir eitthvert undirliggjandi viðhorf til valdakvenna að beitt sé ódýrustu brögðum og líkingum sem finna má í mælskulistarskápnum.
Kraftaverkið sem vatt upp á sig
9. October, 2024Sýslumaður dauðans
8. October, 2024Streym mér ei
1. October, 2024Deila
[/container]
Leave a Reply