Heimsins flottustu flíspeysur

flispeysur
Mynd: Rantes

Ég kaupi engin blöð og engin tímarit. Ég les bara það sem mér berst ókeypis. Ég kaupi ekki áskrift að neinni sjónvarpsstöð. Nei, ég lýg því, ég neyðist nefnilega til að vera með sjónvarp um símalínuna þar sem loftnetið uppi á þaki vill ekki eiga í neinu sambandi við viðtækið. Grunnáskrift að símasjónvarpi býður upp á aðgang að nokkrum sjónvarpsstöðvum. Lengi vel gat ég horft á kínverska stöð og fylgdist af miklum áhuga með framgangi mála þar á bæ. Ekki komst ég hjá því að heyra af höfninni frækilegu Kínverjanna, Port of Dandong. Hún er í norðausturhluta Kína, svona á svipuðum stað og Egilsstaðir hér hjá okkur á Íslandi. Hafi maður í huga að stunda viðskipti og vöruflutninga þarna austurfrá þá er höfnin sú víst staðurinn. Það vissi ég ekki fyrr en með tilkomu Kínasjónvarpsins í líf mitt. Svo neyddist ég til að skipta um símafyrirtæki. Nú get ég horft á fréttir á amerískri stöð og danskri stöð.

Þótt dagar afnotagjalda séu liðnir og engin sjónvarpslögga lengur á ferðinni að kontrólera hvort ekki kunni að finnast sjónvarp á heimilinu borga ég að sjálfsögðu nefskatt. Blessaður nefskatturinn veitir mér aðgang að ríkissjónvarpinu. Og það er nú sú sjónvarpsstöð sem ég hef mest horft á í gegnum tíðina. Ég hef ekki komist almennilega upp á lag með Ameríkanana en sá að Danirnir voru með þátt um Findus og nautakjötið sem var hrossakjöt. Ég saknaði slíkrar ítarumfjöllunar í mínu eigin ríkissjónvarpi. Ég var líka mjög örg yfir að fyrir utan ítarumfjöllunarleysið af hrossanautamálinu var skrifað lasanja á vefnum hjá þeim. Afhverju í ósköpunum lasanja? Lasagna er lasagna. Þá skiptir engu máli hvort í því sé nautakjöt, hrossakjöt eða ekkert kjöt. Og pizza er pizza. Ekki pítsa. Ekki flatbaka. Í útlöndum er ekki skrifað sgir, nú eða Kjebblavigg. Keflavík er reyndar staðarheiti, en við eigum víst engan heimsfrægan mat nema skyrið. Varla er í útlöndum talað um staði á Íslandi eins og til dæmis Creek Square í Smokey Bay eða Wetherrivercrook í Capefjord.

Blóðþrýstingurinn rauk svo upp hjá mér þegar ég horfði á fréttir ríkissjónvarpsins af loðdýrum. Réttara sagt voru fréttirnar af skinnaverði. Verð á minkaskinni í hæstu hæðum og á heimsins stærsta skinnamarkaði í kóngsins Kaupmannahöfn skála allir brosandi glaðir og hamingjusamir. Í Landanum er fjallað ítarlega um málið og hróðugur talar Gísli okkar Einarsson við enn hróðugri loðdýrabónda og ekki var stjórnarformaðurinn danski minna hróðugur. Danskir fjárfestar flykkjast til Íslands að skoða aðstæður hér og ein dönsk fjölskylda ku víst nú þegar vera sest að í Skagafirði og rækta þar minka. Ekki tók ég eftir að ríkissjónvarpið fjallaði um neikvæðar hliðar á loðdýrarækt. Ég man bara eftir orðum eins og góð staða, hagkvæmni, slagkraftur, jákvæður markaður, ákjósanlegar aðstæður, miklar framfarir, mikil uppsveifla, mikið sóknarfæri, gjaldeyristekjur, já, gjaldeyrir fyrir milljarða. Gríðarlegir markaðir hafa opnast í Asíulöndunum, einkum Kínverjar kaupa skinnin á kóngsinskaupmannahafnarskinnamarkaðnum stóra. Ég velti samt öðru gríðarlegu fyrir mér, en það er magnið af ammóníaki sem óhjákvæmilega fylgir loðdýrarækt, að ekki sé nú minnst á minkaskrokkana 190 þúsund sem falla til árlega. Væri þjóðráð að nota kjötið í lasagna frekar en að urða það. Nú eða bjúgu ef við viljum vera þjóðleg. En er samt virkilega nauðsynlegt að fá danskar fjölskyldur til að flytja í Skagafjörðinn, reyna að setja heimsmet í skinnaverði og fjölga olíubrælandi skipaferðum milli Dandong og Köben? Er ekki hægt að fá Kínverja í norðurljósaferðir í Skagafjörðinn og selja þeim flíspeysur frekar en pelsa? Er ekki flís gert úr gömlum plastflöskum? Erum við ekki mest og best í gosdrykkjaþambi og er það bara ekki fjandans nóg? Þurfum við nokkuð að níðast á villtum dýrum til að setja fleiri heimsmet?

Guðrún Erna Högnadóttir,
meistaranemi í ritlist.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *